Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 15:53:27 (969)

1998-11-05 15:53:27# 123. lþ. 21.3 fundur 92#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu eða nota rétt minn af ósanngirni en ég fæ varla orða bundist vegna síðustu orða hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. Þó að það sé kannski á jaðri þess að vera hrein umræða um utanríkismál þá held ég, m.a. vegna þeirra orðaskipta sem hér hafa farið fram og margir hafa tekið þátt í, að æskilegt sé að hlutirnir liggi skýrt fyrir og tilefni sé til að fara aðeins betur yfir þetta. Er það betra fyrir lýðræðið að málamiðlanir milli flokka með ólíkar stefnur séu gerðar fyrir kosningar þannig að sá samningur liggi fyrir og kosið um hann, eins og hv. þm. reyndi að færa rök fyrir, eða er betra að kjósendur eigi val um tiltölulega skýra kosti sem fái mælingu í kosningunni og að svo séu gerðar málamiðlanir? Ég tel að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi sannað hið síðara mjög vel fyrr í máli sínu í þessar umræðu.

Hv. þm. viðurkenndi að tilraun Alþfl. til þess að koma nýju stefnumáli fram í íslenskum stjórnmálum, aðild að Evrópusambandinu, var hafnað af kjósendum. Var það þá ekki í þágu lýðræðisins að kjósendur á Íslandi gátu með litlum stuðningi við Alþfl. látið skýrt í ljósi þann vilja að þeir vildu ekki leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu? Ef Alþfl. hefði fyrir kosningarnar 1995 verið búinn að drekkja því stefnumáli sínu í óljósum málamiðlunum við aðra þá hefðu kjósendur ekki getað látið álit sitt í ljós. En þeir gátu það vegna þess að Alþfl. hafði kjark til þess árið 1995 að bjóða fram stefnu sína og reyndar tóku þeir því nokkurn veginn eins og menn að sú stefna fékk ekki mikinn stuðning.

Um þetta snýst lýðræðið, herra forseti, að þeir kostir í grundvallarstefnumálum sem í boði eru liggi skýrt fyrir og að menn geti valið þá, kosið þá eða hafnað þeim, en ekki að þetta sé flatt út í óljósar málamiðlanir. Ég held að æfingar talsmanna Alþfl. til þess að færa rök fyrir orðalagi samfylkingarinnar um grundvallaráherslur í utanríkismálum í þessari umræðu segi allt sem segja þarf um það. Það er ekki í þágu málefna stjórnmála eða skýrra kosta í lýðræðislegu tilliti að fletja það út í óljósu orðalagi. Það er misskilningur á grundvallarforsendum lýðræðis og fjölræðis að það sé framþróun í þessu tilliti. Það er allt annar hlutur þegar menn gera með sér stjórnarsáttmála eða samstarfssamninga í fjölflokka ríkisstjórnum að afloknum kosningum. Allir vita að þeir samningar ráðast mjög af styrkleikahlutföllum flokkanna og útkomu þeirra í viðkomandi kosningum, t.d. það hver leiðir slíkt samstarf, hver fær fleiri eða færri ráðherra o.s.frv. En ef menn ganga frá þessu öllu saman fyrir fram fyrir kosningar í bakherbergjum hvernig málefnum er pakkað inn, hverjir séu í hvaða sætum á grundvelli kvóta frá því fyrir fjórum árum síðan o.s.frv. þá eru menn ekki að þjóna lýðræðinu. Það er mikill misskilningur að mínu mati.