Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 12:20:04 (423)

1998-10-15 12:20:04# 123. lþ. 11.5 fundur 60#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996# (munnl. skýrsla), LB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[12:20]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir flest það sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og Jóhanna Sigurðardóttir hafa sagt í ræðum sínum um skýrslu umboðsmanns Alþingis en vildi þó kannski bæta örlitlu við þó ég hafi ekki hugsað mér að halda langa ræðu.

Ég held að ekki sé ofsögum sagt að stofnun umboðsmanns Alþingis sé eitthvað það markverðasta sem hefur gerst í íslenskri stjórnsýslu um langt skeið og hann hefur fyrir löngu sýnt og sannað að þörf var á að koma embættinu á fót. En nú er það orðið rúmlega áratugargamalt og hefur afgreitt gríðarlegan fjölda mála og virkilega sýnt fram á nauðsyn þess að þessu embætti var komið á fót. Það sem mig langaði að nefna aðeins í þessu samhengi er að í dag ræðum við annars vegar skýrslu um Ríkisendurskoðun og hins vegar skýrslu um umboðsmann Alþingis en þessar tvær stofnanir eru þær helstu sem sinna því hlutverki Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og ráðuneytunum í störfum sínum. Í mínum huga eru þetta gríðarlega mikilvægar stofnanir og kannski má finna að því, virðulegi forseti, að þessi mál skuli tekin upp og rædd í skugga þess máls sem við erum að fara að ræða hér á eftir, sem hefur verið gríðarlega mikið í þjóðfélagsumræðunni í allt sumar, þ.e. frv. um gagnagrunninn. Ég hefði viljað að jafnmikilvæg mál og skýrslan um Ríkisendurskoðun og skýrsla umboðsmanns Alþingis hefðu verið rædd á öðrum tíma en nú er í skugga þeirra mála sem við erum að fara að ræða á eftir og munu sjálfsagt verða rædd næstu daga og vikur.

Umboðsmaður bendir á í skýrslu sinni að honum þyki það miður og telur að nokkur misbrestur hafi orðið á að tilmælum hans um upplýsingar hafi verið komið á framfæri á réttum tíma og það hafi dregist jafnvel svo úr hömlu að ekki sé við unandi. Mig langaði að beina því til hv. varaformanns allshn., sem flutti skýrslu umboðsmanns, þá væntanlega í fjarveru formanns, hvort allshn. hyggist með einhverjum hætti mæta tilmælum umboðsmanns og hverjar þær hugmyndir þá hugsanlega eru vegna þess að í huga mínum er umboðsmaður Alþingis fyrst og fremst bara einn angi af Alþingi. Hann er að sinna því hlutverki sem Alþingi hefur og byggir á grundvellinum um þrígreiningu ríkisvalds, að hafa eftirlit með ráðuneytum og stjórnsýslu í landinu. Því er mjög mikilvægt að gott samstarf sé milli umboðsmanns Alþingis annars vegar og alþingismanna hins vegar. Þess vegna leikur mér forvitni á að vita hvort allshn. hyggist á einhvern hátt taka undir þessi viðhorf og þá jafnvel leggja fram hugmyndir fyrir Alþingi um það hvernig megi mæta þessari gagnrýni.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, hefur flest það komið fram í ræðum hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur og Jóhönnu Sigurðardóttur sem ég vildi koma á framfæri í þessari umræðu þótt hún hefði þá væntanlega orðið með öðrum hætti ef hún hefði ekki verið í skugga þeirrar umræðu sem fer fram á eftir. Ég vil líka taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem lagði áðan til, sem hefur kannski oft komið fram áður, að Alþingi hugi að því að koma á fót nefnd sem skoði skýrslur, annars vegar skýrslu Ríkisendurskoðunar og hins vegar skýrslu umboðsmanns Alþingis og fari ofan í þær sérstaklega. Enn fremur vek ég á því eftirtekt að starfsemi umboðsmanns Alþingis fer sívaxandi með hverju árinu sem segir okkur og staðfestir enn frekar hve merkilegt embætti er á ferðinni og nauðsynlegt að vel sé hlúð að því.

Ég vil að lokum ítreka spurningar mínar til starfandi formanns allshn. í salnum, hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur, hvort nefndin hyggist koma til móts við hugmyndir umboðsmanns og þá hugsanlega í einhvers konar frumvarpsformi fyrir Alþingi.