Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:13:37 (196)

1998-10-08 11:13:37# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:13]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var heldur dapurt að heyra frá hæstv. umhvrh. að þegar hann lýsir viðhorfinu til Kyoto-bókunarinnar og spurningarinnar um staðfestingu hennar, þá er hann aðeins að lýsa persónulegu viðhorfi. Hæstv. umhvrh. hefur greinilega ekkert umboð frá íslensku ríkisstjórninni til þess að fara með málið, út frá þeirri forsendu að hans vilji nái fram að ganga. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað sagt að hann vilji vera samferða öðrum þjóðum, hann vilji staðfesta bókunina, það verði niðurstaða Íslands en hann veit ekkert um ríkisstjórnina að öðru leyti.

Við höfum hins vegar heyrt í öðrum talsmönnum ríkisstjórnarinnar sem ég þykist vita að séu nokkuð þyngri á metaskálunum en hæstv. umhvrh., því miður. Þar nefni ég sérstaklega til hæstv. utanrrh., sem fer með hið formlega vald að því er varðar þetta sem alþjóðasamning. Hann hefur dregið það mjög skýrt upp að að hans mati komi það ekki til greina að Ísland verði með ef ekki verður orðið við kröfunni um að við höfum opið hús að því er varðar stóriðjuframkvæmdir. Hann hefur lýst því sem gífurlegu efnahagslegu áfalli fyrir Íslendinga ef ekki verði orðið við þeirri kröfu. Reynt er að ná fram séróskum í skjóli bókunar sem fékkst í Kyoto í samfylgd með Mónakó og Liechtenstein. Þetta er nú málafylgja, virðulegur forseti. Ég hef ekki íbúatöluna á hraðbergi í Mónakó. Ferkílómetrarnir eru ekki ýkja margir. Búa ekki um 30 þúsund manns í Liechtenstein? Um 1/10 hluti Íslendinga eða svo. Þetta lykillinn að því að fá þessa undanþágu.