Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 10:46:45 (407)

1998-10-15 10:46:45# 123. lþ. 11.4 fundur 59#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1997# (munnl. skýrsla), SvG
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[10:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs til að þakka fyrir þá skýrslu sem hér er birt, starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar 1997. Ég vil nú sem stundum áður kvitta fyrir það að ég tel Ríkisendurskoðun vera stofnun sem stendur fyrir sínu. Hún hefur staðið sig vel að flestu leyti og hefur í raun og veru skapað Alþingi nýja aðhaldsmöguleika sem gerir þjóðfélagið betra og opnara vegna þess að það skiptir máli að almenningur í landinu viti hvað er að gerast í ríkisrekstrinum og það komi fram með skipulegum, sanngjörnum og heiðarlegum hætti. Ég tel að starfsmenn Ríkisendurskoðunar hafi unnið frábært starf í þessu efni sem ástæða er til að þakka fyrir nú eins og áður, menn mega ekki gleyma að þakka fyrir þó að þetta hafi staðið nú um alllangt skeið.

Það sem fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þessu sinni, sem ég vil líka vekja sérstaka athygli á, er niðurstaða bresku ríkisendurskoðunarinnar um starfsemi Ríkisendurskoðunar. Þar er um að ræða mjög jákvæða skýrslu sem ég hygg að hafi komið til umræðu síðast þegar við ræddum um ársskýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég átti kost á að kynnast því ásamt nokkrum fleiri hv. þm. að Ríkisendurskoðun okkar er mikils metin af þeim sem þekkja til faglega og vita um hvað þessi mál snúast og breska ríkisendurskoðunin er raunar alveg einstök að því leytinu til. Hún er sú elsta í veröldinni sem stendur undir nafni, eins og fleira gott í því landi, og í raun má mjög margt af henni læra. Og það verður að segjast eins og er að Ríkisendurskoðunin hér hefur lært mjög margt af bresku ríkisendurskoðuninni og núverandi ríkisendurskoðandi okkar hefur gert sér far um að reyna að setja sig inn í það sem þar er verið að gera.

Eitt af því sem hefur tíðkast í Bretlandi um áratuga skeið, ég hygg í eina öld eða svo ef ég man rétt, er að þar er sérstök nefnd í þinginu sem fer yfir málin, fer yfir skýrslur ríkisendurskoðunar og ræðir þær. Ég átti kost á því ásamt fleiri þingmönnum að vera viðstaddur fund í þessari sérstöku ríkisendurskoðunarnefnd í breska þinginu þar sem aðilar frá bresku vatnsveitunum voru kallaðir til, sérstaklega til að reyna að átta sig á því hvernig einkavæðing þeirra hefði gengið fyrir sig, og var afar fróðlegt að kynnast því hvernig þar var unnið, bæði hvernig starfsmenn ríkisendurskoðunarinnar og nefndarinnar undirbjuggu sig og það var líka fróðlegt að heyra hvernig þeir sem voru þar í fyrirsvari svöruðu fyrir sig og höfðu greinilega vandað sig vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir því að þessi ríkisendurskoðunarnefnd í breska þinginu er mikilvæg og hún spyr spurninga sem skipta máli.

Af þeim ástæðum er það sem ég hef hreyft því mjög oft um langt skeið að til verði svipuð nefnd hér, og fjölmargir aðrir þingmenn hafa einnig gert það. Að til verði nefnd sem fari yfir skýrslur Ríkisendurskoðunar, ræði þær og komist að niðurstöðu um þær og ég tel að það sé okkur til vansa að hafa ekki lokið því máli hvernig með þessar skýrslur verði farið.

Ég tel að í raun og veru séu tvö kerfi uppi í grannlöndum okkar sem ætti að styðjast við. Annað er breska kerfið þar sem er um að ræða tiltekna nefnd sem vinnur mjög náið með ríkisendurskoðuninni en hefur þá sérstöðu meðal allra annarra nefnda í breska þinginu að hún er undir forustu stjórnarandstöðunnar og það stendur í þingsköpunum, lögunum og reglunum að þessi nefnd eigi að vera undir forustu stjórnarandstöðunnar. Þannig ætti það að vera hér líka að mínu mati, að nefnd af þessu tagi væri undir forustu stjórnarandstöðunnar á hverjum tíma, nefnd sem færi yfir allar skýrslur Ríkisendurskoðunar, og jafnvel reyndar einnig umboðsmanns Alþingis líka, en sérstaklega Ríkisendurskoðunar eins og hér er verið að ræða um.

Í öðru lagi finnst mér að slík nefnd og vinnubrögð í þinginu ættu að taka mið af þeirri reynslu sem núna liggur fyrir og er mjög góð í danska þinginu. Þar er þetta þannig að ákveðin nefnd fjallar um þessar skýrslur. Sú nefnd kemst að niðurstöðum og hún afgreiðir alltaf skýrslurnar með niðurstöðum. Hún segir: Það er ekki ástæða til að halda þessu máli áfram eða ástæða er til að fara fram á það við menntmn. þingsins að hún skoði málið betur eða að ástæða sé til þess að að fara fram á það við viðkomandi stofnun, Vegagerð ríkisins, Hafnamálastofnun eða hvað það nú væri í okkar tilviki, að gefa betri skýringar á því sem um væri að ræða. Í fjórða lagi segir hún að nauðsynlegt sé að viðkomandi ráðuneyti, samgrn., menntmrn., félmrn. eða hvað það nú er, taki á þessu máli sérstaklega. Og í síðasta lagi er stundum sagt að nauðsynlegt væri að breyta lögum og nefndin beinir því til viðkomandi þingnefnda að þær undirbúi það að lögum verði breytt.

Þetta er það sem hér á að gera, herra forseti, og mér finnst engin ástæða til að ljúka þessu þingi, sem er nýhafið, öðruvísi en að taka þessar ákvarðanir á því þannig að þær taki gildi þegar þingið kemur saman aftur eftir kosningar. Það er algerlega fráleitt að láta þetta mál liggja. Vandinn og veruleikinn er sá, það þekkjum við sem höfum verið hér lengi, að nýtt þing og nýtt kjörtímabil þarf alltaf dálítið tilhlaup að málum eins og t.d. þessu. Ef þetta mál væri látið detta niður núna, þá er hætt við að ekki yrði farið í málið fyrr en seint á næsta kjörtímabili. Þess vegna segi ég það sem mína skoðun og vil spyrja hæstv. forseta hvort tekið verði á þessu máli. Verður það gert? Það er einfalt að svara því með já eða nei. Þingið er stutt og það þarf að skipuleggja verkin og það er hægt að ákveða þetta núna og það á að gera það vegna þess að þessi vinna Ríkisendurskoðunar svo góð sem hún er nýtist ekki þinginu eða þjóðinni sem skyldi meðan þessa eftirfylgni vantar. Ég fer fram á það að hæstv. forseti tjái sig um þetta mál vegna þess líka að á síðasta þingi lágu fyrir drög að heildarendurskoðun á þingsköpunum eins og þau leggja sig. Það var stoppað hér í fyrra vegna þess að stjórnarandstaðan leyfði sér að greiða atkvæði á móti því að tiltekið frv. yrði tekið fyrir með afbrigðum. Þá reiddust goðin er hraunið rann er vér nú stöndum á. Það var því ekkert gert í því máli og frv. er enn þá í skúffu.

Nú er það hins vegar svo að hafið er nýtt þing og hæstv. forseti hefur því miður lýst því yfir að hann ætli ekki að bjóða sig fram aftur til þings. Það getur náttúrlega breyst. Það veit enginn hvað kemur út úr þessu prófkjöri í Reykjanesi hjá íhaldinu en ég heiti á hæstv. forseta að beita sér fyrir því á þinginu núna að ljúka þessu dæmi. Og ég lýsi því yfir af minni hálfu að ég styð hann í þeim efnum, enda gangi hann vasklega fram og lýsi því jafnframt yfir að ef það gengur ekki upp, þá er ég reiðubúinn til að flytja frv. vegna þess að það er tilbúið, að vísu ofan í skúffu, en það er ekki verri skúffa en ýmsar aðrar. Það er hægt að draga þetta mál fram og flytja það og ég er viss um að það er vilji til þess bæði hjá þingmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu því að núverandi kerfi að Ríkisendurskoðun framleiði þessar skýrslur og ekkert eða lítið gert með þær nema fjalla um þær í fjölmiðlum, það er oft ágætt, það er ekki nógu gott fyrir virðingu Alþingis sem okkur er öllum alveg gasalega annt um eins og alþjóð veit, herra forseti.