Breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:28:15 (1159)

1998-11-17 13:28:15# 123. lþ. 25.91 fundur 107#B breytingar á skipulagi lögreglustjóraembættisins í Reykjavík# (umræður utan dagskrár), JónK
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:28]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Í starfi lögreglunnar skiptir mestu að boðleiðir séu skýrar innan hennar, starfsskyldur og verkaskipting yfirmanna séu ljósar og fastmótaðar reglur séu um starfsumhverfi lögreglumanna. Það er þeim afar mikilvægt í vandasömu og erfiðu starfi sínu. Skipulag svo mikillar stofnunar sem lögreglunnar í Reykjavík er þarf að tryggja góðan starfsanda og skilvirkni. Þetta fer yfirleitt saman.

Skýrslur liggja fyrir um skipulag lögreglunnar í Reykjavík en vinnan, eftir að þær eru komnar fram, er ekki til þess fallin að auka traust eða skapa gott og öruggt starfsumhverfi í lögreglunni. Vinnubrögðin hingað til hafa verið sérstæð, málið hefur verið rekið áfram í veikindafríi lögreglustjórans og skipurit sem skýrsla VSÓ gerir ráð fyrir um verkaskiptingu hans og varalögreglustjóra er undarleg lesning. Ég vil þó láta í ljós að margt gott er að finna í skýrslunni og ekki ástæða til að hrópa hana niður í heild.

Gert er ráð fyrir að varalögreglustjóri hafi yfirumsjón með öllum deildum og stjórni öllum daglegum rekstri en lögreglustjóri sjái um stefnumörkun til lengri tíma. Lögreglustjóri er fulltrúi embættisins út á við en varalögreglustjóri hefur yfirumsjón með almannatengslum embættisins. Varalögreglustjóri hefur yfirumsjón með skrifstofu lögreglustjóra. Lögreglustjóri er staðgengill varalögreglustjóra. Lögreglustjóri markar stefnu fyrir embættið með framkvæmdastjórn og ríkislögreglustjóra en varalögreglustjóri hefur umsjón með gerð starfslýsinga fyrir framkvæmdastjórnina. Saksóknari lögreglunnar er undirmaður varalögreglustjóra.

[13:30]

Ég treysti hæstv. dómsmrh. til þess að vinda ofan af þessu máli og taka það upp í samráði við lögreglustjórann í Reykjavík sem var að koma til starfa og lögreglumenn í landinu.

Það hefur verið þrætumál í þessari umræðu hvort þessi gjörningur væri löglegur. Ég ætla ekki að kveða upp dóma um það en það verður skilyrðislaust að kveða upp úr um þetta atriði og skera úr því því að það er algerlega óviðunandi að hafa slíka þrætu uppi.