Stofnun þjóðbúningaráðs

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 16:47:31 (1040)

1998-11-11 16:47:31# 123. lþ. 22.12 fundur 203. mál: #A stofnun þjóðbúningaráðs# þál., Flm. DH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[16:47]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um stofnun þjóðbúningaráðs. Tillöguna legg ég fram ásamt Sturlu Böðvarssyni á þskj. 221 og er þetta 203. mál þingsins. Tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að koma á fót þjóðbúningaráði til að varðveita þekkingu á íslenskum búningum og gerð íslenskra búninga. Ráðinu verði falið að koma á fót leiðbeiningaþjónustu.

Samstarfsnefnd um íslenska þjóðbúninga hefur starfað um árabil að varðveislu og miðlun upplýsinga um íslenska þjóðbúninga. Hún hefur verið skipuð fulltrúum frá Kvenfélagasambandi Íslands, Þjóðdansafélagi Reykjavíkur, Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Þjóðminjasafni Íslands og Árbæjarsafni. Nauðsynlegt er að efla störf nefndarinnar og festa hana í sessi og koma á leiðbeiningaþjónustu þar sem almenningur, opinberir aðilar og félagasamtök geta fengið upplýsingar um hvaðeina sem varðar íslenska búninga. Kvenfélagasamband Íslands hefur samþykkt að hýsa ráðgjafa. Verkefni þjóðbúningaráðs skal vera:

að varðveita þekkingu á íslenskum búningum og gerð íslenskra búninga,

að koma upp og halda skrá yfir íslenska búninga í söfnum innan lands og utan,

að safna sýnishornum af búningasniðum og halda til haga eldri sniðum,

að safna sýnishornum af efnum, garni og leggingum,

að halda til haga eldri sýnishornum af efnum, garni og leggingum,

að skrá heimildir um íslenska búninga,

að safna skyggnum, ljósmyndum o.fl.,

að koma skrám og sýnishornum í vörslu Þjóðminjasafns Íslands.

Ráðinu verði einnig falið að koma upp leiðbeiningaþjónustu um íslenska búninga sem veitir upplýsingar um heimildir um íslenska búninga, búningagerð, efni og búningasnið, þá aðila sem sérhæfa sig í saumaskap á íslenska búningnum, svo og upplýsingar um hvar nálgast má efni og snið sem hæfa í íslenska búninga.``

Þjóðbúningurinn er hluti af menningu hverrar þjóðar og vinnubrögð sem notuð voru við gerð þeirra dýrmætur menningararfur. Halldóra Bjarnadóttir, skólastjóri á Blönduósi, sú mikla sómakona sagði eitt sinn: ,,Ef ég hefði hér alræðisvald skyldi ég lögbjóða að allar konur klæddust þjóðbúningi.``

Hin síðari ár hefur áhugi kvenna og karla farið vaxandi á að koma sér upp þjóðbúningi. Þjóðbúningur kvenna nú á dögum er einkum með fernu móti, upphlutur, peysuföt, skautbúningur og kyrtill. Hinir þrír fyrsttöldu eiga sér rætur að meira eða minna leyti í búningum íslenskra kvenna allt aftur til 16. aldar. Öðru máli gegnir um kyrtilinn, honum fylgir að vísu sami höfuðbúnaður og skautbúningnum en að öðru leyti er hann frá 1870 og tilraun til að endurskapa fornbúning sem hæfa mætti konum á seinni hluta 19. aldar.

Á seinni hluta 18. aldar tóku konur upp peysuföt og peysubúning, þær klæddust peysu hversdags í stað treyju og báru húfu sem hversdags höfuðfat í stað falds. Talið er að konur hafi lagað húfuna eftir prjónahúfum karla og þannig mun vera um peysuna að hún var tekin upp eftir karlmönnum. Húfu- eða peysubúningur var fyrst tekinn upp sem daglegur klæðnaður af Valgerði Jónsdóttur, biskupsfrú í Skálholti, um 1790. En á fyrri hluta 19. aldar urðu peysuföt algengur hversdags- og sparibúningur kvenna um allt land og á seinni hluta 19. aldar tóku peysufötin nokkrum breytingum.

Ekki er til þess vitað með vissu að upphlutur hafi verið notaður á Íslandi sem sérstök flík, þ.e. sem ermalaus bolur eða kot, fyrr en á fyrri hluta 18. aldar. Þó mun hann hafa orðið tískufat erlendis um eða upp úr aldamótum 1600 og heimildir benda til þess að íslenskar konur hafi verið farnar að taka hann upp hér á landi um miðja 17. öld. Þessar heimildir, sem ég get hér um eru frá Elsu E. Guðjónsson.

Jónas Hallgrímsson vakti eiginlega fyrstur upp umræðuna um þjóðbúninginn í Fjölni á sínum tíma. Upphaf skautbúningsins sem er mesti viðhafnarbúningur íslenskra kvenna má rekja til ársins 1857 þegar út kom löng og gagnrýnin ritgerð um íslenska kvenbúninga eftir Sigurð Guðmundsson málara. Setti hann þar fram tillögur um breytingar á eldri hátíðabúningi kvenna, faldbúningnum, eins og hann var venjulega nefndur, og féllu þessar breytingartillögur í góðan jarðveg. Sigurður lét ekki þar við sitja. Hann sagði til um hvernig búningurinn ætti að vera í öllum smáatriðum. Fyrsti skautbúningurinn var tekinn í notkun í Reykjavík 1859 og hefur haldist óbreyttur síðan.

Það er nauðsynlegt að koma upp leiðbeiningaþjónustu um íslenska búninga. Það skiptir miklu máli að rétt sé að hlutunum staðið og fólk fái sem bestar upplýsingar um hvernig búningurinn á að vera og hvernig á að klæðast honum.

Þjóðbúningur karla er ekki gamall, aðeins nokkurra ára og ég tel að þar hafi tekist afar vel hvað varðar hönnun og útlit.

Á vegum forsrh. er starfandi nefnd um íslenskt handverk og það væri tilvalið verkefni fyrir þá nefnd að gera átak í þessum efnum, að hvetja konur og karla til að koma sér upp þjóðbúningum fyrir árið 2000.

Að lokum, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til síðari umræðu og hv. menntmn.