Umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 13:48:31 (434)

1998-10-15 13:48:31# 123. lþ. 11.93 fundur 63#B umræður um frumvörp um miðlægan gagnagrunn# (um fundarstjórn), SighB
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[13:48]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Fyrir okkur þingmenn snýst málið einfaldlega um það hvernig skynsamlegast sé að halda á þessum umræðum. Það liggur fyrir að þau efnisatriði sem eru annars vegar í þáltill. hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og fleiri og hins vegar í frv. hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar o.fl. verða öll rædd jafnhliða því sem umræðan fer fram um frv. hæstv. ráðherra vegna þess að í þessum tveimur þingmannamálum eru lögð til ákveðin efnistök á málinu sem eru öðruvísi en hjá hæstv. ráðherra. Með neitun sinni á því að ræða málin öll í einu er hæstv. ráðherra því ekki að koma í veg fyrir að um efnisatriði hinna þingmálanna tveggja verði rætt. Það verður gert hér á eftir. Spurningin fyrir okkur þingmenn er einfaldlega sú hvernig skynsamlegast sé að halda á þessu og skynsamlegasta aðferðin er að sjálfsögðu að hafa öll málin undir í einu. Fyrir liggur að sá var vilji forseta, en eins og forseti hefur tekið fram, þá nær sá vilji ekki fram að ganga af því að hæstv. heilbrrh. hafnar því. Mér finnst nauðsynlegt að hæstv. heilbrrh. geri þinginu grein fyrir ástæðu þess að ráðherra hafnaði því. Mér finnst að þingið eigi kröfu á að vita það. Af hverju hafnar hæstv. heilbrrh. skynsamlegustu málsmeðferðinni sem Alþingi getur haft á þessum málum? Að segja eins og hún sagði áðan, að ekki sé hægt að ræða fleiri en eitt frv. saman um sama mál af því að málin séu ekki alveg eins, er auðvitað gjörsamlega út í hött því að halda mætti af þeim ummælum að hún gerði ráð fyrir því að til þess að hægt væri að ræða mál um sama efni þá þyrfti að vera um sams konar frumvörp að ræða í öllum tilvikum. Þá hefði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson orðið að endurflytja frv. hæstv. ráðherra til að hægt væri að ræða þau saman. Þetta er auðvitað algerlega út í hött og mér finnst að Alþingi eigi kröfu á því, virðulegi forseti, að hæstv. heilbrrh. útskýri og geri grein fyrir því sem hún hlýtur að geta gert öðruvísi en svona, af hverju hæstv. ráðherra leggst gegn því að Alþingi viðhafi skynsamlegustu vinnubrögðin í þessum málum.