Sjálfbær orkustefna

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 15:45:58 (250)

1998-10-08 15:45:58# 123. lþ. 6.6 fundur 12. mál: #A sjálfbær orkustefna# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[15:45]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Í tilefni af lokaorðum hv. frsm. tillögunnar og vegna umræðunnar sem hann tók upp, m.a. í umræðum um stefnuræðu forseta, um reglur Evrópusambandsins um innri markaði í raforkumálum svo ég vitni beint til orðalags í tillögunni, verð ég því miður að upplýsa að ég hef ekki gefið mér tíma til að undirbúa svar við spurningu hv. þm. um hvað sé á döfinni af hálfu hæstv. iðnrh. í sambandi við þennan sérstaka samning.

Ég hafði sannast sagna ekki leitt hugann að því fyrr en rétt fyrir umræðuna að ég mundi hugsanlega þurfa að veita svör af hálfu iðnrh. Það er hárrétt sem hv. frsm. getur um hér að hæstv. iðnrh. er staddur erlendis og ég fer með málaflokk hans um stundarsakir. Ég hefði því kannski getað verið búinn að afla mér upplýsinga um þetta atriði en ég játa að ég er mjög ókunnugur þessum þætti sem hér er getið og nokkuð ítarlega er fjallað um í greinargerð tillögunnar á bls. 7 og bls. 8. Ég hef ekki nákvæm svör um það til þess að færa fram. Ég vildi láta það koma fram í umræðunni af því að hv. frsm. spurði um það sérstaklega hvað hæstv. iðnrh. hugsaði sér um framgang þessa máls.

Í framhjáhlaupi gæti ég látið þess getið að ég sat í byrjun þessarar viku fund með Evrópusambandsráðherrum á EES-samráðsfundi. Þar var ég í hlutverki utanrrh. en þetta mál kom ekki til sérstakrar umfjöllunar þar. Þar voru rædd önnur mál sem reyndar eru sum óuppgerð og gætu orðið átakamál á vettvangi EES-samningsins. Það blandast að öðru leyti ekki inn í þessa umræðu hér en sýnir að menn eru ekki algerlega sammála á þeim vettvangi. Það getur auðvitað þurft að taka á málum, standa vörð um rétt sinn og setja fram skoðanir sínar þó samningurinn kunni að binda bæði varðandi lagasetningu eða löggjöf og reglugerðarsetningu. Hv. þm. er þetta vel ljóst en við þurfum að huga að rétti okkar, ekki síst ef það skarast í þessu efni á við umtalsverða hagsmuni og möguleika okkar til að nýta orkulindir okkar á eigin forsendum.

Hæstv. forseti. Ég verð að láta þetta duga sem stutt innlegg inn í umræðuna af hálfu iðnrn. þar sem ég er ekki nógu kunnugur þessum þætti málsins.