Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Fimmtudaginn 15. október 1998, kl. 16:24:32 (455)

1998-10-15 16:24:32# 123. lþ. 11.6 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 11. fundur, 123. lþ.

[16:24]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Heilbrigðisupplýsingar um íslenska þjóð. Efni safnað í sjúkraskrá hvers einasta manns sem ekki hefur fyrir því að hafna því að vera í þessum grunni. Upplýsingar um allt þetta á að afhenda einu fyrirtæki sem rekstrarleyfishafa í allt að 12 ár, og ég segi líklega lengur. Honum á að veita þá sérstöðu sem í því felst. Hverju er kostað til? Á hinni vogarskálinni er persónuvernd Íslendinga og það er vitað að sami aðili er á fullu að safna ættfræðiupplýsingum um Íslendinga til að samkeyra þetta. Á þessum grundvelli á að stunda þróun, sölu í þeim tilgangi sem menn geta lesið sér til um í verklýsingu umrædds fyrirtækis, þar á meðal sölu til tryggingafyrirtækja.

Það er ekkert undarlegt að erlendir aðilar sem fylgjast með þessu máli, því það eru margir sem horfa til okkar í þessu sambandi, orði það eins og tímaritið Magazin í Sviss í síðustu viku sem hefur yfirskriftina: Íslendingar --- tilraunamýsnar okkar. Hér er gengið fram af slíku gáleysi að umheimurinn hristir höfuðið. Síðan talar hv. þm. um að það eigi að vera á valdi heilbrigðisstofnana Íslendinga að segja Íslenskri erfðagreiningu eða öðrum einkaleyfishafa fyrir um hvað fara megi inn í grunninn, stofnunum sem eiga að lifa á því fjárhagslega að gera slíka samninga.