Gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Föstudaginn 16. október 1998, kl. 14:05:56 (528)

1998-10-16 14:05:56# 123. lþ. 12.1 fundur 109. mál: #A gagnagrunnur á heilbrigðissviði# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 123. lþ.

[14:05]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef haft það að leiðarljósi í störfum mínum á hinu háa Alþingi að reyna að skoða öll mál frá ýmsum hliðum og draga fram kosti og galla hinna ýmsu mála. Síðan verður annað hvort sem vegur þyngra, kostirnir eða gallarnir.

Við erum einmitt að ræða um mál sem hefur það einkenni að á því eru margir kostir en líka stórir gallar. Stærsti gallinn er kannski óvissan sem fylgir frv., þau svör sem vantar í umræðuna um það hvert er verið að stefna, hvað á að gera, hvað á að fara inn í þennan gagnagrunn, hvað á að gera við þær upplýsingar o.s.frv., eins og ég mun koma betur að síðar í dag. Og það finnst mér vera sú áhætta sem Íslendingar eru að taka.

Hv. þm. sagði í upphafi máls síns að Íslendingar væru ekki að taka neina áhættu, og ég hygg að hann hafi þar fyrst og fremst átt við fjárhagslega áhættu. Áhættan sem við erum að taka felst í því að safna saman svo gífurlegum upplýsingum um heilsufar íslensku þjóðarinnar, um öll hennar einkenni í fortíð, nútíð og framtíð, og leggja það inn á einn stað án þess að við vitum hvað verður gert við þetta. Þetta tengist því sem mér finnst að menn þurfi að beina sjónum að, að úti í heimi --- og það er langt síðan sú umræða hófst --- þá er mikið rætt um hvaða leyfi höfum við varðandi erfðalækningar og hugsanlega breytingar á genamengi mannsins. Menn eru farnir að gera svo ótrúlegar aðgerðir á fóstrum í móðurkviði og það er verið að grípa fram fyrir hendurnar á náttúrunni. Hver er réttur okkar í þessum efnum? Þetta eru hinar stóru siðferðilegu spurningar. Ég tel því að við séum þarna að taka ákveðna áhættu og þess vegna, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom að í sínu máli, þarf auðvitað að skoða og meta hverja einustu rannsókn sem á að framkvæma á grundvelli þessa gagnagrunns.