Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 17:11:16 (1191)

1998-11-17 17:11:16# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[17:11]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Eins og margoft hefur komið fram í umræðunni er sú till. sem hér liggur fyrir til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 byggð á rannsókn Stefáns Ólafssonar prófessors sem gerð var á vegum Byggðastofnunar. Út úr þeirri rannsókn komu vissulega mjög merkilegar niðurstöður og vöktu mikla athygli. Ýmislegt sem þar kom í ljós hafði fólk að vísu grunað en það hafði ekki verið staðfest svo áþreifanlega eins og gert var með þeirri rannsókn.

Sú þáltill. sem hér liggur fyrir vísar að flestu leyti í rétta átt og ég styð nánast allt sem þar kemur fram heils hugar eins og sjálfsagt flestir gera en ég verð þó að segja að ég hefði gjarnan viljað að þetta hefði komið fram í ákveðnara formi, eins og hér hefur verið nefnt áður í dag að það hefði verið lagt fram frv. um þessi mál. Svo læðist að manni svolítill óhugur að þetta er tillaga sem tekur fyrir stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998--2001 en nú sitjum við sveitt í fjárln. við að fara yfir tillögur til fjárlaga fyrir árið 1999 og þess sér ekki stað enn að þessi hugsun hafi náð verulegri fótfestu í huga þeirra sem stóðu að smíði þess frv. Vonandi verða gerðar á því betrumbætur og þessi tillaga fari hratt í gegnum þingið og það verði svo bætt í á réttum stöðum þannig að það megi framkvæma eitthvað gott í þessum málum sem vissulega er þörf á.

Það kom fram áðan og kom m.a. í ljós í sambandi við gerð þessarar skýrslu sem vissulega var gerð á dramatískum tímum, það sem hefur verið kallað mestu þjóðflutningar á Vesturlöndum á þessari öld, þjóðflutningarnar á Íslandi frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, sem er alvarlegur hlutur og okkur þjóðfélagslega mjög dýr. Það er alveg ömurlegt að ferðast um landið og horfa á t.d. skóla sem maður barðist fyrir að væru byggðir fyrir fáum árum vegna þess að þá var vissulega mikil þörf fyrir þá en nú standa þeir hálftómir. Hins vegar er allt á fullu suður í Kópavogi og meira að segja mestu verktakar í heimi hafa ekki við að byggja þjónustumiðstöðvar fyrir allt það fólk sem þangað er að flytja utan af landsbyggðinni. Auðvitað kostar það þjóðfélagið gríðarlega peninga að þurfa að skilja þessi mannvirki alls staðar úti um land eftir meira og minna ónotuð.

[17:15]

Þó ég hafi auðvitað mikinn áhuga á mörgum málaflokkum sem hér eru þá ætla ég einkum að gera að umtalsefni uppbyggingu menntamála. Eins og fram kemur í greinargerð hefur uppbygging menntamála afgerandi þýðingu fyrir þróun byggðar í landinu. Í rannsókn Stefáns Ólafssonar prófessors kemur fram að 30% af þeim sem hugðu á flutninga frá landsbyggðinni fluttu af menntunartengdum ástæðum. Þetta finnst mér mikið umhugsunarefni. Þróun menntunar er forsenda fyrir fjölbreyttara atvinnulífi, sem er aftur forsenda þess að fólk vilji búa á landsbyggðinni. Þetta kemur einnig fram í skýrslu prófessorsins og er auðvitað mikið rétt.

Mig langar að rifja upp nokkrar endurminningar frá síðasta ári þegar ég fór á vegum Alþfl., Alþb. og Kvennalista á nokkra fundi úti á landsbyggðinni sem voru haldnir undir yfirskriftinni Konur hlusta. Ég sótti fund sem var haldinn á Eskifirði og fund sem var haldinn á Ísafirði. Þetta er með því skemmtilegasta sem ég hef gert í pólitík og kannski var það vegna þess að þarna vorum við pólitíkusarnir ekki að tala, heldur vorum við komnir til að hlusta. Á þessa fundi komu ekki bara skoðanasystkini okkar heldur komu konur úr öllum flokkum. En þær áttu það sameiginlegt að í þeim brann mikill hugsjónaeldur að snúa þeirri þróun við sem var að verða í þeirra heimabyggðum. Og þær voru uppfullar af hugmyndum.

Það sem þeim lá þyngst á hjarta var fiskveiðistjórn, en lítið er gert úr þeim málum í þessari till. til þál. og mætti nú kannski koma betur inn á þau. Þær töldu að óréttlæti í fiskveiðistjórn ætti stóran þátt í hvernig komið er víða um landsbyggðina og nefndu okkur mörg dæmi þess að í byggðarlögum á þessum svæðum, Vestfjörðum og Austfjörðum, hafa útgerðarmennirnir á ýmsum stöðum siglt burt með kvótann og skilið verkafólkið og sjómennina eftir þar sem þeir eru nánast í átthagafjötrum, bundnir af fasteignum, en lífsbjörgin farin burt.

Víða hefur þetta vissulega bjargast fyrir horn. Ég nefni til sögunnar Þingeyri. Það horfði mjög illa á Þingeyri, en svo var byrjað að verka þar Rússafisk og þá breyttist staðan í bili, en kvótinn er farinn. Því verður ekki breytt, a.m.k. ekki við núverandi ástand.

Þessar konur töldu að atvinnutækifæri fyrir konur vantaði önnur en í fiskvinnslu. Þær töluðu um að iðulega væri búið að ráða menntað fólk á svæðið, t.d. verkfræðinga eða lækna, en svo hætti viðkomandi við að koma vegna þess að makinn fengi ekki vinnu við hæfi og nefndu mörg dæmi til sögunnar. Þetta væri mjög algengt. Þær töluðu líka um að atvinnutækifærum úti um land væri virkilega að fækka vegna fjarvinnslu. Nú mundi maður halda að það væri einmitt tækifæri til að koma atvinnutækifærum út á land, en þær nefndu nokkur dæmi til sögunnar t.d. að bankastofnanir væru farnar að fjarvinna ýmis verk frá Reykjavík og við það hefðu sérstaklega konur sem unnu í bönkum úti á landsbyggðinni misst atvinnu. Ég held að með góðri samvinnu stjórnvalda og þeirra stórfyrirtækja, sem þarna eiga í hlut og eru sum a.m.k. að stórum hluta í eigu ríkisins, ætti að vera hægt að snúa þeirri þróun við og fjarvinna þá hlutina utan af landi fyrir Reykjavíkursvæðið, þar sem eru þó fjölbreyttari atvinnutækifæri fyrir hendi.

Þær nefndu líka til sögunnar samgöngumál. Það hefur verið minnst á það í umræðunni í dag að nauðsynlegt væri að lán væru veitt til arðbærra framkvæmda, eins og það var orðað. Mér detta þá í hug göngin fyrir vestan. Ég hugsa að í beinhörðum peningum verði þau nú seint talin til arðbærra framkvæmda, en ef við tökum lífsgæði þess fólks sem vinnur og starfar og lifir þarna á þessum fjörðum þá er framkvæmdin svo sannarlega arðbær og skiptir sköpum fyrir það hvort þetta samfélag, þetta svæði getur þrifist í framtíðinni. Að því leyti mundi ég segja að þau jarðgöng hafi verið mjög arðbær. Ég vil gjarnan koma því að hérna, af því ég var nú líka á fundi á Austfjörðum eins og ég minntist á áðan, að þar er náttúrlega mjög áríðandi að gera jarðgöng, svo svæðið geti þrifist, svo fólk þurfi ekki að leggja sig í lífshættu að vetrarlagi þegar það þarf að fara þarna milli staða. Fjarlægðirnar eru svo sem ekki miklar en vegirnir eru þannig lagaðir að fólk sem fer þarna um t.d. í hálku að vetrarlagi, ég tala nú ekki um þegar skriðurnar láta sem verst, er í stöðugri lífshættu.

Það er eitt sem mig langar að minnast á sem ekki kemur fram í skýrslunni en þessar konur lögðu mikla áherslu á. Og það er að fólkið á þessum stöðum sendi frá sér jákvæðari skilaboð. Kannski er búið að kvarta of mikið. Kannski er búið að bera of oft saman vöruverðið í Bónus og á Ísafirði eða húshitunarkostnaðinn á landsbyggðinni og í Reykjavík. Kannski hefur umræðan verið of mikið á neikvæðu nótunum. Það er nefnilega tvímælalaust margt jákvætt við að búa úti á landi.

Mér dettur í hug að fyrir örfáum kvöldum síðan var ég að horfa á sjónvarpið, á þátt í fréttaauka úr Grímsey þar sem verið var að sýna frá hátíð sem eyjarskeggjar halda árlega til minningar um Fiske. Þar voru allir íbúar á svæðinu, smáir og stórir, saman komnir. Þeir sungu saman og hlýddu á tónlist. Ég veit að svona upplifun er ekki oft á boðstólum hér á suðvesturhorninu þar sem allir sem búa á viðkomandi stað eiga sitt pláss í tilverunni og þurfa virkilega að leggja sitt af mörkum ef eitthvað á að gera.

Ég minnist þess að síðasta sumar fór ég á Súgfirðingahátíð. Hún var haldin á Suðureyri við Súgandafjörð þar sem 250 íbúar eru. Einn daginn átti að grilla á eyrinni norðan við fjörðinn, Norðureyri. Þangað er ekki fært nema á bátum. Þangað þurfti að ferja 500 manns, svo margir voru komnir til að taka þátt í gleðinni. Og hún stóð daglangt og þar var sungið og spilað á sítar og mandólín tvö, eins og stendur í kvæðinu. Þar var mikil gleði og afskaplega gott mannlíf. Ég hef ekki á þessum þéttbýlissvæðum hér upplifað skemmtilegri og menningarlegri útiskemmtun. Þetta eru líka lífsgæði. Og líka það þegar fullorðni maðurinn, kannski kominn á níræðisaldur, getur róið út á horninu sínu og sótt björg í bú fyrir sig og börnin sín og fjölskyldur þeirra eru líka lífsgæði sem gefa honum sinn stað í tilverunni.

En nú er tími minn búinn og ég komst því miður aldrei að málinu sem ég ætlaði að gera að aðalatriði í málflutningi mínum í dag, svo upptekin varð ég af málum sem mér þótti líka þurfa að kalla til sögunnar.