Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 12:23:30 (220)

1998-10-08 12:23:30# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[12:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er sannarlega sérkennilegur málflutningur og ber ljóst merki um að hugur býr ekki að baki þessum tillöguflutningi og það er það alvarlega. Ég hef lýst afstöðu minni til tillögunnar. Ég er reiðubúinn að skrifa upp á tillöguna og standa að henni. En þýðir að bjóða þjóðinni að koma með þessa kröfu og svara því ekki um leið hvort menn eru andvígir því að ráðast í stóriðjuuppbyggingu, stóriðjuframkvæmdir sem munu, ef þær gengju allar fram, líklega tvöfalda þá losun gróðurhúsalofttegunda sem nú er um að ræða eða fara langt með það? Hvers konar málflutningur er þetta og vísa síðan á landgræðslu og skógrækt og aðra góða hluti sem eru vissulega möguleiki inni í þessu samhengi en skipta ekki nokkru máli hvað magn snertir, ekki nokkru máli ef borið er saman við þær risaframkvæmdir sem ríkisstjórnin áformar? Það verður spurt um þetta, hvaða hald er í þessum tillöguflutningi þegar kemur til afstöðu einstakra þingmanna og þá væntanlega þingflokka í heild sinni. Spurningin er þessi: Eru menn reiðubúnir að snúa af stóriðjubrautinni, setja strik undir hana og taka upp nýja stefnu?