Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 10:37:08 (186)

1998-10-08 10:37:08# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[10:37]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu þál. um undirritun Kyoto-bókunarinnar og er þetta eftir því sem sagt er fyrsta mál þríflokksins sem lagt er fram í sameiningu eftir fræga málefnaskrá sem birt var opinberlega fyrir nokkrum dögum. Rokið er fram með öll möguleg mál sem flokknum dettur í hug að geti vakið athygli og nú er það að knýja á um það að Kyoto-samþykktin verði strax og þá er ekkert ef eða kannski í þeim efnum heldur bara strax.

Rökin eru að sjálfsögðu einhver fyrir því að gera þetta strax en þau rök eiga ekki við um Ísland. Ísland hefur verið hreinasta land Vestur-Evrópu og vesturveldanna almennt síðustu 10 árin og vinna okkar við að ná niður mengun í andrúmsloftinu hefur verið margföld miðað við það sem annars staðar þekkist í heiminum. Við vorum fyrir 1990 búnir að ná mengun frá húsahitun miðað við aðrar þjóðir niður í nánast ekki neitt með því að nýta heita vatnið og olíukynding er nánast undantekning. Þar sem ekki er hægt að koma við heitu vatni er rafmagnskynding á flestum stöðum þannig að við vorum búnir að ná þeim árangri fyrir 1990 sem aðrar þjóðir eru að berjast við að ná í dag og eiga langt í land með að ná. Að þessu leyti höfum við náð miklu framar en aðrir og eigum mjög erfitt með að uppfylla þau ákvæði sem eru í þessu Kyoto-samkomulagi þó við höfum svigrúm. Það er því mjög hættulegt að hlaupa til nú á þessu augnabliki og krefjst þess að undirritað verði án þess að staða okkar sé könnuð frekar.

Í þessari umræðu hefur komið upp að margt er á döfinni varðandi atvinnumál þjóðarinnar og ekki hvað síst á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum sem er í vinnslu og mun skýrast á næstu mánuðum hvort af verður eins og magnesíumverksmiðja sem mun geta skapað nokkur hundruð manns atvinnu ef af verður. Það er augljóst að ef Kyoto-samþykktin verður undirrituð eins og hún er þá verður ekki af þessari framkvæmd. Það verður heldur ekki af öðrum framkvæmdum sem hafa verið til athugunar eins og Keilisnesálver sem á að verða eitt stærsta álver sem risið hefur a.m.k. á Íslandi. Allt þetta hefur verið hugsað til þess að skapa vinnu fyrir svæðið á suðvesturhorninu, jafnvel í tengslum við það að herinn mundi fara. Það hefur heyrst að herinn mundi fara en enginn veit hvenær. Við vonumst til þess að hann fari ekki en við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir því að það geti gerst þannig að menn hafa á Suðurnesjum sem annars staðar verið að reyna að byggja upp möguleika sem verða til framtíðar. Mér finnst það því mikið ábyrgðarleysi og nánast kæruleysi og óábyrgur málflutningur frá þessum nýja flokki, þríflokknum, að vera með tillöguflutning eins og komið hefur fram bæði hér og í málefnaskránni að stoppa í rauninni alla þá möguleika og koma í veg fyrir þá möguleika sem við höfum í stöðunni til þess að byggja upp atvinnu á svæðinu, á Suðurnesjum sérstaklega. Mér finnst einhvern veginn eins og þríflokkurinn hafi einbeitt sér sérstaklega að því að koma höggi á Suðurnesjasvæðið með einhverju móti. (Gripið fram í: Það er af og frá.) Ég veit ekki hvers vegna mönnum finnst það spennandi svæði að höggva í en þessi þáltill. lýtur sérstaklega að þeim málum. Verið er að reyna að koma í veg fyrir að þeir stóriðjukostir sem eru í umræðunni um þetta svæði verði að veruleika með því að undirrita þessa bókun eins og tillagan gerir ráð fyrir. Það er bókstaflega verið að því.

Í málefnaskrá þríflokksins er einnig gert ráð fyrir því að herinn fari úr landi og það helst strax í dag. Það stendur í málefnaskránni. Reyndar hafa hv. þm. sumir hverjir frá jafnaðarmönnum þrætt fyrir þetta en það kemur fram í þessari frægu málefnaskrá ef ég má, með leyfi forseta, endurtaka það sem þar stendur:

,,Teknar verða upp viðræður við Bandaríkjastjórn um varnarsamninginn, uppsagnarákvæði hans taki gildi árið 2000 og varnarsamningurinn er úti árið 2001.``

Það er reyndar búið að leiðrétta þetta og það hefur komið fram en varnarsamningurinn verður ekki úti 2001. Varnarsamningurinn er ótímasettur. Svo segir hér:

,,Fyrir liggur vilji Bandaríkjamanna til að loka herstöðvum í Evrópu og draga úr herstyrk sínum, þar á meðal á Íslandi.``

Það hefur hvergi legið fyrir að Bandaríkjamenn vilji draga úr herstyrk sínum á Íslandi, það hefur hvergi nokkurs staðar komið fram. Engar umræður hafa farið fram eða óskir komið fram frá Bandaríkjamönnum við utanrrn. eða ríkisstjórnina um að draga úr varnarliðinu á Keflavík eða þá að loka þessari herstöð. Þetta er alger misskilningur og uppspuni og í rauninni fáránlegt að vera að koma fram með svona á þessum tímum þegar menn héldu að nokkuð góð samstaða væri um samstarfið við Bandaríkjamenn og NATO yfirleitt.

Hæstv. forseti. Jafnaðarmenn hafa verið að reyna af veikum mætti að klóra yfir vitleysu sína vegna þess að þetta var ekki stefna þeirra. Stefna þeirra hefur alltaf verið sú að styðja NATO og styðja varnarliðið og samstarf okkar við Bandaríkjamenn í varnarmálum. En þeir hafa verið knésettir af Alþb. til þess að samþykkja svona gjörning, skammast sín þó fyrir það en þeir komust ekki undan þeim samþykktum sem hafa þegar verið gerðar. Ef þeir eru menn sem ætla að standa við orð sín hljóta þeir að standa við þessa samþykkt hvað sem þeir segja nema þeir meini ekki neitt með því sem þeir eru að segja í þessu plaggi. Það sannar kannski það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði í gær að þeir meina bara akkúrat ekki neitt með því sem þeir hafa verið að samþykkja og ætla sér að reyna að sannfæra kjósendur um það sem þeir eru með á þessari málefnaskrá sem ég held, herra forseti, að öllum sé ljóst að er hvorki fugl né fiskur.