Aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:18:40 (1034)

1998-11-11 16:18:40# 123. lþ. 22.10 fundur 98. mál: #A aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna# þál., Flm. KÁ
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka undirtektir við þessa tillögu. Það er auðvitað athyglisvert að við sitjum hér sex konur í þingsalnum og ræðum þessar tillögur og eru karlkyns þingmenn fjarri góðu gamni. Þótt hér sé ekki um nein skemmtimál að ræða hefðu þeir nú haft gott af að fylgjast með þessari umræðu og vonandi sitja einhverjir við sjónvarpstækin sín og fylgjast með.

Það er athyglisvert að varðandi báðar þessar tillögur hafa hv. þm. komið inn á atriði sem ég nefni reyndar ekki í greinargerðum mínum, sem er kvenímyndin og það mikla álag sem margar og sjálfsagt flestar ungar stúlkur, allt niður í smábörn, verða fyrir vegna þess að þeim finnst þær ekki passa inn í ákveðna ímynd. Það leiðir hugann í rauninni að öðru máli og annarri tillögu um það hvernig hægt er að vinna að því að hjálpa bæði drengjum en þó einkum stúlkum til að sætta sig við sig sjálf og líkama sinn, útlit sitt og andlegt atgervi. Það er víða unnið að slíkum málum og mikil umræða úti í heimi á meðal kvenna einmitt um þennan þátt. Ég held að þetta skipti töluvert miklu máli og geti einmitt leitt til þunglyndis og líka til þess að byrja að reykja. Þetta hangir allt saman og er auðvitað bara hluti af þeirri stöðu sem konum er búin í samfélaginu. En ég þakka fyrir undirtektirnar og vona að þessar tillögur nái fram að ganga og ef þær ná ekki svo langt, þá verði þær a.m.k. til að vekja athygli á þessum málum. En auðvitað væri brýnt að við konur beittum okkur meira og betur í umræðu um allt þetta, reykingar, heilsu kvenna almennt, þunglyndi og kvenímyndina og hvernig þetta tengist allt saman.