Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 15:17:26 (649)

1998-10-22 15:17:26# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Flutningur þessa frv. er afleiðing þess að Alþingi ákvað í fyrra að breyta lögræðislögum og sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 í 18 ár. Þessi breyting kallar á breytingu á ákvæðum gildandi laga um vernd bara og ungmenna eins og reyndar á lögum um lögheimili, tilkynningar um aðsetursskipti og fleira. Þetta frv. hefur fyrst og fremst að geyma nauðsynlegustu breytingar sem gera þarf vegna hækkunar sjálfræðisaldursins.

Taka ber fram að á vegum félmrn. er að störfum nefnd sem ætlað er að endurskoða barnaverndarlögin í heild sinni. Þarna er því ekki um tæmandi breytingu að ræða. Ég vonast eftir því, ef þeirri nefnd auðnast að starfa af þrótti, að a.m.k. verði hægt að sýna fyrir þinglok frv. um heildarendurskoðun á lögum um vernd barna og ungmenna.

Þeim ákvæðum sem tekið er á í þessu frv. þarf hins vegar að koma í lag sem fyrst og þess vegna er það ráð tekið að flytja sérstakt frv. núna.

Núgildandi lög um vernd barna og ungmenna, nr. 58/1992, samanber lög nr. 22/1995, hafa að geyma skilgeiningu á börnum og ungmennum í 2. mgr. 1. gr. laganna sem er svohljóðandi:

,,Með börnum er samkvæmt lögum þessum átt við einstaklinga innan 16 ára aldurs, en ungmenni eru einstaklingar 16--18 ára.``

Lögin gera nokkurn greinarmun á ákvæðum sem gilda um börn annars vegar og ungmenni hins vegar, m.a. með tilliti til þess að foreldrar fóru einungis með forsjá barna til 16 ára aldurs. Því er nauðsynlegt að fella hugtakið ungmenni úr lögunum. Í staðinn komi alls staðar hugtakið ,,barn``. Með börnum er sem sagt átt við einstakling innan 18 ára.

Ég verð að játa það að í málvitund minni orkar breytingin tvímælis og að nota hugtakið ,,barn`` um 17 ára ungling. Mér finnst að við séum að færa barnastigið óþarflega hátt en í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og í lögum annarra er þetta orðað svona og við verðum sjálfsagt að sætta okkur við það.

Með breytingu þeirri sem lögð er til með þessu frv. munu barnaverndarlögin gilda eins fyrir alla einstaklinga innan 18 ára. Þar sem gera má ráð fyrir miklum mun á þroska einstaklinga í þessum hópi er í frv. lagt til að reiknað verði með ríkari þátttöku eldri barna í ákvörðunum um eigin mál en þegar um yngri börn er að ræða. Í markmiðsgrein frv. er m.a. lagt til að barn skuli njóta réttinda í samræmi við vaxandi aldur og þroska. Þetta orðalag er fengið úr samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns og í 12. gr. hans segir:

,,Aðildarríki skulu virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra, eða eftir því sem við á þeirra sem tilheyra stórfjölskyldu eða samfélagi samkvæmt staðbundnum venjum, eða lögráðamanna eða annarra sem að lögum eru ábyrgir fyrir barni, til að veita því tilhlýðilega leiðsögn og handleiðslu í samræmi við vaxandi þroska þess er það beitir réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum.``

Önnur tilvitnun: ,,Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.``

Samningurinn gerir sem sagt ráð fyrir því að börn hafi ríkari rétt og ábyrgð með vaxandi þroska án þess að það sé bundið ákveðnu aldursári. Lögð er til breyting á 1. mgr. 1. gr. laganna um markmið barnaverndar og gert ráð fyrir að þessi sjónarmið verði einnig höfð í huga við heildarendurskoðun laganna og muni hugsanlega hafa áhrif á lagatextann víðar að lokinni þeirri endurskoðun.

Þá gerir frv. ráð fyrir breytingu á 22. gr. laganna. Í þeirri grein er fjallað um vistun barna sem stefna heilsu sinni og þroska í hættu með eigin hegðun. Umræða um úrræði handa börnum á aldrinum 16--18 ára var sérstaklega áberandi í umfjöllun Alþingis um breytingu á lögræðislögunum á vorþinginu 1997. Í ljósi þess og að breyttum lögræðislögum þykir rétt að kveða skýrar á um meðferð barna sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu með hegðun sinni. Í lögum um vernd barna og ungmenna er einungis tekið á möguleikanum á að vista barn til skammtímavistunar eða rannsóknar í allt að fjórar vikur í senn. Þó hefur alltaf verið litið þannig á að í krafti forsjárvalds hafi foreldrar heimild til að samþykkja vistun til lengri tíma, enda er ljóst að fjögurra vikna vistun er í fæstum tilfellum nægileg til að veita barninu nauðsynlega meðferð. Búast má við að þetta ákvæði núgildandi laga komi að breyttum lögræðislögum helst til álita varðandi aldurshópinn 16--18 ára og því er mikilvægt að það sé skýrara til að tryggja stöðu þessa aldurshóps.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir nýju ákvæði um réttindi barns í VIII. kafla, um málsmeðferð. Samkvæmt gildandi lögum er börnum einungis tryggður réttur til að tjá sig um mál ef um er að ræða vistun skv. 22. gr. eða úrskurð skv. 45. gr., sbr. 2. og 3. mgr. 46. gr. Lögð er til breyting til þess að tryggja hagsmuni barns betur með hliðsjón af 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barns. Þá má ætla að þörf barna fyrir talsmann aukist með aldrinum og með hliðsjón af breyttum sjálfræðisaldri þykir nauðsynlegt að leggja þessa breytingu til nú. Ákvæðinu er ætlað að tryggja rétt barns til að tjá sig áður en tekin er ákvörðun er varðar barnið, hvort sem ákvörðun er í formi úrskurðar eða ekki.

Einnig er lagt til að ákvæði núgildandi laga um skipan talsmanns verði rýmkuð. Lagt er til að barnaverndarnefnd beri að eigin frumkvæði að skipa talsmann ef málsatvik eru þannig að þörf sé á að talsmaður tali máli barns, svo sem ef barnið leitar sjálft ásjár barnaverndarnefndar. Af þessu ákvæði mun einnig leiða að barnaverndarnefnd mun gæta þess að barn fái að tjá sig um hvort skipa eigi því talsmann. Það ber að taka tillit til skoðana barnsins þar að lútandi.

Eins og ég sagði, herra forseti, er hér ekki um endanlega útgáfu af barnaverndarlögum að ræða heldur er brugðist við til að leysa bráðasta vandann. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið verði sent hv. félmn. til athugunar.