Lausaganga búfjár

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:09:43 (1278)

1998-11-18 15:09:43# 123. lþ. 26.6 fundur 158. mál: #A lausaganga búfjár# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Virðulegi forseti. Nú er háannaferðatímanum þetta ár lokið og er ánægjulegt til þess að vita hversu mikil aukning hefur verið í þeirri mikilvægu grein og er spáð áframhaldandi aukningu og er virkilega ástæða til að gleðjast yfir því að bjart er yfir í ferðaþjónustunni. Þó má segja að einn skuggi hvíli þar á, nefnilega mjög tíð slys á þjóðvegum landsins, slys í umferðinni sem má beinlínis rekja til lausagöngu búfjár á þjóðvegum. Þetta hefur illu heilli kostað mörg mannslíf fyrir utan eignatjón og örkuml og það er auðvitað mjög alvarlegt mál og alvarlegur skuggi á okkar ágætu ferðaþjónustu. Það sem meira er að drjúgur hluti af fórnarlömbum þessara slysa virðist vera erlendir ferðamenn og má ugglaust þar kenna um reynsluleysi þeirra en hingað sækja þeir í frjálsræðið á Íslandi, má segja bæði fyrir dýr og menn.

Ég var reyndar í nokkrum vandræðum með það hvort ég ætti að beina fyrirspurn til hæstv. samgrh. eða dómsmrh. en komst nú að þeirri niðurstöðu að hér væri fyrst og fremst um öryggismál að ræða og vildi því beina fyrirspurninni til hæstv. dómsmrh. Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekkert einfalt mál og engin einföld svör til við þessu en ég leyfi mér eigi að síður að beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. dómsmrh.:

Hyggst dómsmálaráðherra grípa til einhverra aðgerða í kjölfar alvarlegra slysa á þjóðvegum landsins sem rekja má til lausagöngu búfjár?