Smásala á tóbaki

Miðvikudaginn 11. nóvember 1998, kl. 17:05:36 (1044)

1998-11-11 17:05:36# 123. lþ. 22.14 fundur 206. mál: #A smásala á tóbaki# þál., Flm. ÞBack (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 123. lþ.

[17:05]

Flm. (Þuríður Backman):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu. Þetta er 206. mál þingsins og er á þskj. 224. Flutningsmenn auk mín eru Steingrímur J. Sigfússon, Kristín Ástgeirsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir. Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar sem gera smásölu á tóbaki háða leyfisveitingu.``

Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

,,Margar kannanir sýna að reykingar eru að aukast hjá börnum og unglingum. Reykingar hafa einnig færst neðar í aldurshópana, sérstaklega hjá ungum stúlkum.

Samkvæmt könnunum á reykingavenjum ungs fólks undir 16 ára aldri má áætla að íslenskir grunnskólanemendur hafi varið tæpum 100 millj. kr. í tóbak árið 1997. Þar er um ólöglega sölu að ræða, því að bannað er að selja fólki undir 18 ára aldri tóbak. Þar af eyddu 8. bekkingar (13 ára) rúmlega 11 millj. kr. í sígarettur. Því yngri sem unglingar byrja að reykja, þeim mun háðari verða þeir tóbakinu og líklegri til að reykja sem fullorðnir. Því yngri sem einstaklingurinn er við upphaf reykinga þeim mun líklegra er að hann hljóti af alvarlegan heilsufarslegan skaða. Kannanir sýna að reykingar eru yfirleitt upphafið að neyslu á sterkari fíkniefnum. Því er nánast ógjörningur að taka á vímuefnavandanum nema draga jafnframt úr tóbaksneyslu barna og unglinga.

Það er alfarið undir smásöluhafa tóbaks komið hvort hann hefur skilning á og fer eftir ákvæði 8. gr. tóbaksvarnalaga um bann á sölu og afhendingu tóbaks til yngri en 18 ára.

Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, eiga að hafa eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgjast með því í umdæmi sínu að ákvæði II. kafla laganna um sölu og auglýsingar séu virt. Þrátt fyrir að sala á tóbaki til unglinga undir 18 ára aldri hafi verið kærð hefur aldrei komið til að beitt hafi verið viðurlögum eða refsiákvæðum laganna. Sérstakt leyfi til sölu á tóbaki mundi gera allt eftirlit með framkvæmd laganna einfaldara og markvissara. Til þess þarf skýra heimild í lögum.``

Það eru ekki nema tvö ár síðan breytingar voru gerðar á lögum um tóbaksvarnir frá 1984. Þær breytingar voru allar til bóta og má sérstaklega nefna hér hækkun aldurs þeirra sem heimilt er að selja tóbak, þ.e. úr 16 ára í 18 ára aldur. Þingmenn höfðu fullan skilning á mikilvægi þess að draga úr aðgengi barna og unglinga á tóbaksvörum og þetta er einn af mörgum hornsteinum forvarna í tóbaks- og fíkniefnaneyslu.

Ég ætla að rifja upp þær greinar í tóbaksvarnalögunum sem fjalla um sölu á tóbaki, eftirlit, viðurlög og refsiákvæði. Í II. kafla er fjallað um sölu og auglýsingar, í 6. gr. er fjallað um merkingar, í 7. gr. um auglýsingar og í 8. gr. um að tóbak megi hvorki selja né afhenda einstaklingi yngri en 18 ára. Í IV. kafla er fjallað um eftirlit og viðurlög. 17. gr. er um heilbrigðisnefndir og eftirlit, 19. gr. er um viðurlögin og 21. gr. um meðferð mála. Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, hluta úr IV. kafla, þ.e. 17. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, hafa eftirlit með útsölustöðum tóbaks og fylgjast með því í umdæmi sínu að virt séu ákvæði II. kafla laga þessara um merkingar, auglýsingar og sölu tóbaks.

Nú er brotið gegn ákvæðum II. kafla og ekki farið að fyrirmælum heilbrigðisnefndar og getur nefndin þá beitt sömu úrræðum og talin eru upp í 27. gr. laga nr. 50/1981 [nú 81/1988].``

19. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Sá sem brýtur gegn ákvæðum 6. og 7. gr. skal sæta sektum en fangelsi allt að 2 árum séu sektir miklar eða brot ítrekað.

Brot gegn ákvæðum 1. mgr. 8. gr. varða sektum. Fella má refsingu niður ef málsbætur eru miklar.

Brot gegn ákvæðum 2.--6. mgr. 8. gr. varða sektum.

Um tilraun til brots eða hlutdeild gilda ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.``

21. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Með mál, sem kunna að rísa vegna brota á lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, skal farið að hætti opinberra mála.``

Af hverju er ég að rifja þessa hluta laganna upp? Jú, það er öllum ljóst að þessi lög eru brotin af smásöluhöfum, heilbrigðisnefndum og löggæslunni því eins og fram kom í greinargerðinni hefur aldrei komið til þess að beitt hafi verið viðurlögum eða refsiákvæði laganna.

En það er rétt að taka það skýrt fram að fjölmargir smásöluhafar virða lögin og ganga í raun mun lengra í tóbaksvörnum en lögin segja til um, t.d. með því að hafa tóbakið á lítið áberandi stöðum, fela það fyrir sjónum viðskiptamanna eða hafa hætt sölu svo heilsuspillandi efnis. Aðrir gæta þess að hafa fullorðna við afgreiðslu þar sem tóbak er til sölu.

Einn af mörgum veikum hlekkjum núverandi sölukerfis er að víða eru það unglingar sem afgreiða tóbakið og þeim er það flestum mjög erfitt að neita jafnöldrum sínum eða eldri unglingum um sölu á sígarettum.

Annar veikur hlekkur er eftirlitsskylda heilbrigðisnefndanna. Þær eru flestar ofhlaðnar verkefnum og heilbrigðisfulltrúarnir hafa ekki haft möguleika á að sinna þessu eftirliti sem skyldi.

Samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, er hlutverk Hollustuverndar ríkisins að hafa eftirlit með matvælum og eiturefnum og hættulegum efnum þeim tengdum.

Hvorki er hægt að flokka tóbak sem matvæli né nauðsynjavöru en væntanlega mundi tóbak flokkast undir neysluvöru. Hollustuvernd er hvergi með beinum hætti falið að hafa eftirlit með innflutningi á neysluvörum sem hvorki teljast til matvæla né nauðsynjavara. Því er skiljanlegt í ljósi þessa og fjölda nýrra verkefna sem stöðugt bætast á verkefnalista heilbrigðisnefnda að eftirlit með útsölustöðum tóbaks sé ekki forgangsverkefni hjá heilbrigðisfulltrúunum, sérstaklega þegar heilbrigðisfulltrúarnir geta lítið annað en áminnt smásöluhafana og veitt þeim aðhald. Þeir geta ekki stöðvað sölu þeirra sem brjóta ákvæði tóbaksvarnalaganna um sölu og auglýsingar á tóbaki.

En hvers vegna er ekki dæmt og beitt viðurlögum eða refsiákvæðum í þeim málum sem kærð hafa verið? Ég veit engin svör við því en dreg þá ályktun að þetta þyki ekki alvarlegt brot þar sem aðeins hafi verið um sölu á tóbaki að ræða.

Undanfarna daga hefur verið töluverð umræða um fíkniefnaneyslu ungs fólks og úrræði í þeirra málum. Á Alþingi var utandagskrárumræða um málið og eins hefur Fræðslumiðstöð í vímuvörnum haldið ráðstefnu um forvarnir. Öllum ber saman um að besta leiðin til að stemma stigu við neyslu ólöglegra fíkniefna sé að draga úr neyslu hinna löglegu. Umræðan er nauðsynleg. Hún vekur þá grunlausu og hvetur til athafna. En orð duga skammt. Við skulum beita þeim aðferðum sem við vitum að marka mælanleg spor í öllu forvarnastarfi.

En hvers vegna er tóbakið flokkað með matvælum en ekki eiturefnum og/eða fíkniefnum eins og rétt væri samkvæmt innihaldi og skaðsemi efnanna sem sterkust koma fram við sígarettureykingar? Tóbaksvarnanefnd óskaði eftir því við lyfjanefnd ríkisins að hún gerði athuganir á því hvort tóbakssala ætti að falla undir lyfjanefnd ríkisins. Lyfjanefnd telur svo ekki vera og færði fyrir því rök en, með leyfi forseta, vil ég fá að lesa upp smákafla úr greinargerðinni:

[17:15]

,,Hins vegar er tóbak eiturefni samkvæmt lögum um eiturefni og hættuleg efni. En eiturefni eru samkvæmt þeim lögum öll þau efni er innihalda vissar gerðir eiturefna, sem síðan eru talin upp í sérstökum eiturefnalista sem fylgir lögunum. Í þeim lista er fjöldi efna sem eru í tóbaki og tóbaksreyk, samanber nikótín, nikkel, nítrósamin, besantrasen og bensópyren. Og við þetta má bæta arseniki og blásýru.``

Í 19. gr. sömu laga er fjallað sérstaklega um krabbameinsvaldandi eiturefni og þar kemur fram að það má setja reglur til að koma í veg fyrir mengum af þeirra völdun.

Við höfum farið eftir fyrirkomulagi sem á rætur að rekja til bandarískra tóbaksræktenda frá þeim tíma sem litið var á tóbaksplöntuna sem hverja aðra landbúnaðarafurð. Tóbaksiðnaðurinn hefur allar götur síðan barist gegn öllum breytingum á þessu sviði því rétt flokkun á tóbaki þýðir samdrátt í sölu, jafnvel svo umtalsverða að veldi tóbaksrisanna verði ógnað.

Það hriktir í lagalegri stöðu tóbaksiðnaðarins í Bandaríkjunum og hjá Evrópusambandinu. En áhrif tóbaksframleiðenda eru mikil og þeir hafa sterk ítök til að hafa áhrif á lagabreytingar sem ógna hagsmunum þeirra því að það eru hagsmunir þeirra en ekki mannkynsins sem ráða ferðinni.

Við eigum að fara þær leiðir í forvörnum sem við teljum að skili sem bestum árangri til að ná fram þeim markmiðum sem við höfum sett okkur til að bæta heilsu og velferð þjóðarinnar. Leyfi til sölu tóbaks í smásölu er ein þessara leiða. Við þurfum að sníða lög okkar að EES-samningnum og við skulum láta á það reyna hvort þessi leið sé ekki fær.

Ég legg til að tillögunni verði vísað til síðari umræðu og til hv. heilbr.- og trn.