Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:31:19 (185)

1998-10-08 10:31:19# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:31]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Við tökum upp þráðinn á ný þar sem frá var horfið í umræðunni í gær við að fjalla um till. til þál. um undirritun Kyoto-bókunar sem er í raun fyrsta sameiginlega mál samfylkingar Alþb., þ.e. því sem eftir er af Alþb., Alþfl., Þjóðvaka og Kvennalista. Í þáltill. segir:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.``

Umræðan í gær var um margt mjög athyglisverð. Hún var á vissan hátt prófsteinn á það hvort hugur fylgir máli hjá samfylkingu þessara flokka og flokksbrota.

Þegar samfylkingin kynnti málefnaskrá sína varð uppi fótur og fit í þjóðfélaginu. Menn voru ekki alls kostar klárir á því um hvað málið snerist, hvað þessar tillögur kostuðu og þar fram eftir götunum. Í raun má segja að þegar við fórum að skoða þessa þáltill. og hlusta á rökstuðninginn í gær vantaði á ákveðin rök í málið.

Hins vegar er margt athyglisvert og gott í þáltill. sem ég get verið sammála. Ég er auðvitað sammála því að draga beri úr útblæstri fiskiskipa og annarra farartækja. Það beri að gera á markvissan hátt. Einnig ber að draga úr mengun með aukinni gróðurrækt, skógrækt og landgræðslu og sem betur fer hefur áhugi á skógrækt og landgræðslu og hvers konar gróðurrækt aukist mjög mikið á Íslandi þannig að við eigum að kappkosta að leggja enn meira fé til þess en við höfum gert. Þá ber að nefna mjög jákvæð mál sem við höfum verið að leggja út í á síðustu árum. Það má t.d. nefna Suðurlandsskóga sem er mikið framtíðarverkefni til næstu 40 ára og Héraðsskógaverkefnið sem er eldra verkefni og gengur í raun mjög vel og skógrækt í landinu er að verða almennt áhugamál borgaranna.

Ég er líka sammála því sem kom fram í umræðunni í gær að okkur ber að fara eins vel og kostur er með orkulindir þjóðarinnar. Þær eru ekki óþrjótandi og við getum gert mun betur í þeim efnum en við höfum gert.

Í umræðunni í gær kom fram hjá hæstv. umhvrh. að það er ætlan ríkisstjórnarinnar að staðfesta Kyoto-samkomulagið. Hins vegar erum við enn að leita eftir sérstöðu Íslands og ég tek undir það sem kom fram hjá þingmönnum, t.d. hv. þm. Tómasi Inga Olrich og hv. þm. Siv Friðleifsdóttur og reyndar hæstv. umhvrh., að ekki væri enn þá tímabært að skrifa undir þetta samkomulag. En til þess að öllu sé haldið til skila haldið árétta ég enn spurningu mína. Því miður er hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ekki í salnum núna en hér er hv. þm. Ágúst Einarsson, sem er 1. flm. þessarar tillögu, og því árétta ég spurninguna um það hvort þessir ágætu þingmenn muni beita sér gegn því að magnesíumverksmiðja verði reist á Suðurnesjum til þess í raun að uppfylla þau áform sem koma fram í þessari þáltill.