Sjávarútvegsnám

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:16:40 (1092)

1998-11-16 15:16:40# 123. lþ. 24.1 fundur 104#B sjávarútvegsnám# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi sjávarútvegsnámið og sérstaklega skipstjórnarnámið er verið að hefja framkvæmd á nýjum sjávarútvegsbrautum. En því miður verður að segja þá sögu eins og er að ekki voru eins margir innritaðir á þær brautir í haust og við væntum og innritunin var mest í Reykjavík. Það fer að sjálfsögðu eftir áhuga nemendanna hvernig unnt er að skipuleggja námið. En ég hef einnig orðið var við að Landssamband ísl. útvegsmanna og útvegsmenn hafa ályktað um menntamál greinar sinnar. Þessi samtök hafa lýst því yfir að þau vilja mjög auka afskipti sín af rekstri skóla á þessu sviði. Ég vænti þess að þau muni einnig kynna mér hugmyndir sínar.

Góð sátt var um inntak sjávarútvegsbrautarinnar og þær leiðir sem farnar voru til þess að kynna hana í sjö framhaldsskólum á landinu. Ég hef alls ekki útilokað að frekara nám og fagnám fari fram á fleiri stöðum en í Reykjavík. Það liggur alveg ljóst fyrir af minni hálfu að það á að skoða í hverju tilviki fyrir sig. Eins og hv. fyrirspyrjandi veit er nú um þrjá skóla núna að ræða, það er í Vestmannaeyjum, í Reykjavík og á Dalvík. Þessi mál þarf auðvitað að skoða í ljósi þeirrar þróunar sem verður og það á ekki að útiloka neinn skóla í þessu tilliti.

Ef það er svo að útvegsmenn vilja koma frekar að skólarekstrinum erum við líka reiðubúnir til að ræða um það mál við þá og alla sem starfa í þessum greinum en það var góð sátt um sjávarútvegsbrautina og það var góð sátt um að tilboð um inngöngu á hana yrði í sjö skólum. En eins og hv. fyrirspyrjandi veit og hefur spurt mig um skriflega var innritunin mjög misjöfn eftir skólum.