Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 11:49:06 (416)

1998-10-15 11:49:06# 123. lþ. 11.5 fundur 60#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996# (munnl. skýrsla), Flm. VS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[11:49]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1996 var tekin fyrir á fundi allshn. 24. apríl sl. Á fundinn kom til viðræðna við nefndina um efni skýrslunnar umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, ásamt Páli Hreinssyni, aðstoðarmanni umboðsmanns.

Umboðsmaður starfar nú á grundvelli nýrra laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, en hlutverk hans er eftir sem áður að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins.

Á árinu 1996 voru skráð 334 ný mál hjá embættinu, einu máli fleira en árið áður og staðfestir það að nokkurt jafnvægi virðist vera að komast á fjölda mála eftir að mikil aukning varð á málafjölda milli áranna 1993 og 1994. Inni í þessari tölu eru aðeins skrifleg erindi og mál sem umboðsmaður tekur upp að eigin frumkvæði en embættinu berast að auki fjölmargar fyrirspurnir sem starfsmenn þess greiða úr og leitast við að koma í réttan farveg.

Umboðsmanni er heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði og gerði hann það í fjórum tilvikum á árinu 1996. Var um að ræða mál sem lúta að almennum bótum í stjórnsýslunni.

Skipting mála hjá embættinu eftir viðfangsefnum er misjöfn milli ára. Ef teknar eru allar skráðar kvartanir á árinu 1996 beinast 57 að töfum hjá stjórnvöldum við afgreiðslu máls, 24 kvartanir beindust að málsmeðferð og starfsháttum stjórnsýslunnar, 21 að fangelsismálum, 16 að almannatryggingum, 11 að námslánum, 15 að skattamálum, 9 að stöðuveitingum og svo mætti lengi telja.

Í máli umboðsmanns kom fram að skattamál eru ört vaxandi málaflokkur og telur hann þörf á því að gerð verði á vegum embættisins almenn úttekt á skattamálum, burt séð frá kvörtunum sem embættinu berast, en ekki hefur enn verið ráðist í þetta verkefni vegna anna hjá embættinu.

Að mati umboðsmanns er það helsta vandamál stjórnsýslunnar nú að stjórnvöld afgreiða ekki erindi sem berast þeim eins fljótt og hægt er og brjóta þannig í bága við meginreglu þá sem fram kemur í 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Bárust umboðsmanni alls 57 kvartanir vegna þessa á árinu 1996. Kom fram í máli hans að mjög brýnt væri að bæta úr þessum annmörkum en þó yrði að gæta þess að það mætti ekki gera á kostnað réttaröryggis.

Einnig kom fram í máli umboðsmanns að nokkur misbrestur væri á því að tilmælum hans um upplýsingar og skýringar væri sinnt af stjórnvöldum innan æskilegra tímamarka. Sagði hann þó að mikil bót hefði orðið á verklagi stjórnvalda vegna þessa að undanförnu.

Að lokum, herra forseti, þakka ég umboðsmanni Alþingis fyrir greinargóða skýrslu og tek undir orð nefndarmanna í allshn. sem lýstu yfir mikilli ánægju með störf umboðsmanns á þeim árum sem liðin eru frá því að embættið tók til starfa.