Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:32:19 (427)

1998-10-15 13:32:19# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:32]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég óska eftir að ræða fundarstjórn forseta sökum þess að á dagskrá þessa fundar eru þrjú nátengd mál, þ.e. 6., 7. og 8. dagskrármálið. Á umliðnum dögum hefur verið rætt um að hafa þau mál undir einum hatti og ræða hvert í samhengi við annað. Skilningur minn á því var lengi vel sá að um þetta væri allgott samkomulag í hópi formanna þingflokka enda mæla öll efnisrök með því að þannig sé farið að málum. Hins vegar bárust þær fréttir í gærkvöldi að hæstv. heilbrrh., sem er með eitt þessara þriggja mála, hefði eindregið lagst gegn því að fara svona að. Forseti getur þingsköpum samkvæmt ekki annað en orðið við þeirri neitun. Í þingsköpum er um neitunarvald að ræða þegar ósk um slíkt kemur fram.

Ég verð hins vegar, virðulegi forseti, að lýsa yfir undrun minni og miklum vonbrigðum með hvernig staðið er að málum. Það sér auðvitað hver einasti maður að fráleitt er að verja fleiri klukkutímum til umræðu um 6. dagskrármálið, gagnagrunn á heilbrigðissviði, ræða 7. dagskrármálið síðan á morgun, dreifða gagnagrunna á heilbrigðissviði og persónuvernd, og 8. dagskrármálið, miðlæga úrvinnslu heilbrigðisupplýsinga, á mánudaginn. Þessi mál skarast auðvitað öll meira og minna og málsrökin til og frá. Efnisatriði eru öll mjög svipuð þó ólík aðkoma sé að þeim markmiðum sem hér er við að fást.

Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með þetta og kalla eftir rökum hæstv. heilbrrh. fyrir þessari afstöðu. Hún á hér augljóslega hlut að máli. Ég held ég sé ekki að uppljóstra neinu þegar ég segi að forseti þingsins var jákvæður fyrir því að fara svona að. Einhverra hluta vegna telur hæstv. heilbrrh. sig ekki þess umkominn að ræða hér aðra valkosti, aðrar leiðir að svipuðu markmiði og er að finna í hennar frv. um gagnagrunninn.

Ég vil láta það alveg koma hér skýrt fram, virðulegi forseti, að í umræðu minni hér á eftir mun ég vitaskuld fjalla um það frv. sem ég og aðrir félagar mínir í þingflokki jafnaðarmanna hafa lagt inn í þetta mál, einfaldlega vegna þess að það er nauðsynlegt til þess að skýra afstöðu mína og annarra til frv. heilbrrh. Þetta leiðir því allt að einni og sömu niðurstöðu þegar til kastanna kemur. Þessi undarlega afstaða og stífni hæstv. heilbrrh. er því algjörlega óskiljanleg. Ég kalla því eftir rökum og svörum af hennar hálfu í þessum efnum.