Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 14:25:33 (1355)

1998-11-19 14:25:33# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[14:25]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. hafði á orði að hann væri ekki sammála því sem ég hafði sagt hér áðan. Hv. þm. hafði líka á orði að hann hefði ekki látið sannfærast af orðum mínum. Það hefur nú eiginlega alltaf verið gallinn. Hv. þm. hefur svo sjaldan látið sannfærast af orðum mínum. Þess vegna er hann í þeirri stöðu sem hann er í í dag. Nú hef ég verið að reyna í þessari ræðu hið sama og ég hef reynt á þeim sjö árum sem ég hef setið með hv. þm. á Alþingi, að reyna að færa mál mitt fram með þeim hætti að ég gæti átt von á að hv. þm. fylkti sér í lið með mér. Að vísu vorum við samferða í ríkisstjórnarmynstri á síðasta kjörtímabili. Það gekk afar vel en þeirri samfylgd lauk eins og við vitum fyrir þremur árum og síðan höfum við tekist á hér með rökum.

Út af fyrir sig er það rétt hjá hv. þm. að ýmislegt mælir með því að taka upp kerfi einmenningsfyrirkomulagsins. Það er hins vegar ýmislegt annað sem mælir gegn þessu. Í Þýskalandi var niðurstaðan t.d. sú að taka upp einhvers konar blöndu af þessu kerfi. Annars vegar hafa menn einmenningskjördæmi og hins vegar það sem menn kjósa af landslista eftir því sem ég hef skilið. Þetta mun hafa verið gert sem hluti af sáttargjörð milli ólíkra sjónarmiða og stórveldanna. Kannski var það einmitt þarna sem menn hittu naglann á höfuðið. Eins og ég hef sagt er ekki til neitt einhlítt svar í þessum efnum. Þess vegna var það auðvitað snjöll niðurstaða að gera þetta með því að sameina aðferðirnar og það hefur gefist vel.

Hv. þm. spyr mig að því hvort ég styðji frv. Í þessari mynd get ég ekki stutt frv. Ég hef miklar efasemdir um frv. Ég hef hins vegar kosið að taka til máls strax við 1. umr. um frv. til að reyna að hafa áhrif á það sem síðar gerist í nefndinni. Ég hef reynt að flytja fyrir því frambærileg efnisleg rök. Ég vona að tillit verði tekið til þeirra ábendinga minna í nefndinni.