Vernd barna og ungmenna

Fimmtudaginn 22. október 1998, kl. 16:16:29 (658)

1998-10-22 16:16:29# 123. lþ. 16.2 fundur 106. mál: #A vernd barna og ungmenna# (hækkun sjálfræðisaldurs o.fl.) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get upplýst að ég er prýðilega ánægður með það starf sem ég hef núna og hef ekki í hyggju, a.m.k. á næstunni, að sækja um í löggunni enda er ég ekki viss um að ég yrði tekinn.

Nóg um það. Þetta er alvörumál. Það er rétt að einhver hluti eða verulegur hluti er vegna hækkunar sjálfræðisaldursins, þ.e. að við þurfum að sjá um úrræði fyrir tvo árganga til viðbótar því sem var áður. En það er líka aukning í yngri hópunum og breyting á þeim efnum sem þau eru að neyta. Maður heyrir næstum því á hverjum degi persónulegar sorgarsögur frá fjölskyldum sem lenda í þessum vanda. Og þetta er ekki bara í Reykjavík. Því miður þá virðist þetta vera bara stefnan um allt land.

Við í félmrn. erum aðilar að áætlun sem heitir: Eiturlyfjalaust Ísland árið 2002. Því miður þá held ég að það sé fullmikil bjartsýni miðað við þróun undanfarinna mánaða að reikna með því að Ísland verði eiturlyfjalaust árið 2002.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að ég hef ekkert vit á eiturlyfjum. Ég hef ekki einu sinni notað þau nema bara tóbak og brennivín eins og er þjóðlegur siður. (Gripið fram í: Eins og hv. þm.)