Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 13:46:39 (1162)

1998-11-17 13:46:39# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[13:46]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mun annars vegar gera grein fyrir starfsemi Byggðastofnunar árið 1997 en ársskýrslu Byggðastofnunar hefur verið dreift til þingmanna og samkvæmt lögum skal forsrh. árlega gefa Alþingi skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Hins vegar mæli ég fyrir till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001. Samkvæmt lögum um Byggðastofnun, nr. 64/1985, með síðari breytingum, gerir Byggðastofnun tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn og leggur forsrh. hana fram á Alþingi. Ég mun því, herra forseti, hefja mál mitt með því að greina frá skýrslu Byggðastofnunar.

Gott efnahagsástand endurspeglast í afkomu Byggðastofnunar árið 1997, annað árið í röð. Hagnaður stofnunarinnar nam 167 millj. kr. Að teknu tilliti til óreglulegra liða er hagnaður ársins 54 millj. kr. Hreinar vaxtatekjur námu 226 millj. kr. Framlag ríkisins á fjárlögum nam samtals 223 millj. kr. Þar af voru 19 millj. kr. vegna stuðnings við atvinnuuppbyggingu samkvæmt ákvörðunum búvörusamnings. Rekstrarkostnaður nam 137 millj. kr. Veittir styrkir námu 142 millj. kr. en 160 millj. kr. árið áður. Gott efnahagsástand og stöðugleiki í efnahagslífi leiddi til þess að hægt var að nota á annað hundrað millj. kr. sem settar höfðu verið á afskriftareikning til að mæta áætluðum útlánatöpum vegna nýrra lánveitinga. Afskriftaframlag ársins var því einungis 5 millj. en nam um 170 millj. árið áður.

Niðurstöðutala efnahagsreiknings Byggðastofnunar nam í árslok 1997 tæpum 7,2 milljörðum kr. Eigið fé stofnunarinnar nam þar af um 1,2 milljörðum kr. Skuldir voru því samtals tæpir 6 milljarðar kr.

Byggðastofnun er ætlað að viðhalda raungildi eigin fjár síns. Það markmið gekk eftir á árinu.

Breytingar á starfsskipulagi og starfsháttum Byggðastofnunar voru undirbúnar á árinu. Stjórn stofnunarinnar ákvað að flytja þróunarsvið Byggðastofnunar til Sauðárkróks. Fyrr á þessu ári tók stjórnin svo ákvörðun um að leggja niður skrifstofur sínar á Egilsstöðum og Ísafirði en nota það fé sem við það sparast til að auka enn starfsemi á ábyrgð heimaaðila í þessum landshlutum. Þessu hefur nú verið hrint í framkvæmd.

Þá var ákveðið að skilja sem mest á milli lánastarfsemi Byggðastofnunar og annarrar starfsemi, svo sem úttekta og atvinnuþróunarstarfs. Breytingar á skipulagi og starfsháttum Byggðastofnunar voru nánar útfærðar og staðfestar með nýrri reglugerð um Byggðastofnun sl. vor.

Lánastarfsemi Byggðastofnunar hefur löngum verið ágreiningsefni. Af því tilefni hefur verið sett ákvæði í reglugerð um Byggðastofnun sem mótar ásættanlega umgjörð um lánastarfsemi. Hún þarf bæði að lúta aðhaldi og að gera mögulegt að taka þá áhættu sem fylgir nýjungum og veðsetningarhæfni eigna á landsbyggðinni. Þá er í nýju reglugerðinni kveðið á um undirbúning mála til ákvörðunar stjórnar. Tekin eru af öll tvímæli um að stofnuninni beri að auglýsa eftir umsóknum um styrki og sett ákvæði um afgreiðslu umsókna og um eftirgjöf skulda. Einnig eru ítarleg ákvæði um þátttöku stofnunarinnar í atvinnuþróunarfélögum og stuðning við atvinnuráðgjafa í hverju kjördæmi.

Byggðastofnun skal framvegis ekki vera beinn þátttakandi í atvinnurekstri. Byggðastofnun er þó heimilt að taka þátt í félögum með fjárframlagi ef um er að ræða eign\-ar\-halds-, fjárfestingar- og þróunarfélög. Það skilyrði er þó sett að eignarhluti Byggðastofnunar í slíkum félögum megi ekki vera meira en 40%. Hlutur fagfjárfesta, fyrirtækja í einkaeigu og einstaklinga skal vera a.m.k. 20%. Stofnuninni er þó heimilt áfram að verja kröfur sínar með því að breyta þeim í hlutafé.

Með þessari nýju skipan mála er stofnunin betur í stakk búin til að sinna sínu mikilvæga hlutverki sem er að stuðla að þjóðfélagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Ég tel fulla ástæðu til að þakka stjórn Byggðastofnunar, forstjóra og starfsmönnum störfin á liðnu ári. Sérstaklega þakka ég formanni og varaformanni farsæl og framsýn störf þeirra og ánægjulegt samstarf.

Herra forseti. Ég leyfi mér þá næst að víkja að till. til þál. um stefnu í byggðamálum. Í 8. gr. laga um Byggðastofnun kemur fram að stofnunin skuli gera tillögu að stefnumótandi áætlun í byggðamálum til fjögurra ára í senn og að ráðherra skuli leggja tillöguna fyrir Alþingi til afgreiðslu. Tillagan kemur fram í þskj. 257 sem dreift hefur verið til þingmanna. Í fylgiskjölum tillögunnar eru ýmsar skýrslur og álitsgerðir sem fjalla um byggðaþróun í landinu. Í 10. gr. reglugerðar um stofnunina frá 8. maí 1998 segir að forsrh. skuli kynna Byggðastofnun stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og skýrgreina á hvaða atriði lögð skuli áhersla við gerð áætlunarinnar þegar vinna að undirbúningi hennar hefst. Í samræmi við þetta ritaði ég Byggðastofnun bréf 19. ágúst 1997. Meðal þess sem þar kemur fram er eftirfarandi:

,,Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. apríl 1995 segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir því að samheldni megi ríkja með þjóðinni og milli dreifbýlis og þéttbýlis. Að því vill ríkisstjórnin stuðla með almennri stefnu sinni í efnahags- og atvinnumálum, með því að grundvöllur atvinnustarfsemi í landinu sé traustur og ógni ekki búsetuöryggi á landsbyggðinni. Ríkisstjórnin telur að framhald eigi að vera á þeirri viðleitni sem uppi hefur verið og miðar að því að auka fjölbreytni atvinnulífs og atvinnutækifæra á landsbyggðinni. Segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að Byggðastofnun í samvinnu m.a. við atvinnuráðgjafa eigi að stuðla að sókn og uppbyggingu atvinnulífsins um land allt.

Ríkisstjórnin vill efla byggð í landinu með traustum og góðum samgöngum þannig að gæði landsins og aðrar auðlindir til lands og sjávar nýtist með hagkvæmum hætti. Jafnframt vill ríkisstjórnin tryggja góða opinbera þjónustu um allt land sem sé landsmönnum öllum aðgengileg. Er lögð áhersla á að opinber þjónusta sé byggð upp þar sem hagkvæmt er að veita hana og þar sem flestir geta fært sér hana í nyt. Með staðsetningu opinberrar þjónustu ber að stuðla að eflingu vaxtarsvæða á landsbyggðinni þar sem bestar forsendur eru til að koma til móts við kröfur um fjölbreytta þjónustu og fjölbreytt framboð atvinnutækifæra. Flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga, sem ríkisstjórnir áfram vinna að, miða að sama marki.``

Í bréfi mínu til Byggðastofnunar kom fram að ríkisstjórnin legði áherslu á að í stefnumótandi áætlun í byggðamálum yrði fjallað um eftirtalin atriði:

1. Hvernig Byggðastofnun hyggst halda áfram stuðningi við nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni og sett fram skýr markmið í því sambandi.

2. Gerð verði tillaga um hvernig ríkisvaldið geti stuðlað að eflingu vaxtarsvæða á landsbyggðinni og hvaða markmið séu raunhæf og æskileg í því sambandi.

3. Hvernig stofnunin hyggst halda áfram að vinna að gerð svæðisbundinna byggðaáætlana. Er lögð á það áhersla að þau svæði sem um er fjallað hverju sinni nái ákveðinni lágmarksstærð og miðist við svæði sem mynda eða geta myndað samfelld atvinnu- og þjónustusvæði. Er jafnframt rétt að vilji sveitarstjórna til samstarfs þeirra í milli ráði um afmörkun þessara svæða.

4. Með hvaða hætti Byggðastofnun geti haft milligöngu um að veita sveitarstjórnum upplýsingar um áform ríkisvaldsins varðandi uppbyggingu og skipulagningu opinberrar þjónustu í einstökum málaflokkum er nýtist þeim við þeirra eigin áætlanagerð.

5. Framhald á verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga og helstu möguleikar og markmið í því sambandi.

6. Hvaða ráðstafanir ríkisvaldið geti gert til að bregðast við búsetuvanda á svokölluðum jaðarsvæðum.

7. Byggðastuðningur stjórnvalda, hvort þar sé aukinnar samræmingar þörf og hvernig best sé að nýta það fé sem varið er til að styðja búsetu og atvinnulíf á landsbyggðinni.

Búsetuþróun í landinu er áhyggjuefni. Byggð úti á landi verður víða fyrir ágjöf þegar sífellt fleiri flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Á síðustu tíu árum hefur íbúum landsins fjölgað um 10%. Íbúum höfuðborgarsvæðisins hefur hins vegar fjölgað um 19%. Á þessu tímabili er mismunur aðfluttra og brottfluttra af landsbyggðinni samtals rúmlega 12 þúsund. Á sama tíma hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um rúmlega 26 þúsund manns og því stafar nær helmingur vaxtarins af beinum aðflutningi innan lands. Tíðni brottflutnings af landsbyggðinni hefur aukist en hlutfallslega jafnmargir flytja frá höfuðborgarsvæðinu út á land og áður var sé miðað við mannfjölda.

Þessi þróun heldur áfram ef skoðaðar eru tölur þessa árs. Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa rúmlega 1.400 fleiri flutt til höfuðborgarsvæðisins en út á landsbyggðina. Samkvæmt rannsóknum eru þau atriði sem fyrst og fremst ráða vali landsbyggðarfólks á búsetustað áhugi á nútímalegum lífsháttum, t.d. fjölbreyttum atvinnutækifærum, ríkulegum aðgangi að verslun og þjónustu, fjölbreyttara menningarlífi og afþreyingu, góðum húsnæðisaðstæðum og samgöngum.

Nauðsynlegt er að stjórnvöld hafi skýra stefnu að því er varðar þróun byggðar í landinu. Almenn stefna ríkisstjórnarinnar er skýr og miðar að því að styrkja byggð þar sem þess er kostur. Þessa stefnu þarf að útfæra frekar og er stefna í byggðamálum til þess.

Sú till. til þál. sem lögð er fram byggir að uppistöðu til á tillögu stjórnar Byggðastofnunar. Þær aðgerðir sem lagðar eru til skiptast í fjóra flokka. Í fyrsta lagi eru aðgerðir sem snúa að nýsköpun í atvinnulífinu. Í öðru lagi eru aðgerðir á sviði menntunar, þekkingar og menningar. Í þriðja lagi jöfnun búsetuskilyrða og í fjórða lagi atriði er snúa að bættri umgengni okkar við landið. Mun ég hér á eftir fjalla stuttlega um hvert þessara atriða.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að unnið verði markvisst að því að auka fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni. Á undanförnum árum hefur orðið mikil efling á atvinnuþróunarstarfsemi á ábyrgð aðila í héraði. Byggðastofnun hefur stutt það með stórauknu fjármagni að undanförnu. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að efla starfsemina, m.a. með því að leita eftir samstarfi við háskóla og rannsóknarstofnanir.

Í tillögunni er gert ráð fyrir að lánastarfsemi Byggðastofnunar verði rekin á arðsemisgrundvelli. Þá er lagt til að reikningslegur aðskilnaður verði á milli lánastarfsemi Byggðastofnunar og annarrar starfsemi á vegum hennar. Þetta er í anda þeirrar stefnu að gera ljós skil á milli þess sem nýtur stuðnings ríkisvaldsins og annarrar starfsemi.

Skortur á áhættufjármagni hefur verið talinn standa nauðsynlegri fjölbreytni atvinnulífs á landsbyggðinni fyrir þrifum. Í því skyni m.a. er hluta af fjármagni Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins varið til nýsköpunarverkefna á landsbyggðinni. Aðilar í héraði hafa einnig hug á að geta tekið þátt í félögum sem hafa aukna fjölbreytni í atvinnu að markmiði.

Í þáltill. er gert ráð fyrir því að þátttaka Byggðastofnunar í eignarhaldsfélögum sé fjármögnuð með sérstökum fjárveitingum af fjárlögum sem geti numið allt að 300 millj. kr. á ári.

Góðar samgöngur eru mikilvægar fyrir þróun byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Víða er nauðsynlegt að stunda atvinnu um lengri veg en áður. Þess vegna er í tillögunni lagt til að gripið verði til aðgerða til að auðvelda fólki í strjálbýli atvinnusókn og minnka kostnað henni samfara.

Mikil umræða hefur farið fram á undanförnum missirum um hlut ríkisvaldsins í byggðaþróuninni með eigin atvinnustarfsemi. Í þessari tillögu er lögð áhersla á að opinberum störfum fjölgi ekki minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Leitast verði við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins og er reynt að skilgreina eftir föngum verkefni á vegum einstakra ráðuneyta sem unnt væri að vinna að og sinna á landsbyggðinni. Tillagan gerir ráð fyrir að einstökum ráðuneytum verði gert að leggja fram tillögur um það hver þessi verkefni geti verið.

Ríkisstjórnin hefur lagt á það áherslu að í viðræðum við erlenda fjárfesta sé kannað hvort mögulegt sé að stóriðjukostum sé fundinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Í sumum tilvikum hníga hagkvæmnisrök að slíkri staðsetningu. Í tillögunni er þessi áhersla ítrekuð.

Annar þáttur tillögunnar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árið 1998--2001 fjallar um mennta- og menningarmál. Á undanförnum árum hefur mönnum orðið æ ljósara hið mikla gildi mennta- og menningarmála við mótun heilbrigðra samfélaga sem hafa möguleika til þróunar og vaxtar. Annars vegar er um að ræða aðgerðir sem stuðla að því að efla menntastofnanir á landsbyggðinni. Þar fer Háskólinn á Akureyri fremstur í flokki án þess að gert sé lítið úr mikilvægi annarra menntastofnana bæði á háskóla- og framhaldsskólastigi. Hins vegar eru gerðar tillögur sem hafa að markmiði að jafna kostnað og aðstöðu fyrir íbúa á landsbyggðinni að því er varðar aðgang að menntun. Þar er um að ræða bætt skilyrði fyrir fólk til að sækja nám utan heimabyggðar og að þeir möguleikar sem fjarkennsla býður upp á verði nýttir. Á undanförnum missirum hefur orðið veruleg aukning á framboði til náms í fjarkennslu, bæði á vegum Háskóla Íslands og menntastofnana á landsbyggðinni.

[14:00]

Í þriðja þætti tillögunnar er fjallað um jöfnun lífskjara og bætta samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar. Gerð er tillaga um að lækka kostnað við hitun íbúðarhúsnæðis annars vegar með auknum greiðslum til jöfnunar, en hins vegar með því að styrkja aukna nýtingu jarðvarma til húshitunar. Nú þegar hefur verið hrundið af stað sameiginlegu átaki iðnrn., Byggðastofnunar og Orkusjóðs til að efla leit að jarðhita til húshitunar. Svo sem áður er komið fram leggur ríkisstjórnin mikla áherslu á þátt samgöngubóta í því að bæta stöðu landsbyggðarinnar og bæta þar lífskjör. Lögð verði áhersla á framkvæmdir í þeim landshlutum þar sem samgöngur eru ófullnægjandi. Víða hafa sveitarfélög orðið að taka yfir félagslegt íbúðarhúsnæði í samræmi við reglur þar um. Þetta vandamál er mest þar sem íbúum hefur fækkað mest. Nú um áramótin taka gildi ný lög um Íbúðalánasjóð. Í þeim lögum eru ákvæði um með hvaða hætti hægt verður að bregðast við þessum vanda.

Í tillögunni er ályktuð sú stefna ríkisstjórnarinnar að flytja beri verkefni frá ríki til sveitarfélaga án þess að gerðar séu beinar tillögur um hvernig það skuli gert. Stefnt skuli að því að hlutur sveitarfélaga verði eigi minni en ríkisins í opinberum rekstri. Í dag er ríkið með um það bil tvöföld umsvif á við sveitarfélögin séu almannatryggingar ekki taldar með. Hlutur sveitarfélaganna af opinberri starfsemi hefur vaxið á undanförnum árum. Sú efling sveitarfélaganna sem orðið hefur á undanförnum árum með sameiningu þeirra í stærri og öflugri einingar er að skapa mun betri forsendur fyrir því að hlutur sveitarfélaganna aukist enn.

Í fjórða hluta tillögunnar er fjallað um bætta umgengni við landið. Gerð er tillaga um að gera átak til að stöðva hraðfara landeyðingu þar sem náttúruöfl hindra ekki framkvæmdir. Lagt er til að sveitarfélög verði aðstoðuð við gerð framkvæmdaáætlunar í umhverfismálum og gert verði átak til umhverfisbóta. Þá er lagt til að kanna hver yrðu langtímaáhrif á stofnvegum á miðhálendinu.

Herra forseti. Tillögu þeirri sem ég hef hér mælt fyrir er ætlað að taka á þeirri byggðaröskun sem nú á sér stað. Þess verður þó að gæta að of miklar væntingar verði ekki gerðar til þessarar þáltill. einnar og sér. Verði tillagan samþykkt og ef vel tekst til um þær fjölþættu ráðstafanir sem hún felur í sér fæst vissulega ágæt viðspyrna landsbyggðinni í hag. Kjarni þessarar tillögu felst enda ekki í að málefni byggðanna færist á eina hönd í Reykjavík heldur er fyrst og fremst byggt á frumkvæði aðila í héraði og stutt við bakið á heimamönnum í uppbyggilegri viðleitni sinni. Öllum má hins vegar vera ljóst að búsetuþróun mun ekki snúast við í einu vetfangi með samþykkt Alþingis á tillögu sem þessari. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa byggðaþáttinn einnig í huga við mótun efnahags- og þjóðfélagsmála. Þótt umræða um almenna hagræna þætti í íslensku samfélagi virðist ekki endilega hafa bein tengsl við búsetuþróun hlýtur þingheimur að fallast á að stöðugur og sterkur efnahagsgrundvöllur í landinu er lykilatriði í að ekki halli enn meira undan fæti víða á landsbyggðinni. Niðursveifla í atvinnulífi mundi augljóslega koma harðast niður á veikustu byggðarlögunum. Allar hugmyndir um að veikja Ísland efnahagslega ber að skoða í því ljósi.

Hagsmunir landsbyggðarinnar í efnahagsumræðunni verða enn skýrari þegar ýmis dægurmál eru skoðuð. Til að mynda er augljóst að ofurskattur á aðalatvinnugrein hinna dreifðu byggða, sjávarútveginn, mundi valda hruni á byggð víða um land og almennt veikja landsbyggðina enn frekar en nú er. Sem betur fer virðast fylgismenn slíkra hugmynda hafa snarlækkað þær upphæðir sem þeir segjast vilja innheimta svo tölurnar núna eru aðeins lítið brot af því sem áður hefur heyrst en hugmyndirnar eru því miður þekktar.

Þá má heldur ekki láta tímabundnar öfgar gegn vatnsaflsvirkjunum og umhverfisvænni stóriðju á Íslandi valda landsbyggðinni varanlegum skaða. Öfgar í nýtingu eru vissulega slæmar, öfgar í verndun eru litlu betri. Þegar vissir landshlutar vilja styrkja efnahagslega stöðu sína með uppbyggingu iðnaðar verður að hlusta á þær raddir. Um leið þarf að gæta vel að umgengni við landið. Það hafa Íslendingar yfirleitt borið gæfu til að gera í gegnum áratugina. Við höfum að auki lagt af margvíslega mengandi starfsemi á undanförnum áratugum. Þess vegna getum við ekki gengist undir alþjóðleg viðmið í umhverfismálum ef þau eiga ekki við um aðstæður á Íslandi og eru bersýnilega óásættanleg fyrir okkur. Í loftslagsmálum gengi það til að mynda þvert á markmið Kyoto-samkomulagsins ef Íslendingar væru þar með að óbreyttu. Ástæðan er sú að ýmis stóriðja sem ella yrði staðsett hér á landi mundi með aðild Íslands að núverandi samkomulagi færast til landa sem nota margfalt meira mengandi orku en við. Að auki er samkomulagið og þær tímasetningar sem það byggir á sérstaklega ósanngjarnt gagnvart okkur Íslendingum. Kyoto-samningurinn eins og hann lítur út núna er ekki síst ósanngjarn íbúum landsbyggðarinnar sem eru að styrkja byggðarlög sín.

Eins má benda á að tilhneiging til útþenslu hins opinbera hefur haft slæm áhrif á landsbyggðina. Störf hjá ríkinu eru til að mynda langflest staðsett á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Svo sem fyrr var getið verður stefnt að því að staðsetja nýja starfsemi ríkisins úti á landi eftir því sem framast er unnt. Er hægt að nefna allmörg dæmi um viðleitni af því tagi á yfirstandandi kjörtímabili, en jafnframt því miður dæmi um að þeir stjórnmálamenn sem þar hafa fremst farið hafi hlotið pólitíska skráveifu fyrir vikið. Áfram verða verkefnin einnig færð frá ríki til sveitarfélaga. Samt sem áður er ljóst að ör fjölgun opinberra starfa þýðir fyrst og fremst fjölgun starfa á höfuðborgarsvæðinu. Sú staðreynd hefur verið greinilega dregin fram nýlega á talnalegum grundvelli.

Af framansögðu má vera ljóst að við alþingismenn megum ekki aðeins huga að málum landsbyggðarinnar á þeim tyllidögum þegar búsetumál eru rædd sérstaklega. Ef raunverulegur vilji er fyrir því að styrkja dreifðar byggðir og ekki síst byggðakjarna víða um land verður að sýna þann vilja í verki. Ég tel að fyrirliggjandi tillaga, sem stjórn Byggðastofnunar á mestan heiður af, sé gott og glöggt dæmi um slíkan vilja.

Herra forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að þáltill. þessari verði vísað til síðari umræðu og hv. allshn.