Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 19:18:50 (1209)

1998-11-17 19:18:50# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[19:18]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. ekki vera sanngjarn í garð þessara tillagna að öllu leyti. Þriðja tillagan sem lögð er fram er um það að láta 300 milljónir í áhættusjóði til þess að örva nýsköpun. Ég vil minna hann á að hann stóð með mér og öðrum í efh.- og viðskn. þegar við lögðum fram tillögur um að leggja þúsund milljónir í nýsköpunarverkefni, sérstaklega úti á landi, sérstaklega í hátækni. Þessir peningar eru nú að verða til við sölu á Fjárfestingarbankanum.

Ég er alveg sannfærður um að þetta er mjög áhrifarík aðferð til þess að efla atvinnulíf úti á landi. Ég er líka sannfærður um að það skiptir ekki meginmáli hver eigi áhættuféð. Við höfum dæmi um það, t.d. frá Kanada eða Bandaríkjunum, að opinbert áhættufé er notað markvisst til þess að efla byggðir. Ef við förum rétt að þessu og notum þær aðferðir sem notaðar eru í þessum markaðslöndum, þá nota þeir sem eru í áhættudreifingu eða eru að meta fyrirtækin t.d. áhættusjóði sem hengja sig við þau, hvort sem það er 10%, 15% eða 20% og fara eftir þeim lögmálum að þeir taka áhættuna eða hirða arðinn ef hann verður. Ef við gerum þetta svona, eins og þetta er markvisst unnið í Bandaríkjunum og Kanada, þá er þetta hið besta mál, langbestu tillögur sem fram hafa komið um árabil.