Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 20:50:27 (1225)

1998-11-17 20:50:27# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[20:50]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Nú er komið að lokum þessa málflutnings sem hefur verið mjög málefnalegur og farið vítt yfir sviðið sem von er þegar um svo viðamikið og mikilvægt mál er að ræða.

Mér finnst sú tillaga sem fram er borin mjög góð að mörgu leyti og tekið er á flestum þeim þáttum sem skipta máli þegar byggðamál eru rædd. Segja má að með breyttum vinnubrögðum Byggðastofnunar á undanförnum árum, og sérstaklega á þessu kjörtímabili, hafi áherslurnar sem birtast í þessu frv. verið að kristallast, m.a. áherslur á það hvernig eigi að úthluta fjármunum til landsbyggðarinnar, eins og fram kemur í 3. tölulið, með því að styrkja eignarhaldsfélög, sem stofnuð hafa verið hjá landshlutunum og á mörgum stöðum þar sem það hefur verið gert, styrkt verulega eignarhaldsfélögin og byggðina og eflt þá byggðastarfsemi sem þar hefur verið mótuð.

Segja má að á Suðurnesjum hafi verið ákveðin forusta í því efni. Með markaðs- og atvinnumálaskrifstofunni sem þar hefur verið reist hafa einnig ýmsar nýjungar og atvinnuráðgjöf átt sér stað sem er eftirtektarverð.

Ég held einnig, herra forseti, að skv. 4. tölulið sé tæpt á ýmsu sem getur skipt máli varðandi útgerðarform landsbyggðarinnar en ég held að það megi með ýmsum rökum grípa til aðgerða í útgerðarháttum á landsbyggðinni sem eru óvenjulegar og þar á ég fyrst og fremst við að beita þá þeim möguleika sem kemur fram í 4. tölulið þar sem segir svo, með leyfi forseta:

,,Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast.``

Ég held að þetta ákvæði eigi að geta orðið jafnvel til þess að menn breyti lögum um stjórn fiskveiða á þann hátt að byggðir sem eiga í vök að verjast, sem eru í þessa orðs merkingu líklega allar byggðir utan höfuðborgarsvæðisins, megi stunda ákveðna útgerð frjálst, og þá meina ég krókaútgerð eða útgerð krókabáta með færum þannig að takmörkun veiðanna sé önnur en á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef sjálfur talið það eðlilegt að veita krókabátum það frjálsræði að þeir megi sækja sjóinn þegar gefur. Þá er ég að tala um báta undir sex tonnum og ég er að tala um báta sem eru með færi en ekki með línu eða net.

Krókabátar hafa á undanförnum árum í rauninni haldið uppi atvinnunni í minnstu byggðunum og jafnvel einnig stærri byggðunum í mjög ríkum mæli og komið í staðinn fyrir það mikla magn afla sem hefur farið út á sjó til vinnslu í frystitogurum. Þannig hefur haldist uppi atvinna sem hefði annars ekki verið og um leið hafa ungir menn náð að koma undir sig fótunum í útgerð og náð að efla sig sem hefði ekki annars verið mögulegt eins og útgerðarformið hefur þróast í dag. Ég held því að ef þessari tillögu yrði beitt af alefli þá væri hægt að ná tökum á þessu sérstaka máli.

Í 7. tölulið er talað aðeins um stóriðju eða stóriðjuverkefni sem eru mjög ofarlega í huga landsbyggðarmanna og í mínum huga er óþarflega mikið gert úr því að stóriðja komi til með að breyta miklu á landsbyggðinni. Ég er ekki að segja að það geti ekki breytt verulegu en ég held að menn geri of mikið úr því. Áfallið þegar stóriðjuáformin rætast ekki verða of þung fyrir landsbyggðina og menn verða fyrir vonbrigðum, horfa upp á það að þeim sé hafnað í einhverri merkingu sem ég held að sé slæmt. Ég held að nauðsynlegt sé að horfa á það bara kalt og frá rökfræðilegum sjónarmiðum að rekstur stóriðju úti á landi í miklu fámenni er afskaplega hæpinn og það er það sem hefur komið í veg fyrir að útlendingar hafi byggt eða tekið áhættu af því að setja mikla fjármuni í stóriðju á landi að þeir sjá ekki fyrir sér að sá rekstur geti blómstrað eins og í fjölmenni. En slík starfsemi þarf mikið fjölmenni og þarf mikla þjónustu. Ég er því dálítið hræddur um það að menn horfi of mikið til þessa valkosts og ættu jafnvel að breyta þeirri hugmyndafræði verulega.

Ég held að í 8. tölulið komi fram mjög góð hugmynd, þ.e. að skapa störf í hátæknigreinum án tillits til búsetu. Eitt af því sem ég tel að geti styrkt stöðu okkar í atvinnuuppbyggingunni úti á landi eru svokölluð frísvæði, sem hafa verið liður í byggðastefnu margra ríkja í Evrópu, m.a. Íra sem hafa sett frísvæði á viðkvæmum svæðum eins og Shannon og náð að byggja upp alveg ótrúlega fjölþætta atvinnustarfsemi sem hefur leitt af sér aðra starfsemi, eins og menntastofnanir sem hafa í raun náð að verða framúrstefnustofnanir á heimsvísu. Ég held að við höfum ekki veitt þeim möguleika nógu mikla athygli, sem er stofnun frísvæða, og heldur ekki þeim möguleika sem fylgir frísvæðum. Við höfum fengið sértaka viðurkenningu frá Evrópusambandinu um að hér mætti vera sérstakt frísvæði utan höfuðborgarsvæðisins, sem hefði möguleika til sértækra aðgerða sem mundu ekki ganga á skjön við hugmyndir Evrópusambandsins um styrki til sérstakra svæða sem væru þá ekki samkvæmt reglum. Ég held því að menn ættu samkvæmt þeim hugmyndum sem hafa náð að blómstra innan frísvæðamöguleikans að huga betur að þeim möguleika en gert hefur verið.

Ég vil svo segja eitt varðandi 11. liðinn sem mér finnst líka hafa verið vel orðaður en ég held að þar mætti bæta við ýmsu sem varðar sendingar fjölmiðla og Pósts og síma eða Landssímans og annarra fyrirtækja um land allt. Ekkert fer meira í taugarnar á landbyggðarfólki en sambandsleysi, þ.e. sambandsleysi GSM og síma yfirleitt, fjarskiptatækja, sambandsleysi sjónvarps, að ná ekki Stöð 2, ná ekki útvarpssendingum almennilega. Allt slíkt hefur farið afskaplega í taugarnar á fólki og ég held að menn verði að halda vel utan um slík atriði svo að fólki úti á landi finnist að hugsað sé um það af opinberum aðilum að þessu leyti.

[21:00]

Eitt held ég að mundi skila okkur verulegum árangri í byggðamálum. Það er breytt kjördæmaskipan sem verið hefur til umræðu á undanförnum mánuðum og kemur væntanlega inn í þingið mjög fljótlega. Þær hugmyndir lúta að því að þéttbýliskjarnar verði í hverju kjördæmi og ég álít að það muni styrkja landsbyggðina verulega.

Við sjáum fyrir okkur að þeir byggðakjarnar verði reyndar á jöðrum margra þessara svæða. Reykjanesbær verður t.d. stærsta byggðarlagið í suðurkjördæmi. Akureyri verður nokkurn veginn í jaðri norðausturkjördæmisins og Akranes í jaðri vesturkjördæmisins. Eigi að síður ber að líta svo á að þessi stóru byggðarlög geti orðið þau akkeri sem þróað geti starfsemi sem nýtist öllu kjördæminu.

Ég tel að í kringum nýja kjördæmaskipan eigum við að reyna að stofna fyrirtæki og stofnanir sem nýtist viðkomandi kjördæmum en geti um leið nýtt sér þann stöðugleika sem höfuðborgarsvæðið getur veitt þessum miðkjörnum, þ.e. stærri byggðakjörnum innan hvers kjördæmis. Mér finnst afar mikilvægt að íbúar kjördæmanna hafi á tilfinningunni að þau eigi svona nokkurs konar kjarna, höfuðborgarsvæði, sem þjónustan leiti til.

Herra forseti. Liður 20, um langtímaviðhorf og stofnvegi á miðhálendinu, finnst mér athyglisverð og góð hugmynd. Mér finnst eðlilegt að marka hugmyndir um stofnvegi um hálendið og marka stefnu í hvernig virkja eigi ferðamennskuna og það aðdráttarafl sem náttúruperlur hálendisins hafa á ferðamenn. Ég held að við eigum að snúa okkur meira að því verkefni en gert hefur verið fram að þessu. Það gæti hugsanlega komið í veg fyrir mörg áform sem í dag eru uppi um annars konar starfsemi sem betur þyrfti að íhuga með framtíðina í huga.

Herra forseti. Það verður aldrei hægt að veita alla þá þjónustu sem menn vilja í hinum fámennari byggðum. Þá þjónustu verður aldrei hægt að veita nema á einum stað á landinu, á höfuðborgarsvæðinu, einfaldlega vegna þess að landið er fámennt og stórt. Ég held samt að við eigum að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram um að tala eigi jákvætt um landsbyggðina. Við ættum að leggja meiri áherslu á það í þessari áætlun og auglýsa og byggja upp jákvæða umfjöllun um landsbyggðina og búsetu úti á landi. Opinberir aðilar ættu jafnvel að fjármagna auglýsingaherferð fyrir landsbyggðina í heild sinni, um búsetu þar, búsetuskilyrði, möguleika og þá dýrð og dásemd sem landsbyggðarmenn vilja meina að fylgi sínu byggðarlagi. Ég hef sjálfur sem landsbyggðarmaður alltaf álitið það gæfu mína að hafa verið alinn upp úti á landi. Þar með er ég ekki að gera lítið úr því að vera alinn upp í Reykjavík en þetta getur svo sem átt vel saman. Ég er sömu skoðunar og flestir aðrir, þ.e. að allt landið ætti að vera í byggð. Því getum við fylgt eftir með ýmsu móti. Menn eru að reyna það með þessari ályktun og með því að styrkja hana enn frekar ættum við að geta náð enn meiri árangri og þá er tilgangnum náð. Ef það næst með samstilltu átaki hér í þinginu þá eigum við ekki að þurfa að kvíða því að landið verði á rönd byggðalega séð.