Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 12:25:43 (425)

1998-10-15 12:25:43# 123. lþ. 11.5 fundur 60#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1996# (munnl. skýrsla), VS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[12:25]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um skýrslu umboðsmanns Alþingis. Mér þykir vænt um þá umræðu vegna þess að ég tel starf umboðsmanns mjög mikilvægt og þess vegna er umræðan á hv. Alþingi mikils virði.

En þau atriði sem komu fyrst og fremst fram hjá hv. þm. eru nokkur og ég mun reyna að fara yfir þau. Í fyrsta lagi er rétt að á árinu 1997 var lögunum breytt og starfssviðið víkkað nokkuð út þannig að sveitarfélögin eru einnig undir. Ég held við gerum okkur alveg grein fyrir því að búast má við að það þýði aukið starf hjá umboðsmanni en sú skýrsla sem við ræðum nú er fyrir árið 1996. Hins vegar er athyglisvert að á því ári eru nánast jafnmörg mál tekin fyrir ný og árið áður sem segir okkur að það er kominn ákveðinn stöðugleiki í starfið. Vegna þess sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi um m.a. orð forsrh. sem vörðuðu umboðsmann skattgreiðenda vil ég geta þess að í fjárlagafrv. sem liggur nú fyrir Alþingi er lagt til að 3,6 millj. verði lagðar til embættisins að auki og þeim verði varið til að ráða sérfræðing á sviði skattaréttar. En í allt eru útgjöld embættisins 51 millj. kr. Þá vil ég nefna í sambandi við gjafsókn, sem var einnig rædd, að í þeim lögum sem samþykkt voru á síðasta ári, kemur eftirfarandi fram í nál. frá allshn. og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir er með á því nál. sem ég les, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í 10. gr. er lagt til að fest verði í lög að umboðsmaður geti lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla. Var þetta nokkuð rætt í nefndinni, en slíkt ákvæði er nú að finna í reglum um störf og starfshætti umboðsmanns. Voru nefndarmenn sammála um að eðlilegt væri að umboðsmaður hefði heimild til að mæla með gjafsókn í dómsmáli á hendur viðkomandi stjórnvaldi ef stjórnvöld sinna ekki tilmælum hans. Fram kom í máli umboðsmanns að aðeins ætti að nýta heimild þessa í undantekningartilfellum.``

En í 10. gr. laganna er þetta ákvæði í d-lið:

,,Umboðsmaður getur lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar.``

Þetta læt ég koma hér fram til skýringar. Út af því atriði sem fleiri en einn hv. þm. nefndi um það hvort allshn. mundi beita sér í því máli sem hefur mest verið rætt og varðar seinagang í stjórnsýslunni við afgreiðslu mála þá tel ég rétt og mun beita mér fyrir því í allshn. að við tökum málið fyrir og tökum það upp við nýjan umboðsmann sem ráðinn hefur verið tímabundið en hann mun hefja störf 1. nóvember nk.

[12:30]

Þá kem ég að því sem talað var um og er sjálft nafnið á þessu starfi og embætti --- umboðsmaður Alþingis. Mér finnst það mjög miður að önnur embætti eru komin með þetta heiti, umboðsmaður, umboðsmaður barna og fleiri, með fullri virðingu fyrir þeim embættum, vegna þess að ég tel að það valdi misskilningi. Hvort rétt er að breyta nafni umboðsmanns Alþingis eða reyna að koma í veg fyrir að fleiri embætti, hugsanlega ný, beri þetta nafn skal ég ekki kveða upp úr með á þessari stundu, en mér finnst að þetta sé mál sem við þurfum að taka á. Mér finnst eðlilegra að t.d. heitið talsmaður yrði notað um aðra en umboðsmann og vil ég að við veltum því fyrir okkur í sambandi við lagasetningu í framtíðinni.

Ég tel að það sé rétt sem nefnt hefur verið hér og reyndar oft áður, að ástæða sé til að sérstök nefnd á hv. Alþingi fari yfir þær skýrslur sem m.a. hafa verið ræddar hér á þessum degi og ég efast ekki um að það mál verði tekið sérstaklega fyrir í þeirri vinnu sem nú er fram undan og hefur staðið yfir um nokkurn tíma um þingsköp Alþingis.

Að síðustu vil ég óska umboðsmanni Alþingis, Gauki Jörundssyni, velfarnaðar í nýjum störfum sem hann tekur að sér nú tímabundið hjá Mannréttindadómstóli Evrópu og þakka honum fyrir sérstaklega vel unnin störf og hversu vel hann hefur mótað þetta starf fyrir okkar hönd.