Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 15:46:37 (1182)

1998-11-17 15:46:37# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég hlýt að þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram og þó að mikið lifi eftir af henni þá hlýt ég að vekja athygli á því að í þessari umræðu er nokkuð annar hljómur en verið hefur að undanförnu þegar skýrsla Byggðastofnunar hefur verið rædd á Alþingi. Það tel ég mjög af hinu góða og hlýt að vekja sérstaka athygli á því.

Hæstv. forsrh. gerði grein fyrir ársskýrslu Byggðastofnunar eins og hún liggur fyrir. Á hana hefur ekki mikið verið minnst enda eru af henni góðar fréttir. Rekstur stofnunarinnar árið 1997 gekk vel. Auk þess hafa verið gerðar grundvallarskipulagsbreytingar á henni sem eðli málsins samkvæmt koma fyrst og fremst fram í formálanum. Þær verða þá væntanlega betur skýrðar í næstu ársskýrslu. Þar hafa verið teknar afar mikilvægar ákvarðanir. Þessar ákvarðanir byggjast einkum á því að þróunarverkefni og leiðbeiningar sem stofnunin hefur haft með höndum eru færð heim í hérað, færð til fólksins sem þar vinnur og starfar.

Stundum hefur verið talað um fjáraustur í sambandi við Byggðastofnun. Því væri kannski vert að nefna örfáar tölur í þeim efnum til að skýra hvernig því fjármagni sem Byggðastofnun hefur yfir að ráða er skipt eða mun skipt t.d. á næsta ári.

Í fjárlagafrv. hefur Byggðastofnun 202 millj. til ráðstöfunar. Þökk sé fyrir það. Af þeim 202 millj. má ætla að helmingur fari til starfsemi atvinnuþróunarfélaga um allt land eða 100 millj. kr. Gert ráð fyrir því að einn fjórði af þessu fjármagni fari til starfsemi þróunarsviðs Byggðastofnunar norður á Sauðárkróki sem þar tók til starfa 1. júlí sl. og hefur verið starfrækt af miklum myndarskap síðan. Þá er eftir einn fjórði fjárveitinganna. Þegar búið er að taka það sem tilheyrir forustuhlutverki stofnunarinnar þá eru eftir atvikum 30--40 millj. kr. eftir til þróunarverkefna. Þó að það sé út af fyrir sig ekki ýkjamikið fé þá hef ég séð þess mörg dæmi að það kemur að góðum notum. Það er mjög auðvelt að sýna fram á að svo sé.

Þannig hefur þessu fjármagni verið deilt og að stórum hluta verið fært til ráðstöfunar hjá þeim þróunarstofum sem vinna á grundvelli laga um Byggðastofnun. Ég er sannfærður um að af þessu verður mikill árangur.

Mér þykir einnig vert að minna á, út frá því sem komið hefur fram í þessari umræðu þegar menn eru að tala um margar skýrslur, að þetta er önnur þáltill. sem lögð er fram á grundvelli lagabreytinganna frá 1991. Að sjálfsögðu var sú tillaga barn síns tíma og menn höfðu betra ráðrúm til að setja þessi mál í réttan farveg núna eins og raunar kemur fram.

Ég vil líka benda á, vegna þess að hér er talað um að ógreinilega sé talað á ýmsum sviðum, að nánari útlistun á tillögu forsrh. um stefnu í byggðamálum er að finna í þeim greinargerðum sem fylgja með þessu þingskjali. Þær eru 15 og þar af eru sjö unnar af Háskólanum á Akueyri sem fór yfir margvísleg gögn sem fyrir hann voru lögð til þess að samræma þær skoðanir sem fyrir lágu. Margt af því sem menn eru að kvarta um í sambandi við útlistun á þessum tillöguflutningi er að finna í þessum afar nákvæmu fylgiskjölum sem fylgja með tillögunni. Í þessum fylgiskjölum eru meira að segja ýmsar tillögur sem ekki eru í þáltill. sjálfri. Hér er því um að ræða gríðarlega mikinn efnivið til skýringa á þáltill. sjálfri.

Að sjálfsögu er vert að geta þess alveg sérstaklega hvernig þessi tillaga er fram komin og hvernig niðurstöður hennar eru fengnar. Reyndar hefur verið minnst á að hlutur Stefáns Ólafssonar prófessors er afar mikilvægur í þeim efnum. Segja má að rannsóknir hans hafi lagt grunninn að þessari tillögugerð. Ég tel greinargerð þá sem grundvölluð er á rannsóknum ofan úr Háskóla Íslands býsna trúverðuga og síðan eru rökstuddar m.a. þær tillögur sem hér liggja fyrir frá Háskólanum á Akureyri auk hugmynda frá fleiri góðum mönnum sem lagt hafa hönd á plóg. Af því að menn hafa túlkað --- ég vona að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hlýði á mál mitt --- sérstaklega grundvöllinn að þessum tillögum, þá vildi ég aðeins biðja menn að líta á það sem stendur á bls. 31. Þar er að finna hinn raunverulega grundvöll tillögugerðarinnar. Þar kemur fram að þeir sem kvarta mest yfir búsetunni á Íslandi og hyggjast hverfa þaðan á næstu árum taka þá ákvörðun af eftirtöldum ástæðum:

44%, eða nær helmingur, taka þessa ákvörðun vegna atvinnuaðstæðna. 30% taka þessa ákvörðun vegna menntunaraðstæðna og 12% vegna almennra lífsgæða. Þarna er að finna ástæðurnar fyrir brottflutningnum af landsbyggðinni. Þarna er að finna ástæðurnar fyrir því að texti þessarar tillögu er eins og raun ber vitni. Fletti menn aðeins til baka gefur að líta töflu sem tilgreinir 24 þætti hinna almennu lífsgæða. Ég verð að segja að ég var hissa á mörgu af því sem kom fram í rannsóknum Stefáns Ólafssonar en þarna var ég þó mest hissa. Í ljós kemur að þessir þættir sem ráða um það bil einum fimmta af tilefnum brottflutnings af landsbyggðinni ráðast að langstærstum hluta af fjórum liðum, þ.e. 78% af húshitunarkostnaði, 69% af verðlagi og verslunaraðstæðum, 58% af lagningu og viðhaldi vega og síðan 52% af tekjuöflunarmöguleikum. Þetta kom mér nokkuð á óvart og sérstaklega það sem var miklu óvænna í þessum efnum að varðandi þjónustu á landsbyggðinni voru kvörtunartilefnin öll í neðstu sætunum. Kvörtunartilefni um þjónustu röðuðu sér í næstu sætin af þessum 24, enda kemur fram í riti Stefáns Ólafssonar að fólk á landsbyggðinni sé ánægðara með þjónustu en hér í Reykjavík. Það kjördæmi sem býr við mesta óánægju með opinbera þjónustu er Reykjavíkurborg. Það er sannarlega ekki af hinu góða að telja fólki úti á landi trú um að það búi við verri kost í þessum efnum en fólkið í þéttbýlinu í Reykjavík.

Auðvitað er grundvallaratriði við þessa tillögugerð að taka alveg sérstaklega á þeim málum sem fólkið kvartar yfir. Þessi tillaga gerir það í einu og öllu. Ef menn fara yfir tillöguna þá sjá menn að fyrsta áhersluatriðið er nýsköpun í atvinnulífinu. Annað atriðið er menntun, þekking og menning. Þriðja atriðið er jöfnun lífskjara og bætt samkeppnisstaða. Fjórða atriðið er bætt umgengni við landið og meira að segja með áherslu á að þar eigi nú að forgangsraða og græða sérstaklega mein þar sem hraðfara gróðureyðing á sér stað. Ég tel þessa áherslu afar mikilvæga.

Hv. ræðumenn hafa minnst á nokkur atriði sem mér finnast athyglisverð. Hv. þm. Magnús Stefánsson boðaði hér tillöguflutning áðan og kannski mætti ég vera meðflm. Mig langar hins vegar að benda á --- og það styrkir þetta allt saman --- að á sl. ári var gerð úttekt á skiptingu ríkisútgjalda, á því hvert peningastreymið lægi í landinu. Þetta er auðvitað fyrsta skrefið í þá átt að segja fyrir um hver stefnan sé við fjárlagagerð hverju sinni. Innan fárra daga kemur eitt ár til viðbótar, árið 1997. Þá verður kominn fjögurra ára samanburður og þannig verður hægt að halda áfram og þá er kominn grundvöllur fyrir Byggðastofnun að segja til um hvert stefni með fjárlagagerðinni.

Hjá hv. ræðumanni kom fram afar þörf ábending. Grundvallaratriðið í þessu máli, sem hann lagði áherslu á, er að við séum ekki með tvískinnung á þessum vettvangi og fylgjumst með því sem við erum að gera almennt séð.

Tími minn er að verða búinn, herra forseti. Ég ætla aðeins að minnast á eitt atriði. Það er um þær ábendingar sem fram hafa komið um takmarkaðar fjárveitingar í þessum efnum. Ég vil benda á að til þess t.d. að ná jöfnunarmarkmiði í húshitunarmálum sem hér er lagt til þarf um hálfan milljarð kr. til viðbótar, einnig til viðbótar við við það sem fram kemur í áherslum um eignarhaldsfélögin.

Tími minn er liðinn en ég þakka fyrir þessa umræðu og það sem eftir lifir af henni.