Greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 15:53:01 (1297)

1998-11-18 15:53:01# 123. lþ. 26.10 fundur 190. mál: #A greiðslur til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í upplýsingum sem undirrituð fékk í sumar frá fjmrn. kemur fram að greiðslur til ríkisstarfsmanna hjá B-hluta stofnunum vegna aksturs, þóknana og nefndastarfa ganga að stærstum hluta til karla. Á vegum B-hluta stofnana ríkisins eru milli 20 og 30 stofnanir, fyrirtæki og sjóðir. Má þar nefna Póst og síma, Rafmagnsveitur ríkisins, Ríkisútvarpið, Áfengis- og tóbaksverslunina, tollstöðvarhúsið og fleiri.

Í þessum upplýsingum sem ég fékk kemur fram að greiðslur vegna fastra nefndarlauna og þóknana námu árið 1996 rúmum 30 millj. kr. 139 karlar og 34 konur fengu þessar greiðslur. Af þessum greiðslum fengu karlar um 25 millj. kr. en konur rúmlega 5 millj. Með öðrum orðum greiðslurnar runnu að 83% hluta til karla en 17% hluta til kvenna. 829 starfsmenn fengu greiðslu vegna aksturs, þ.e. bílastyrkir og lokaðir aksturssamningar, þar af 555 karlar og 274 konur. Samtals námu þessar greiðslur tæpum 80 millj. kr. Karlar fengu tæplega 71 millj. af greiðslunum en konur rúmlega 9 millj. Ef einungis er litið til bílastyrkja en ekki lokaðra aksturssamninga vekur sérstaka athygli að af um 74 millj. kr. greiðslum fengu 487 karlar tæplega 66 millj. en 265 konur rúmlega 8 millj. kr. Meðalbifreiðastyrkur til karla var því rúmlega 135 þús. kr. á árinu 1996 meðan meðalgreiðslur til kvenna voru rúmlega 30 þús. kr.

Ég hygg að svona upplýsingar kalli á skýringu. Ég sé ekki fyrir mér að á þessu geti verið neinar eðlilegar skýringar sem maður sér í fljótu bragði. Þess vegna taldi ég fulla ástæðu til þess að spyrja hæstv. ráðherra um þann mismun sem þarna kemur fram og hvort að við séum þarna að sjá birtingarform af því launamisrétti sem viðgengst milli karla og kvenna sem ekki síst birtist í ýmsum hlunnindagreiðslum. Þetta vekur upp spurningu t.d. um það hvort hér sé á ferðinni brot á jafnréttislögum. Því hef ég leyft mér að leggja þessa fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

Hver er skýring þess að yfir 80% þóknana og greiðslna fyrir nefndarstörf til starfsmanna í B-hluta stofnunum ríkisins komu í hlut karla, en innan við 20% í hlut kvenna, á árunum 1995 og 1996?

Hver er skýring þess að 89% akstursgreiðslna í sömu stofnunum, m.a. vegna lokaðra aksturssamninga, komu í hlut karla en 11% í hlut kvenna á árunum 1995 og 1996?

Telur ráðherra framangreind greiðsluhlutföll eðlileg og mun hann beita sér fyrir að jöfnuður verði í þessum greiðslum milli kynja?