Skattfrádráttur meðlagsgreiðenda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 17:19:49 (808)

1998-11-03 17:19:49# 123. lþ. 18.14 fundur 120. mál: #A skattfrádráttur meðlagsgreiðenda# þál., Flm. ÓÖH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Flm. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Í fjarveru 1. flm. þessarar þáltill. mæli ég fyrir tillögunni, en 1. flm. er hv. þm. Guðni Ágústsson og auk þess þingmanns sem hér stendur er flm. einnig hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson.

Þáltill. hljóðar svo:

,,Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að skipa nefnd sem kanni hvort rétt sé að setja reglur sem heimili að meðlagsgreiðslur foreldra gangi til lækkunar á tekjuskattsstofni þeirra. Í þessu sambandi verði meðal annars skoðaðar þær reglur sem gilda á Norðurlöndunum og hvort rétt sé að binda heimildina við þá foreldra sem hafa stofnað til hjúskapar eða hafið sambúð að nýju.

Nefndin skili niðurstöðum sínum fyrir 1. september 1999.``

Nú er það viðurkennt af öllum að það er heilagasta frumskylda hvers manns að framfæra og framfleyta fjölskyldu sinni og börnum sínum. Og enginn er ofhaldinn af því meðlagi sem nú er greitt, 12.205 kr. Því er þó ekki að neita að meðlagsgreiðendur hafa oft lent í margvíslegum ógöngum og erfiðleikum sem gera það að verkum að þeir hafa átt erfitt með að standa í skilum. Meðlagsgreiðslur fyrnast aldrei, einu skuldirnar sem aldrei fyrnast og eru þær mjög fljótar að verða að óviðráðanlegum bagga.

Þegar þetta er sagt þá skal ekki með neinum hætti sagt að meðlagsmóttakendur, sem oftast eru konurnar úr sambúðinni eða hjónabandinu, séu ofhaldnar af þessu. Aðstaða þeirra er oft mjög erfið með barnahópinn, oft með lágar tekjur og ekki er verið að bera þessa tvo hópa endilega saman, meðlagsgreiðendur og meðlagsmóttakendur. Fyrst og fremst er hér verið að beina sjónum að meðlagsgreiðendunum.

Á undanförnum árum hafa verið settar á laggirnar nokkrar nefndir, einar tvær a.m.k., sem fjallað hafa um þessi mál en verulega dró úr skilum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga eftir hina skyndilegu og miklu hækkun, allt að 36% sem skellt var á með engum fyrirvara. Í framhaldi af því hallaði mjög á ógæfuhliðina að þessu leyti hjá Jöfnunarsjóðnum og sveitarfélögin gerðu kröfur um að málið væri tekið á dagskrá í samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna.

Það er skemmst frá að segja um tillögur þessara nefnda, og get ég þar trútt um talað því að ég var formaður í þeirri síðustu, að engar þeirra náðu fram að ganga nema ein. Og sá árangur birtist í lagasetningu á hv. Alþingi þar sem Innheimtustofnun sveitarfélaga er gert heimilt að semja við meðlagsgreiðendur sem eru komnir í algjört þrot. Slíkir samningar eru þá gerðir með hliðsjón af fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum meðlagsgreiðandans og þá því aðeins að meðlagsgreiðandinn ráði fyrirsjáanlega ekki með neinum hætti fram úr sínum málum, enda er það vitað að slíkir aðilar lenda oft úti á kanti með margvíslegum hætti, m.a. eiga þeir erfitt með að festa rætur á nokkrum vinnustað og margir þeirra hafa lent í því að taka að sér störf án þess að gefa launin upp til skatts.

Flótti og hremmingar þessara manna eru ekki til neins hagnaðar fyrir ríkissjóð. Það er meiri hagur ríkissjóðs, svo maður horfi á hann einan sem slíkan, að hjálpa mönnum á fætur í þessu efni og til sjálfsbjargar þannig að þeir geti rétt úr bakinu, unnið störf og greitt sína skatta og stofnað til nýs hjúskapar ef þeim sýnist svo.

Ég hef átt viðtöl við mjög marga menn sem hafa lent í þessum aðstæðum. Meðal þeirra eru menn sem vinna fyrir 90--100 þús. kr., þurfa að borga meðlög þriggja barna, sem eru þá þrisvar sinnum 12.205 kr., þeir þurfa að leigja íbúð fyrir um 40 þús. kr. og þeir eru að reyna að stofna heimili. Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr því hvað meðlagsmóttakandinn þarf að þola í þessu efni. En þessir menn eiga mjög erfitt með að stofna ný heimili. Ég tel að það séu hagsmunir samfélagsins og ríkissjóðs líka að hjálpa til að þessu leyti þannig að þessir aðilar geti stofnað ný heimili og framfleytt börnum sínum. Einnig er á það að líta að meðlagsmóttakandinn fer stundum í nýja sambúð þar sem fjárhagur er rúmur og hefur m.a. verið bent á það að slíkt gæti komið til umhugsunar þegar meðlög eru ákveðin.

Fleiri tillögur hafa verið nefndar sem ekki hafa hlotið náð fyrir augum yfirvalda, m.a. að hægt sé að ganga harðar fram í innheimtunni þannig að menn geti ekki leikið þá leiki sem stundum er gert, að nýta sér fyrirtækja- og skattalög um fyrirtækjaform og verktakagreiðslur og komast þannig hjá meðlagsgreiðslum og fleira mætti telja. Það má segja að það sé sammerkt öllum viðbrögðum að ríkisvaldið hefur ekki verið tilbúið til eins eða neins í þessu efni. Held ég að það sé vanhugsað.

Þessi tillaga miðar að því að kannað verði hvort rétt sé að setja lög sem heimili meðlagsskyldum foreldrum að draga meðlagsgreiðslur frá tekjustofni og lækka þar með tekjuskattsgreiðslur sínar. Hér eru fyrst og fremst hafðir í huga þeir foreldrar sem hafa gengið í hjónaband eða hafið sambúð að nýju. Þegar þannig háttar til hafa viðkomandi framfærsluskyldu gagnvart nýju fjölskyldunni sem þeim gengur oft á tíðum illa að fullnægja vegna greiðslubyrði sinnar af meðlagsgreiðslunum. Í sumum tilfellum verður afleiðingin sú að greiðslubyrðin verður einstaklingunum ofviða og þeir lenda í stöðu sem þeir ná sér ekki út úr, þ.e. gjaldþroti eða öðru slíku.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig nota þetta tækifæri til að benda á að þær tillögur, sem hafa verið nefndar í nefndarvinnu þeirri sem ég gerði grein fyrir, miða að því að breyta innheimtukerfi meðlagsgreiðslna með hliðsjón af því að þarna koma þrír aðilar að málinu. Í fyrsta lagi er það einn aðilinn, þ.e. ríkisvaldið, sem leggur á og ákveður meðlagið. Annar aðilinn, þ.e. sveitarfélögin, Innheimtustofnun sveitarfélaga, tekur að sér innheimtuna, og þriðji aðilinn tekur á móti greiðslunni, þ.e. meðlagsgreiðslumóttakandinn. Ég vil varpa þeirri hugmynd fram við þessa umræðu hvort ekki megi færa þessa innheimtu frá Innheimtustofnun sveitarfélaganna og til ríkisins, lækka þar með líklega innheimtukostnaðinn og færa þetta allt á eina hendi.