Einkavæðing fiskeldisfyrirtækisins Stofnfisks

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 15:06:56 (256)

1998-10-12 15:06:56# 123. lþ. 7.1 fundur 39#B einkavæðing fiskeldisfyrirtækisins Stofnfisks# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[15:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Um nokkurn tíma hefur verið unnið að undirbúningi þess að selja eða einkavæða eða hvað við viljum nú kalla það nokkur fyrirtæki sem heyra undir landbrn. og Stofnfiskur er eitt af þeim fyrirtækjum. Stofnfiskur hefur, eins og nafnið bendir til, annast það hlutverk að fara með og gæta erfðaefnis í laxfiskum og annast þá þjónustu. Það var reyndar stofnað sérstaklega í kringum það á sínum tíma. Samningurinn sem síðan er gerður við þetta fyrirtæki um frekari þjónustu gagnvart opinberum aðilum fjallar m.a. um breytingar sem við höfum gert á Veiðimálastofnun og breytingar sem hafa verið gerðar um framkvæmdir eða verkefni í Kollafirði. Stofnfiskur hefur tekið þessi verkefni að sér með sérstökum samningi. Það var gert nokkru áður en farið var að undirbúa sölu fyrirtækisins eða einkavæðingu þess. Þegar sá undirbúningur hófst var litið yfir þennan samning aftur og hann reyndar endurskoðaður nokkuð með tilliti til þess að samningurinn gæti fylgt og verið samningur við fyrirtæki sem ekki væri í eigu ríkisins eða ríkisstofnun heldur einkafyrirtæki og á því stigi ekki taldir neinir meinbugir á málinu af hálfu ráðuneytisins eða þeirra sem um það mál fjölluðu þar.

Nú hefur verið bent á það í umfjöllun í fjölmiðlum, eins og hv. þm. nefndi, að framkvæmd einkavæðingarinnar eða sölunnar skarist á við starfsreglur einkavæðingarnefndar sem ríkisstjórnin hefur samþykkt. Ég minnist á það í því blaðaviðtali sem hv. þm. vitnaði til áðan, sem ég er því miður ekki með fyrir framan mig, að sé það svo að þar hafi að einhverju leyti verið farið með öðrum hætti að en ber að gera, þá vænti ég þess að um það komi athugasemdir frá einkavæðingarnefnd til mín og þá verður tekið á málinu í þeim farvegi en það hefur ekki gerst, í það minnsta ekki enn.