Kjör ellilífeyrisþega

Miðvikudaginn 18. nóvember 1998, kl. 16:16:59 (1307)

1998-11-18 16:16:59# 123. lþ. 26.11 fundur 216. mál: #A kjör ellilífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 123. lþ.

[16:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá mér og áreiðanlega ekki mörgum hv. þm. að kjör ellilífeyrisþega og öryrkja margra hverra eru undir fátæktarmörkum og þar eru margir ellilífeyrisþegar alls ekki undantekning. Ef það á að fara þá leið sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu, að ekki eigi að afnema tekjutengingu maka varðandi ellilífeyrisþega, þá er það brot á stjórnsýslulögum að mínu mati og mörgum alþjóðasamningum og það verður ekki liðið.

Ég ætla að minna á það einnig að öryrkjar verða aldraðir, þeir verða ellilífeyrisþegar. Á þá skerðingin að fara að gilda um leið og þeir verða 67 ára? Hvað á þetta eiginlega að þýða?

Ég minni á að í nál. þegar fyrstu almannatryggingalögin voru samþykkt kom fram að lífeyristryggingarnar eigi að vera persónutryggingar, þær eigi að vera sjálfsagður réttur óháður öðrum einstaklingum. Þessi vilji löggjafans kom mjög skýrt fram í nál. Ég minni á að hið sama gildir um aðrar tryggingar. Ég bendi á atvinnuleysistryggingarnar sem eru persónutryggingar og menn halda fullum (Forseti hringir.) persónutryggingum þó svo þeir séu í hjónabandi þegar þær tryggingar eru annars vegar. Það er ekki boðlegt, herra forseti, að láta þetta viðgangast öllu lengur í lok 20. aldar.