1998-11-11 16:41:17# 123. lþ. 22.11 fundur 193. mál: #A jafnræði kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs# þál., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:41]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um reglur um jafnræði milli kynja við fjárveitingar til æskulýðs-, tómstunda- og íþróttastarfs. Ég styð þetta mál að sjálfsögðu, enda annar flutningsmanna. Ég vil þakka hv. 1. flm., Bryndísi Guðmundsdóttur, fyrir að flytja þetta mál.

Um þetta efni má hafa langt mál. Mál þessu tengd hafa lengi verið til umræðu á undanförnum þingum, þ.e. um stöðu kvenna í íþróttahreyfingunni.

Það er einkum tvennt sem ég vil bæta við þessa umræðu núna. Á síðasta ári voru til umræðu ný íþróttalög. Þá lagði ég til að það tryggt yrði með lögum að meira jafnræði væri í fjárveitingum til kynja, bæði í tengslum við fjárveitingar menntmrn. og á vegum frjálsra félagasamtaka. Því miður hlaut sú brtt. ekki framgang og fyrir bragðið sitjum við áfram uppi með tilvik eins og það sem kallar tillöguna fram nú, þ.e. umrædda ákvörðun Skáksambandsins sem í upphafi ætlaði að senda eingöngu drengi á ákveðið mót en ekki stúlkur.

Varðandi það mál sem ég hef kynnt mér nokkuð vel, þá er athyglisvert að skoða að í stjórn bæði Taflfélags Reykjavíkur og Skáksambands Íslands eru eingöngu karlmenn. Vissulega ber einnig að viðurkenna að mun færri stúlkur en drengir eru virkar í taflmennsku og þar af leiðandi er málið kannski ekki eins slæmt og það lítur út fyrir í fyrstu. Þó er óásættanlegt að samþykkt sé að styrkja drengi en samþykkt að stúlkur fari ef þær geti safnað fé fyrir því. Þetta er því miður ekki einsdæmi. Margar mæðurnar sem eiga stúlkur, hvort sem þær eru í handbolta eða öðrum íþróttum, kannast við að dætur þeirra þurfi að standa í söfnunum í meiri mæli en drengir í sambærilegum aldursflokkum. Mér sýnist því full ástæða til að halda þessu máli vakandi þrátt fyrir þær góðu skýrslur sem á undanförnum árum hafa verið unnar um stúlkur í íþróttum og áætlanir um að gera átak í þessum málum. Það þarf að eiga sér stað ákveðin hugarfarsbreyting, bæði í íþróttafélögunum sjálfum, í stjórnum þeirra og meðal foreldra. Ég vona svo sannarlega að þetta atvik með skákstúlkurnar verði til þess að hvetja íslenskar stúlkur til þess að taka meiri þátt í skákiðkun sem og í öðrum íþróttum. Það er ljóst að þetta eru hollar íþróttir og tómstundir sem efla stúlkur jafnt sem drengi sem einstaklinga og ber að ýta undir þær fremur en að tómstundir þeirra fari í óuppbyggilega þætti.

Ég vil því aftur taka heils hugar undir þessa till. og vona að hún nái fram að ganga.