Flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks

Fimmtudaginn 05. nóvember 1998, kl. 17:06:01 (990)

1998-11-05 17:06:01# 123. lþ. 21.92 fundur 96#B flutningur starfa fyrir Íbúðalánasjóð til Sauðárkróks# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 123. lþ.

[17:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef neyðst til að kveðja mér hljóðs vegna vinnubragða hæstv. félmrh. hvað varðar flutning á verkefnum sem áður voru unnin af veðdeild Landsbanka Íslands út á land. Það eru einkum samskipti hæstv. félmrh. eða öllu heldur samskiptaleysi hæstv. félmrh. við bæjaryfirvöld, verkalýðsfélög og fleiri aðila á Húsavík sem ég tel vera ámælisverð í þessu sambandi.

Ég vil fyrst taka fram að ég fagna þeirri ákvörðun að flytja þessa starfsemi út á land. Ég óska Sauðkrækingum eða Skagfirðingum til hamingju og þeir eru að sjálfsögðu vel að því komnir að fá viðbótarstörf og umsvif í sitt hérað eða bæjarfélag. Mér þykir það þar af leiðandi mjög dapurlegt að þurfa engu að síður að taka upp þetta mál vegna vinnubragða hæstv. félmrh. í þessu sambandi. Ég vona að menn skilji það og virði að í mínum huga vakir ekki að fara að etja hér saman stöðum og slíkt ber að forðast. En eftir sem áður, þó að niðurstaða málsins sé jákvæð í þeim skilningi að þarna flytjist störf út á land eða byggist upp starfsemi, þá verða vinnubrögðin að vera í lagi. Og þau eru það ekki, a.m.k. ekki hvað varðar þessa hlið málsins, þ.e. samskipti hæstv. ráðherra við Húsvíkinga.

Strax snemmsumars komu fréttir í fjölmiðlum af því að sú hugmynd væri farin á flot á Húsavík að reyna að fá þangað starfsemi á vegum hins nýja Íbúðalánasjóðs eða sjóðinn allan. Það var rætt í bæjarstjórn Húsavíkur fljótlega eftir sveitarstjórnarskipti á Húsavík hvort þetta gæti ekki verið hugmynd sem athugunarverð væri. Með haustinu fóru menn að gera alvöru úr að leita eftir því við stjórnvöld að þetta mætti ganga eftir. Strax 10. september skrifaði Verslunarmannafélag Húsavíkur félmrh. bréf þar sem vitnað var í lögin um húsnæðislánasjóðinn og þeirri hugmynd varpað fram hvort ekki mætti skoða að hann yrði staðsettur á Húsavík. Formaður Verslunarmannafélagsins bréfið endaði þannig:

,,Undirritaður væntir þess að heyra frá þér um framgang hugmyndarinnar. Ágúst Óskarsson, formaður.`` Þetta er dagsett 10. sept. 1998 á Húsavík.

15. september samþykkir bæjarstjórn Húsavíkur á fundi sínum eftirfarandi tillögu: ,,Bæjarstjórn Húsavíkur beinir þeim tilmælum til félagsmálaráðherra að hann beiti sér fyrir því að aðsetur Íbúðalánasjóðs verði staðsett á landsbyggðinni. Er bæjarstjórn reiðubúin til samstarfs við ráðherra vegna nauðsynlegs undirbúnings þess að sjóðurinn hafi aðsetur á Húsavík.``

Þetta bréf er sent daginn eftir, 16. september, og endar þannig: ,,Um leið og bókun þessari er komið á framfæri óskar undirritaður eftir viðbrögðum við henni og viðræðum um framgang málsins.`` Þetta er undirritað af bæjarstjóra Húsavíkur 16. september og sent ráðuneytinu.

Skömmu síðar, eða í lok septembermánaðar, ályktar Verkalýðsfélag Húsavíkur á fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs einnig um að Íbúðalánasjóður verði staðsettur á Húsavík og óskar eftir viðræðum við ráðuneytið um framgang þess máls.

En því er síðan skemmst til að svara, herra forseti, að engu þessara erinda hefur félmrn. svarað, engin viðbrögð hafa þessir aðilar fengið frá hinu háa ráðuneyti, hvorki munnleg né skrifleg.

Enn fremur ber að geta þess að fyrir nokkru síðan beindi hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir fyrirspurn til félmrh. um þetta mál og hæstv. ráðherra svaraði en sá á því öll tormerki að Íbúðalánasjóðurinn gæti flust út á land eða frá Reykjavík, þar sem hann hefði lofað starfsfólkinu sem þar ynni að það skyldi halda sínum störfum hér. En hæstv. ráðherra gat þá í engu, minntist ekki einu orði á að eitthvað annað kynni að vera í bígerð, þ.e. að einhver hluti starfseminnar eða tengd starfsemi kynni að flytjast út á land. Það verður auðvitað að fá það á hreint hvar málin voru stödd þegar hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn hv. þm. fyrir nokkru síðan. Vissi hæstv. ráðherra þá alls ekki neitt um að til greina kæmi að ein eða nein starfsemi þessu tengd flyttist út á land? Eða leyndi hæstv. ráðherra Alþingi upplýsingum um hvar málið var þá á vegi statt? Sé um eitthvað slíkt að ræða væri náttúrlega mjög ámælisverður og alvarlegur hlutur þar á ferðum. Og það verkar torkennilegt að hæstv. ráðherra hafi ekki haft minnstu hugmynd um hvað þarna var í bígerð.

Að lokum, herra forseti, verð ég að geta þess að ráðherra hefur í öllu falli augljóslega brugðist skyldum sínum samkvæmt stjórnsýslulögum, skv. 7. gr. stjórnsýslulaga, um að svara erindum og að beina erindum í rétta átt ef þau eiga annars staðar heima í stjórnsýslunni en hjá ráðherra sjálfum. Þær skyldur, þ.e. leiðbeiningarskyldan er ótvíræð samkvæmt stjórnsýslulögum og ég fæ ekki annað séð en að ráðherra hafi brotið þær skyldur, fyrir utan þann dónaskap að svara ekki bréfum, sem eru mannasiðir eins og allir vita.