Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:56:32 (1190)

1998-11-17 16:56:32# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:56]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Það ríkir góðæri í landinu um þessar mundir og því er spáð að svo verði næstu árin. Flest gengur okkur í haginn, stöðugleiki í efnahagsmálum hefur gjörbreytt rekstrarumhverfi atvinnulífsins og atvinnuleysi er í lágmarki. Kaupmáttur hefur aukist meira en áður hefur þekkst. Tekjuskattur einstaklinga hefur verið lækkaður og það mikið að þegar síðasti áfangi þeirrar lækkunar kemur til framkvæmda um næstu áramót verður hann orðinn lægri en þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp árið 1988.

Markvissar aðgerðir tveggja síðustu ríkisstjórna hafa leitt til gjörbreyttrar stöðu ríkisfjármála og nú er ríkissjóður farinn að greiða niður erlend lán sín í stað þess að auka þau sífellt, eins og áður tíðkaðist. Það er því ekki ofsagt að flest gangi okkur í haginn um þessar mundir. En á því er þó ein alvarleg undantekning og það er íbúaþróunin á landsbyggðinni og þeir miklu búferlaflutningar af landsbyggð til höfuðborgarsvæðis sem átt hafa sér stað allt frá árinu 1980 og ekkert lát virðist á.

Á þessu 18 ára tímabili hafa brottfluttir umfram aðflutta af landsbyggðinni verið frá 500 og upp í 1.800 manns á ári. Það hlýtur að verða eitt af höfuðviðfangsefnum stjórnvalda að stöðva þessa þróun. Sú þáltill. sem hæstv. forsrh. mælti hér fyrir er vissulega mjög gott skref í þá átt. Það er mín skoðun að ef vel tekst til með að fylgja eftir helstu markmiðum þessarar tillögu þá muni það hafa mjög mikil áhrif og hér sé á ferðinni raunhæfasta tilraun sem komið hefur fram á Alþingi í háa herrans tíð til að snúa við þróuninni.

Stjórn Byggðastofnunar hefur undanfarin tvö til þrjú ár staðið fyrir mjög ítarlegum úttektum á orsökum búferlaflutninga af landsbyggðinni og hvað mætti til varnar verða. Auk starfsmanna og stjórnar Byggðastofnunar hafa komið að þessu verki ýmsir aðilar utan Byggðastofnunar. Má þar nefna Stefán Ólafsson prófessor, Harald L. Haraldsson hagfræðing og Háskólann á Akureyri. Ég tel að þessir aðilar hafi unnið mjög gott starf en skýrslur þeirra eru fylgiskjöl með þessari þáltill.

Þessi undirbúningsvinna Byggðastofnunar er grundvöllurinn að þeirri þáltill. sem hér er til umræðu og meginmarkmið þeirra tillagna sem hér eru settar fram er að skapa á landsbyggðinni umhverfi sem fólk getur sætt sig við og snýst m.a. um fjölbreytt atvinnutækifæri, skilyrði til menntunar, skaplegan húsnæðiskostnað, samgöngumál o.fl. Það kemur einmitt fram í könnun Stefáns Ólafssonar um orsakir búferlaflutninga að á þeim stöðum á landinu þar sem fólk er bærilega ánægt með þessa þætti, þar fækkar fólki ekki. Þetta á við um staði eins og Sauðárkrók og Akranes, Akureyri, Selfoss/Hveragerðissvæðið og Höfn í Hornafirði. Þar sem fólk er hins vegar óánægt með þessa þætti fækkar fólki jafnvel þó að mikill uppgangur sé í atvinnulífinu á viðkomandi stað og yfirfljótandi atvinna.

[17:00]

Stjórn Byggðastofnunar hefur heimsótt flest byggðarlög landsins á undanförnum árum og orðið mjög vör við þetta og má segja að maður sé alltaf jafnhissa þegar maður kemur á staði þar sem manni finnst vera mikill uppgangur og allt í blóma en fréttir að samt sé fólki að fækka.

Þarna hefur orðið mikil breyting frá því sem var á árum áður þegar menn lögðu mest upp úr mikilli vinnu. Nú vilja menn fjölbreytni í atvinnulífið, störf við hæfi maka o.s.frv. Stjórn Byggðastofnunar brást við þessu með því að stórauka atvinnuþróunarstarf á landsbyggðinni, atvinnuþróunarstarf sem er alfarið á forræði heimamanna í hverju kjördæmi. Gerðir hafa verið samningar um atvinnuráðgjöf í öllum kjördæmum þar sem Byggðastofnun leggur til um það bil 9 millj. kr. á ári á móti framlagi heimamanna. Ég hef mikla trú á að þetta muni skila árangri og leiða til aukinnar fjölbreytni og fjölgunar starfa úti á landi. Reynsla Sunnlendinga staðfestir þessa trú mína en í bréfi sem forstöðumaður Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands sendi stjórn Byggðastofnunar í janúar á þessu ári segir svo, með leyfi forseta:

,,Á vormánuðum 1996 var undirritaður nýr samningur við Byggðastofnun um atvinnuráðgjöf. Samningurinn var sá fyrsti í röð atvinnuþróunarsamninga sem stofnunin hefur gert á undanförnum missirum. Með samningnum var lögð áhersla á að svæðisbundin atvinnuþróun gerðist með virkari þátttöku heimamanna en verið hafði áður. Samningurinn skuldbindur Byggðastofnun til að auka árlegt rekstrarframlag til sjóðsins um liðlega 6 millj. kr., úr tæplega 3 millj. kr. í tæplega 9 millj. kr. og gerir sjóðnum á þann hátt kleift að stórefla alla ráðgjöf. Samningurinn er forsenda þess að sjóðurinn hefur getað haldið úti öflugu ráðgjafarstarfi með þremur ráðgjöfum en fyrir gildistöku hans miðaðist öll starfsemi sjóðsins við einn ráðgjafa.

Frá undirritun samningsins við Byggðastofnun hefur sjóðurinn beint eða óbeint staðið að stofnun liðlega 30 nýrra fyrirtækja auk þess að sjá um fjölda annarra verkefna sem styrkt hafa fjárhagsstöðu sunnlenskra fyrirtækja.

Með starfsemi sjóðsins á þessu tímabili hafa skapast á annað hundrað ný störf á Suðurlandi og fjárfesting á svæðinu vegna þessara fyrirtækja er talin vera liðlega 600 millj. kr. Þennan árangur má að verulegu leyti þakka því nána samstarfi sem náðst hefur við Byggðastofnun í kjölfar samningsins þar sem þátttaka þessara stofnana í ýmsum málum hér á Suðurlandi er samræmd.``

Þessi lýsing Óla Rúnars Ástvaldssonar á árangri Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands fyrstu 20 mánuðina eftir að starfsemin var stóraukin með samningi við Byggðastofnun segir okkur að þetta er rétt aðferð. Það er rétt aðferð að færa forræðið alfarið í hendur heimamanna og efla þessa starfsemi úti í kjördæmunum.

Nú hefur sams konar starfsemi verið hrint af stað í öðrum landshlutum og á vafalaust eftir að skila landsbyggðinni fjölmörgum nýjum störfum og meiri fjölbreytni í atvinnulífinu en verið hefur sem er nauðsynlegt því að í skýrslu Háskólans á Akureyri var því spáð að á næstu fimm árum muni störfum í fiskvinnslu fækka um 30% og í landbúnaði um 5--10%.

Í þessari þáltill. er lagt til að komið verði á fót eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni með aðild Byggðastofnunar og til þess skuli varið allt að 300 millj. kr. á fjárlögum hvers árs næstu fjögur árin á móti framlögum heimamanna. Ég er ekki í vafa um að þessi starfsemi á eftir að skila miklum árangri ef vel tekst til.

Aðstaða fólks til menntunar er eitt af stóru málunum á landsbyggðinni eins og margir hafa komið inn á við þessa umræðu í dag. Stór hluti fólks í dreifbýlinu býr við það að þurfa þegar grunnskóla lýkur að senda börn sín til framhaldsnáms með ærnum tilkostnaði. Margir nefna þar töluna 400--500 þús. kr. á ári fyrir hvert barn sem er auðvitað gríðarlegur skattur á þá foreldra sem við það þurfa að búa. Þetta leiðir oft til þess að fólk tekur sig upp og flytur með fjölskyldu sína þangað sem framhaldsskólar eru starfræktir.

Nú sýnist það réttlætismál að allir landsmenn hafi svipaða möguleika til menntunar og í þessari tillögu er kveðið á um að bætt verði skilyrði þess fólks sem sækja verður nám utan heimabyggðar sinnar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þarna takist vel til og þessu ákvæði verði fylgt eftir og einnig því sem segir hér um að menntun á landsbyggðinni verði stórefld, sérstaklega hvað varðar verklegar greinar tengdar atvinnulífinu og tölvunám og ekki síst að möguleikar fjarkennslu verði að fullu nýttir. Það hefur sýnt sig glöggt með tilkomu Háskólans á Akureyri hve öflug menntun á landsbyggðinni skiptir miklu máli frá byggðasjónarmiði en 67% útskrifaðra nemenda frá þeim ágæta skóla eru búsettir á Norðurlandi. Enginn vafi er á því að efling slíkra skólastofnana er ein skilvirkasta aðferðin sem stjórnvöld geta gripið til gegn fólksstreymi af landsbyggðinni.

Lækkun húshitunarkostnaðar er eitt af stóru hagsmunamálum landsbyggðarinnar. Í þessari tillögu er sett fram það markmið að verð á orku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði á næstu þremur árum fært til samræmis við meðaldýrar hitaveitur með aukinni þátttöku Landsvirkjunar og ríkissjóðs og þetta skiptir gríðarlega miklu máli. Í dag búa margir landsbyggðarmenn við það að þurfa að eyða allt að einum mánaðarlaunum meira á ári í ljós og hita en þeir sem búa á ódýrustu svæðunum. Flestir kaupa þessa hitaorku af fyrirtækjum í eigu ríkisins og það er því á forræði stjórnvalda að þetta markmið nái fram að ganga á næstu þremur árum.

Um þessar mundir er í gangi mjög gott verkefni á vegum iðnrn., Orkusjóðs og Byggðastofnunar þar sem verið er að kanna til hlítar hvort jarðhita er að finna á þeim svæðum þar sem ekki eru hitaveitur í dag en 15% landsmanna hafa ekki aðgang að hitaveitu. Væntanlega leiðir þetta átak til margra nýrra hitaveitna og þá skiptir mjög miklu máli að lagt er til í þessari tillögu að heimilt verði að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu rafhitunar í fimm ár til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla þannig að aukinni notkun jarðvarma til húshitunar. Þetta getur auðvitað skipt sköpum fyrir þau byggðarlög sem hyggja á hitaveituframkvæmdir.

Það sýnist einnig réttlætismál að verð á raforku sé jafnað yfir landið eins og gert var með símagjöldin á síðasta ári. Verð á raforku er mjög misjafnt sem kemur ekki síst niður á þeim sem standa í atvinnurekstri á þeim stöðum úti á landi þar sem verðið er hæst.

Þau atriði sem ég hef nefnt kosta ríkissjóð talsvert fé en ég tel að nú sé lag í góðærinu.

Eitt af því sem skiptir miklu máli varðandi búsetu í landinu er að yfirgnæfandi starfsemi hins opinbera er í Reykjavík og flest ný störf lenda þar. Í töflu sem fylgir skýrslu Háskólans á Akureyri kemur fram að í Reykjavík eru 106 opinber störf á hverja 1.000 íbúa en í landsbyggðarkjördæmunum eru þau 43--55 eða ríflega helmingi færri. Nú hefur það verið markmið allra stjórnmálaflokka og flestra ríkisstjórna síðustu áratugi að færa opinbera starfsemi út á land og á allra síðustu árum hefur þetta verið reynt en mætt gífurlegri mótspyrnu jafnt starfsmanna, stéttarfélaga og fjölmiðla. Í þessari tillögu er lögð áhersla á að opinberum störfum fjölgi ekki minna hlutfallslega á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og að því markmiði verði m.a. náð með því að leitast við að staðsetja nýja starfsemi hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins. Ég held að mjög mikilvægt sé að þessu verði fylgt fast eftir og hvert ráðuneyti leggi fram tillögur þar að lútandi og trúlega er þetta auðveldari leið en flutningur þeirra stofnana sem fyrir eru en það verður þá líka að fylgja þessu ákvæði vel eftir.

Herra forseti. Ég hef drepið á nokkur þeirra mála sem eiga stærstan þátt í þeim fólksflutningum sem verið hafa af landsbyggðinni um langt árabil samkvæmt þeim ítarlegu rannsóknum sem gerðar hafa verið á vegum Byggðastofnunar og ég hef getið um. Tími minn leyfir ekki að ræða um fleiri atriði, t.d. samgöngumál, verðlag, læknisþjónustu, afþreyingu og fleira sem skiptir miklu máli. Ég tel að þáltill. sem hæstv. forsrh. mælir hér fyrir feli í sér ný og markviss vinnubrögð í byggðamálum og ég er ekki í vafa um það að ef þessi tillaga verður samþykkt á Alþingi og þeim aðgerðum sem þar eru lagðar til verður fylgt fast eftir muni þær aðgerðir hafa mikil og góð áhrif á landsbyggðina.

Ég tek undir það sem hæstv. forsrh. sagði við utandagskrárumræður um byggðamál nýlega að byggðamál eru ekkert afmarkað verkefni. Það tengist nánast öllu því sem við erum að fást við frá degi til dags í þinginu þó að það hafi ekki endilega þá forskrift að heita byggðamál og þetta verða hv. þm. að hafa í huga við umfjöllun og afgreiðslu mála á Alþingi.

Herra forseti. Ég vil að lokum segja að ég tel að hlutverk Byggðastofnunar sé afar mikilvægt. Stofnunin hefur verið að styrkja sig mjög á undanförnum árum með markvissum vinnubrögðum eins og glöggt kemur fram í greinargerð með þessari þáltill. og sú háværa og oft og tíðum ósanngjarna gagnrýni sem beindist að Byggðastofnun fyrir nokkrum árum hefur að mestu hljóðnað og ég tel að flestir landsmenn, ekkert síður höfuðborgarbúar en aðrir, séu sammála því að það verður að leita allra leiða og allra ráða til að stöðva þá þróun sem verið hefur í íbúaþróun á landsbyggðinni sl. 18 ár og þjóðarsátt um það mikilvæga verkefni er fagnaðarefni.