Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 12:34:28 (925)

1998-11-05 12:34:28# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[12:34]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil koma með athugasemd varðandi ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um Schengen og þær hástemmdu yfirlýsingar sem hann kom með hér um það. Nú hefur viðkomandi þingmaður verið mjög virkur í norrænu samstarfi en norræna vegabréfasambandið er mjög mikilvægur hluti af því samstarfi og það er alveg ljóst að ef við verðum ekki aðilar að Schengen, þá er það vegabréfasamband fyrir bí.

Ég tel alveg víst að Noregur verði aðili að Schengen. Ég tel útilokað að settar verði upp einhverjar miklar landamærastöðvar á milli Svíþjóðar og Noregs þannig að Noregur mun fara inn að öllum líkindum og þá spyr ég: Ætlar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon að mælast til þess að við stöndum þá ein utan við? Ég spyr: Af hverju? Vegna þess að það er skoðun mín --- ég er sammála hv. þm. um að við eigum ekki að gerast aðilar að Evrópusambandinu --- en ég er algerlega ósammála því að með því að fara inn í Schengen væri okkur nær að fara inn í Evrópusambandið líka. Hvernig er hægt að segja þetta? Ég held að það sé þvert á móti, að með því að fara inn í Schengen séu minni líkur fyrir því að við förum inn í Evrópusambandið. Við eigum að liggja þétt upp að Evrópusambandinu í sem flestum málum. Við eigum að reyna að vera einsleitt samfélag við Evrópusambandið en við eigum ekki að ganga inn í það.

Ef við verðum mjög ólík Evrópusambandinu mun sú spurning koma upp miklu fyrr að ganga inn í það. Mér finnast rök hv. þm. vera algerlega á skjön við markmiðið. Hv. þm. vill vera utan við Evrópusambandið og það er skoðun mín að þess vegna eigum við líka að fara inn í Schengen. Við eigum að vera aðilar að Schengen-samkomulaginu, bæði af því að ég tel það vera mjög gott fyrirbæri að þurfa ekki að sýna passa á milli Evrópulandanna og pólitískt held ég að það sé mjög mikilvægt til þess að þurfa ekki að fara inn í Evrópusambandið. Þetta er einn hluti af því.