Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 03. nóvember 1998, kl. 19:22:15 (832)

1998-11-03 19:22:15# 123. lþ. 18.16 fundur 172. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 123. lþ.

[19:22]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals var mótsögn sem ég vildi skerpa á hér. Hann talaði um að sjóðfélagarnir ættu eðlilega að hafa þann rétt að geta farið úr sínum lífeyrissjóði ef sá sjóður væri illa rekinn. Rétt áður hafði hann sagt að þeir sem hefðu lent í lífeyrissjóði þar sem meginhluti sjóðfélaga væru aldraðir þá væru ungu félagarnir verr settir. Mér finnst hér bera á mótsögn. Sé maður kominn nærri lífeyristöku, ósáttur við lífeyrissjóðinn sinn og ætli að flytja sig í annan sjóð þá er ég hræddur um að það gæti orðið dálítið vandamál, þ.e. að lífeyrissjóðsstjórnin væri ekki alveg tilbúin að taka á móti þeim sem nálgast lífeyrisaldur og vildi flytja sig yfir. Það sem vissulega hefur líka gefið þessum lífeyrissjóðum lit er að fá yngra fólkið inn. Það er lengi að ávinna sér réttindi eða, eins og hv. þm. kom inn á áðan í ræðu sinni, slæm staða þeirra sjóða þar sem meginhluti sjóðfélaganna er farinn að nálgast nokkuð lífeyrisaldurinn.