Framlagning stjórnarfrumvarpa

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 16:00:17 (292)

1998-10-12 16:00:17# 123. lþ. 7.95 fundur 52#B framlagning stjórnarfrumvarpa# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[16:00]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs undir liðnum um fundarstjórn en hefði allt eins getað gert það undir liðnum um störf þingsins í upphafi fundar. Tilefnið er þetta litla stjfrv. á þskj. 77 frá sjútvrh., um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Reyndar ekki frv. sjálft í eðli sínu heldur það sem felst í því. Hér er um að ræða annað stjfrv. frá því að við tókum fyrir fyrsta mál þingsins, þ.e. fjárlögin. Þetta er lítið frv. tæknilegs eðlis um að fresta gildistöku laganna.

Í síðustu viku, herra forseti, ræddum við frv. frá félmrh. þar sem við staðfestum gildistöku sveitarstjórnarlaganna sem var lögfest með bráðabirgðalögum í sumar. Það mál allt með stjórnsýslu miðhálendisins innan borðs er orðið frægt að endemum, jafnalvarlegt og það er í raun.

Aðeins hafa komið fram þessi tvö frv., herra forseti, á dagskrá á fyrstu 12 dögum þingsins. Þegar við þingflokksformenn fengum í dag að sjá drög að dagskrá vikunnar fram undan varð ljóst að fyrirhugað er eða hugsanlegt er að stjfrv. sem e.t.v. verður útbýtt í dag og á morgun komi á dagskrá þingsins næsta fimmtudag. Þetta þýðir að á fyrstu 15 dögum þingsins, í hálfan mánuð eftir þingsetningu erum við ekki að ræða nein almennileg stjfrv. Þetta sama gerðist í fyrra. Þá voru engin frv. fyrstu vikur þingsins, stjfrv. komu seint fram en, herra forseti, þegar leið að vori var þrýst á að allt sem fram hafði komið að vetri yrði afgreitt. Sum frv. voru nýkomin fram, en þau skyldu afgreidd.

Vorið varð átakasamt eins og öllum er minnisstætt og stjórnarandstaðan var sökuð um að tefja þingstörf þegar hún óskaði eftir því að viðhöfð væru vönduð vinnubrögð um alvarleg og mikilvæg frv. fyrir þjóðina.

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur ekki unnið heimavinnu sína. Þetta er stutt þing vegna kosninganna í vor og mikil ástæða til þess að stjfrv., ekki síst um stærri mál, komi fram í upphafi þings, en því er ekki að heilsa. Við höfum fengið langan lista um stjfrv. sem afgreiða á á þessu þingi en það bólar ekkert á þeim. Það bólar ekkert á þessum frv. Ég gagnrýni þetta harðlega, herra forseti. Við munum væntanlega lenda í því sama og í fyrra, aukafundum verður pressað á og stjfrv. keyrð í gegnum þingið ef að líkum lætur. Við eigum von á stórum, alvarlegum málum. Og ég gagnrýni það, herra forseti, jafngóð og þingmannafrv. eru, að ekkert skuli bóla á stjfrv. og jafnvel hefur það gerst að aðstoðarmenn ráðherra hafa sagt að stjfrv. í viðkomandi ráðuneytum séu tilbúin í ráðuneytunum og ég spyr: Hvað dvelur orminn langa?

(Forseti (ÓE): Forseti á erfitt með að svara því en hlýtur að láta þá skoðun í ljós að þetta sé svona á mörkunum að þetta eigi við undir liðnum um fundarstjórn forseta.)