Fjáraukalög 1998

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 16:05:36 (789)

1998-11-03 16:05:36# 123. lþ. 18.8 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[16:05]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég virði að sjálfsögðu það að hæstv. fjmrh. hefur ekki lokið máli sínu en ég ætla þó að skjóta hér inn orði þannig að hann geti þá beðið um orðið aftur.

Varðandi óhafnar fjárveitingar hef ég gagnrýnt það að ár eftir ár eru stórar upphæðir fluttar á milli hjá ráðuneytunum og ég er að gagnrýna það. Ég er ekki að gagnrýna þetta á nokkurn annan máta. Ég tel eðlilegt að hafa sveigjanleika og ég vil gjarnan hafa sveigjanleika en það eru stórar upphæðir á hverju einasta ári, a.m.k. sl. sex ár.

Ég fjallaði um olíugjaldið og ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin varðandi það en mig grunar að í þjóðfélaginu sé bullandi óánægja. Þeir sem starfa við akstur og hafa atvinnu af þungaflutningum eru flestir mjög óánægðir með þau gjöld sem á þá hafa verið lögð. Orðsending, nr. 4 frá 1998, sem send er út, þ.e. tilkynning til hlutaðeigandi um við hverju þeir megi búast, ég bið hæstv. fjmrh. að skoða mjög rækilega útfærsluna sem þar er sett fram. Það er verið að leggja 100 þús. gjald á hvern einasta flutningabíl. Það er raunverulega verið að hækka gjöldin verulega á einstaklingunum. Þannig er staða þeirra fyrir utan sektirnar sem þeir fá fyrir að aka lengur en EES-tilskipunin gefur út. Þar eru innheimtir háir skattar. Ég hef boðað það áður og mun leggja fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um þau mál.