Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 15:03:48 (246)

1998-10-08 15:03:48# 123. lþ. 6.6 fundur 12. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[15:03]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Þegar ég tek til máls vekur það athygli mína að fyrir utan Alþingishúsið á Austurvelli stendur hópur fólks sem hefur staðið þar í rigningunni um skeið og lesið upp kvæði og fleira gott úr íslenskum bókmenntum. Hvað er það sem veldur stöðu þessa fólks fyrir utan Alþingishúsið? Það er að vekja athygli á þeirri stefnu sem er uppi hjá íslenskum stjórnvöldum og verið hefur alllengi, að ráðast í virkjanir í landinu og virkja hratt til hagsbóta að sagt er fyrir landsfólkið en með gífurlega miklum áhrifum sem það mun hafa á íslenska náttúru. Ég held að við ættum að hlusta á þau skilaboð sem þarna er verið að flytja. Ég vildi nefna þetta þegar ég hef mál mitt um þá stefnumörkun sem ég mæli fyrir í formi till. til þál. um sjálfbæra orkustefnu.

Sú tillaga sem hér er flutt af þingmönnum í þingflokki óháðra ásamt mér hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, Steingrími J. Sigfússyni og Ögmundi Jónassyni gerir ráð fyrir því að í fyrsta sinn, a.m.k. um langt skeið, verði reynt að draga upp heildstæða stefnumótun varðandi nýtingu orkulinda landsins og verndun landsins í tengslum við þá nýtingu og koma á viðunandi sátt í þeim málum sem eru nú mjög umdeild og eiga eftir að verða það um langa hríð, ekki síst ef fram heldur sem horfir.

Við höfum gefið þessu máli heitið sjálfbær orkustefna og það vísar til þeirrar stefnumörkunar sem er nú orðin á vitund flestra og komið var á framfæri á 9. áratug aldarinnar og sérstaklega í tengslum við ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Rio de Janeiro fyrir sex árum. Hugtakið hafði þó komið fram áður, m.a. í skýrslu Brundtland-nefndarinnar sem skilaði af sér með myndarlegu riti um sjálfbæra þróun árið 1987, rit um sameiginlega framtíð okkar. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að lesa upp tillögutextann sem er svofelldur:

,,Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að undirbúa, í samvinnu við umhverfisráðherra og þingflokka, sjálfbæra íslenska orkustefnu sem hafi að markmiði:

a. að orka frá endurnýjanlegum orkugjöfum leysi innflutta orku af hólmi,

b. að dregið verði markvisst úr orkusóun og losun gróðurhúsalofttegunda,

c. að ríkulegt tillit verði tekið til náttúruverndar og umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.

Forsenda þessarar stefnumótunar verði að Ísland gerist fullgildur aðili að Kyoto-bókuninni frá 12. desember 1997 við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Á meðan þessi stefna er í mótun verði ekki ráðist í orkufrekan iðnað umfram það sem þegar hefur verið samið um og frestað að innleiða hér reglur Evrópusambandsins um innri markað í raforkumálum.``

Þetta er texti þáltill. sem er lögð fyrir þingið. Þessari tillögu fylgir ítarleg greinargerð. Þar er í upphafi leitast við að skýra hvað átt sé við með hugtakinu sjálfbær orkustefna og bent á að í áherslum Sameinuðu þjóðanna er lögð áhersla á eftirfarandi þætti til að stuðla að sjálfbærri orkustefnu. Ég ætla að leyfa mér að vitna til greinargerðar:

,,orkusparnað og bætta nýtingu orku á öllum sviðum, ekki síst í þróuðum ríkjum,

umhverfisvæna orkugjafa, ekki síst endurnýjanlega orku og nýja og hreina tækni,

orkugjöld vegna mengunar og/eða reglur er takmarki losun mengandi efna,

afnám niðurgreiðslna til kjarnorku og hefðbundinna orkugjafa,

að heildarkostnaður, m.a. vegna umhverfis, verði sýnilegur og hluti orkufjárfestingar,

jöfnuð í aðgengi að orkuþjónustu og áhrif almennings á mótun orkustefnu,

forustu ríkisstjórna og opinberra aðila í að ryðja braut fyrir sjálfbæra orkustefnu,

áætlanir og aðgerðir þjóðríkja í þágu sjálfbærrar orkustefnu.``

Við minnum á að orka er undirstaða efnahagsþróunar og við í þessu landi búum óvenjuvel hvað snertir bæði þá orku sem framleidd er og einnig orkulindir að tiltölu við fólksfjölda og vegna eðlis orkulindanna sem við tölum um almennt sem sjálfbærar þó að við þurfum vissulega að gæta að áhrifum þessara auðlinda okkar að því er varðar nýtinguna.

Það er alveg ljóst að þrátt fyrir að orkugjafar okkar séu endurnýjanlegir, endurnýi sig eins og vatnsaflið alveg sérstaklega og jarðvarminn, þó með ákveðnum takmörkunum, hefur nýting þessara orkugjafa veruleg áhrif á umhverfið. Þau áhrif eru auðvitað allt annars eðlis en gerist með framleiðslu orku á grunni jarðefnaeldsneytis, að ekki sé talað um kjarnorku. Varðandi báða þessa orkugjafa eru takmörkin orðin mjög ljós og birtast okkur m.a. í þeirri umræðu sem fram fór fyrr á þessum degi um samninginn um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina þar sem jarðefnaeldsneytið kemur sérstaklega við sögu en það eru ekki nema hörðustu talsmenn kjarnorkuleiðarinnar sem halda uppi vörnum fyrir kjarnorku. Almennt er viðurkennt að hún sé ekki vistvænn orkugjafi, hún sé ekki orkugjafi sem hægt sé fyrir mannkynið að nýta til frambúðar, hún sé ekki sjálfbær og kemur þar margt til, alveg sérstaklega sá úrgangur sem fylgir kjarnorkuvinnslunni og ekki hefur tekist að leysa vandamálin við förgun hans eða vörslu. En nýting vatnsaflsins veldur einnig hvarvetna í heiminum verulegri röskun og þarf ekki að hafa mörg orð um það í þessum sal svo oft sem um þau áhrif hefur verið rætt og verður rætt, sem nýting vatnsaflsins hefur á umhverfi okkar og náttúru landsins. Rétt er að nefna það hér að erlendis er komið að því að menn eru farnir að rífa vatnsaflsvirkjanir vegna umhverfisáhrifa. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er farið að hverfa frá eða rífa virkjanir sem taldar eru hafa óviðunandi áhrif á umhverfið, þar á meðal á veiði í viðkomandi vötnum.

En það sem ég vil draga alveg sérstaklega fram í sambandi við þessa tillögu og það sem fylgir henni er sú sýn til þessara mála sem ég hef nefnt áður í umræðu á þessum degi að magn hinna endurnýjanlegu orkulinda Íslands hefur verið gróflega ofmetið af þeim sem gera úttektir á verkfræðilegum forsendum, fyrst og fremst, og út af fyrir sig er ekkert við það að athuga. Tölur sem við þekkjum í þessu sambandi og hér vil ég nota viðmiðunina um teravattstundir í ársframleiðslu en teravattstundir er níunda veldi hvað snertir núllin, þ.e. níu núll fylgja á eftir tölunni, en það gefur þá tiltölulega lága tölu. Hvað vatnsaflið snertir er þessi tæknilega hagkvæma orka talin nema, og sú tala hefur lengið verið notuð, 30 teravattstundir, jarðvarminn hefur verið reiknaður sem svarar 20 teravattstundir til raforkuframleiðslu þannig að samanlagt magn þessara tveggja auðlinda hefur verið reiknað um 50 teravattstundir. Það er nokkuð langt síðan menn áttuðu sig á því að það væri ekki frambærilegt á sama tíma og menn tala um hlífð við náttúru landsins að reikna með þessum tölum að þarna yrði um nýtingu að ræða í reynd sem þessu svaraði. Menn sem hafa verið reiðubúnir til viðræðu og vilja horfa á önnur sjónarmið hafa fyrir alllöngu sagt sem svo að ekki veitti af að draga þriðjung frá þeirri tölu. Ég fullyrði að það er of lítið og í framsetningunni hér, horft til lengri tíma, höfum við flutningsmenn sett fram sem hugmynd að menn eigi í langtímaáætlunum í íslenskum orkubúskap alls ekki að reikna með meira en 25 teravattstundum sem hagnýtanlegri orku frá vatnsafli og jarðvarma samtals. Það er þó vel í lagt, tek ég fram, og að mínu mati mætti sú tala gjarnan vera meira varúðarmegin í þessu sambandi. Ef við lítum á málið út frá þessu að menn hefðu þessa orku til umráða til næstu aldar, þetta framleiðslumagn af orku, þá er af minna af taka en almennt er rætt um.

[15:15]

Við skulum aðeins líta á tölur í þessu sambandi. Við framleiðum nú samtals tæpar sex teravattstundir af raforku í landinu, meira en helmingur fer til framleiðslu fyrir stóriðjufyrirtækin. Ef stóriðjufyrirtæki nýttu þá raforku, sem gert hefur verið ráð fyrir, t.d. með stækkun á Ísal uppi í 200 þúsund árstonn sem starfsleyfi er fyrir og Norðurál upp í umrædd 180 þúsund tonn, þá bætist auðvitað verulega við þetta. En við skulum láta það liggja milli hluta og reikna með þeirri stóriðju sem nú er. Í raforkuspá orkuspárnefndar frá árinu 1997, sem ég hef hér handa á milli, er þetta sýnt í greinargerð á bls. 9. Hvert er það magn að óbreyttri stóriðju sem mætti reikna með til ársins 2025? Það eru tæpar 10 teravattstundir, það eru 9,4 teravattstundir nákvæmlega reiknað og væri engu bætt við. Samkvæmt spá orkuspárnefndar væri þetta að óbreyttri stóriðju fram til ársins 2050 11,3 teravattstundir. En inn í dæmið skulum við taka það sjálfsagða markmið sjálfbærrar orkustefnu að við ætlum okkur að útrýma innflutningi á orku til landsins í formi jarðefnaeldsneytis. Hve mikið er það magn sem flutt er inn í því formi umreiknað í raforku? Um það fékk ég upplýsingar frá Orkustofnun og það er birt sem fylgiskjal með tillögunni hversu mikið það er. Þá fáum við út tölu sem segir okkur ef við ætluðum að útrýma þessari innfluttu orku getur það numið hátt í 20 teravattstundum en minna þó ef um er að ræða efnarafala og tiltekna framleiðsluaðferð, t.d. við vetnisnotkun, þá er hægt að ná fram meiri hagkvæmni. Ég hef því sett þetta fram þannig að um sé að ræða 10--20 teravatttíma sem við þurfum í þessu skyni, mismunandi mikið eftir því hvaða tækni yrði notuð í einstökum atriðum.

Virðulegur forseti. Af þessu sjáum við að við erum þegar komin á þau mörk þar sem við þurfum að fara af fyllstu alvöru að gæta okkar ef við ætlum að hafa til ráðstöfunar óbeislaðar orkulindir til að taka í notkun til framleiðslu vistvænna orkugjafa sem komi í staðinn fyrir innflutt eldsneyti á næstu áratugum. Þá erum við farin að ráðstafa þeim 25 teravatttímum sem ég nefndi sem líklegt þak ef menn ætla að sýna náttúru landsins þá hlífð sem henni ber. Ég vildi draga fram þá meginsýn sem tengist þessu máli og jafnframt minna á það hvar við erum stödd í sambandi við virkjanir í landinu. Segja má að varla sé nefnd sú virkjun sem ekki séu athugasemdir við, mismunandi eftir aðstæðum, en það er alveg ljóst að sú röskun er orðin mjög viðkvæm í hugum þjóðarinnar sem fylgir nýjum vatnsaflsvirkjunum í landinu og það mun einnig gilda um jarðvarmavirkjanir, þó mismunandi eftir aðstæðum. Þess vegna þurfum við að átta okkur á því að við höfum engin efni á því að binda meira magn orku en orðið er í málmbræðslur í þessu landi, í hefðbundna stóriðju, og sú forsenda er sett fram í tillögutextanum.