Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:13:44 (305)

1998-10-12 17:13:44# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:13]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það á að halda loddaraleiknum áfram hér sem hæstv. iðnrh. er búinn að stunda allt þetta ár og sennilega lengur. Hann er að reyna að koma því á framfæri að Landsvirkjun ætli að framkvæma mat á umhverfisáhrifum og málið sé bara í hinum besta farvegi. Ef svo væri eins og hæstv. ráðherra er að tala um þá hefði ég ekki flutt þessa tillögu, þ.e. ef svo væri að fyrir lægi að Landsvirkjun ætlaði að láta fara fram mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það liggur hins vegar ekki fyrir og það liggja fyrir mörg ummæli stjórnarformanns Landsvirkjunar um það að engin slík ákvörðun hafi verið tekin innan fyrirtækisins. Eftir hverju er verið að bíða? Það er nauðsynlegt að allir átti sig á því að grundvallarmunur er á því hvort Landsvirkjun lætur á sínum vegum fara yfir mál og leggur fram skýrslur eða hvort að fylgt er lögum um mat á umhverfisáhrifum. Á því er grundvallarmunur. Hvað vantar á? Jú, það vantar á að borgarar þessa lands komist að málinu og það fari í þann farveg sem lög um mat á umhverfisáhrifum kveða á um, þ.e. að það sé kærufrestur til skipulagsstjóra og það sé kærufrestur til hæstv. umhvrh. Og það er hæstv. umhvrh. sem sker úr að lokum um það sem út af stendur í sambandi við þær athugasemdir sem fram koma. Það er þetta sem beðið er um, að málið verði sett í þennan farveg. Ég vil jafnframt spyrja og vænti þess að það komi fram hér hjá hæstv. umhvrh.: Hvað hefur gerst í ríkisstjórninni viðkomandi málið eftir yfirlýsingu hæstv. umhvrh. í lok júlímánaðar? Hvað hefur gerst?