Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 11:16:04 (501)

1998-10-16 11:16:04# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[11:16]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir hefur lagt áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi að þar sem hægt sé að brjóta dulkóðaða grunna séu allar upplýsingar í þeim persónulegar. Einnig hefur hún lagt áherslu á að krefjast verði upplýsts samþykkis.

Mér finnst þetta óvarleg umræða, ekki vegna frv. um miðlægan gagnagrunn heldur vegna þess hve þessi ályktun hlýtur að hafa alvarlega afleiðingar fyrir heilsugæslukerfið í heild. Vegna þess að það er svo að upplýst samþykki er ekki meginreglan í notkun upplýsinga í rannsóknarskyni og það kemur mjög skýrt fram að upplýsingum til Krabbameinsfélagsins frá heilsugæslustofnunum er ekki safnað á grundvelli upplýsts samþykkis.

En menn verða að gera sér grein fyrir því hvaða afleiðingar þetta hefur í heild ef mann ganga fram í þessari harkalegu kröfu um upplýst samþykki og þeirri harkalega kröfu um að ekki megi líta á dulkóðaða grunna sem ópersónugreinanlegar upplýsingar.