Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 18:34:55 (1201)

1998-11-17 18:34:55# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[18:34]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hæstv. forsrh. að verið er að stækka stóriðjuver í nágrenni höfuðborgarinnar og ekki aðeins að stækka heldur að veita siðferðilegar skuldbindingar, eins og ég held að hæstv. iðnrh. hafi orðað það, fyrir frekari stækkun bæði álversins í Straumsvík og járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og verja til þess miklu magni af orku. Það liggur fyrir auk nýrrar álbræðslu í Hvalfirði. Þetta eru verk núv. ríkisstjórnar.

En ríkisstjórnin er að veifa í tillögugerð sinni til byggðamála hugmyndum um að byggja upp málmbræðslu, koma fótum undir málmbræðslur og verja og ráðstafa áframhaldandi til þess miklu af þeirri orku sem Íslendingar eiga aflögu því að ekkert minna er þar undir í raun. Ég tel að það sé alveg furðulegt hversu blindandi ríkisstjórnin gengur fram í þessum efnum fyrir utan það að í byggðasamhengi er það mjög óskynsamlegt að vera að magna upp hugmyndir um stórfyrirtæki sem engin trygging er fyrir að verði reist, hvað þá að það eigi að gerast í hverjum landshluta, jafnvel víðar. Einu sinni var talað um 20 álbræðslur. Mér sýnist að þær hugmyndir séu að ganga aftur sem einu sinni var hent á lofti.

Í sambandi við Kyoto-bókunina eru svör hæstv. ráðherra þau ef ég les rétt í svörin að ekki sé mikill hugur hjá hæstv. ríkisstjórn að undirrita þessa bókun og gerast þátttakandi í því alþjóðaátaki sem þar er um að ræða innan hins almenna frests, fram að miðjum mars, og hver veit hversu lengi á að standa þar utan við en það væri vissulega fróðlegt að það yrði alveg skýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar hvaða forsendur þarf að uppfylla til þess að þetta verði. Þetta mál er hins vegar það stórt, virðulegur forseti, að það verður ekki rætt til neinnar hlítar við þessar aðstæður.