Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 16:07:31 (1370)

1998-11-19 16:07:31# 123. lþ. 28.5 fundur 254. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GMS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Gunnlaugur M. Sigmundsson:

Herra forseti. Það er allsérstakt að koma í ræðustól til að ræða þetta mikla mál eftir að hafa hlustað á orðaskak þeirra félaga í sambræðingnum sem svo hefur verið nefndur. Mér virðist nú á því tali sem fór áðan fram milli þeirra hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og Guðmundar Árna Stefánssonar að í þeirra huga snúist þetta mál býsna mikið um það hvort menn komist að sem þingmenn á eftir eða ekki. En það er í mínum huga aukaatriði málsins.

Ég tel, herra forseti, að til umræðu sé margslungið mál og ég vil geta þess strax í upphafi áður en lengra er haldið, að ég styð meginmarkmið frv., þó svo að forsendur mínar fyrir þeim stuðningi séu e.t.v. byggðar á öðrum atriðum en sumra annarra þingmanna sem styðja þó þetta frv. Ég ætla í máli mínu hér á eftir að fara yfir þau atriði sem ég legg til grundvallar því mati mínu að rétt sé að styðja málið og gera það vonandi í stuttu máli.

Ég vil þó segja í upphafi að ég gef ekkert fyrir þann rökstuðning sem hér hefur verið nokkuð rætt um í dag að það þurfi að jafna atkvæðisrétt á milli íbúanna eftir því hvar þeir búa. Ég hef verið kjósandi í Reykjavík býsna lengi og ég get sagt fyrir sjálfan mig að aldrei hefur það angrað mig að atkvæðavægi mitt væri eitthvað annað en þeirra sem greiða atkvæði hvort sem það er á Austurlandi eða Vestfjörðum eða annars staðar á landsbyggðinni. Ég verð að segja alveg eins og er að ég þekki fáa íbúa í þessum þéttbýliskjördæmum sem þetta angrar eða þetta liggur á sálarlífi þeirra. Það er helst að það séu þingmenn af þessu svæði sem eru að hugsa um að auka atkvæðavægið á svæðinu þannig að þeir geti betur tryggt það að þeir komist að sjálfir. Ég held að kannski sé það undirrótin að þessu tali öllu um jöfnun atkvæðisréttar.

Ef menn vilja hins vegar reyna að ná þessu með jöfnun atkvæðisréttar þá væri miklu betra í mínum huga að við gæfum mönnum bara frjálst val um hvar þeir kjósi. Menn gætu t.d. þremur, fjórum mánuðum fyrir kosningar skráð sig í því kjördæmi þar sem þeir helst vildu kjósa þar sem mönnum litist best á þau þingmannsefni sem í boði væru. Þá værum við komnir í alvörujöfnun þar sem samkeppnin réði og það eru býsna margir í þessum sal sem skreyta sig á tyllidögum með samkeppninni en þegar kemur að málum eins og þessu eru menn ekki tilbúnir að taka þátt í samkeppninni sjálfir, að taka þátt í samkeppni milli kjördæma.

Ég tel rétt að minna á það að kerfið, sem við erum með núna og er verið að tala um að leggja af, býður þó upp á jöfnun milli stjórnmálaflokka sem mér finnst mikið atriði í málinu öllu, núna er full jöfnun á milli þeirra sjónarmiða sem flokkarnir standa fyrir. Það er líka rétt að minna á varðandi jöfnun atkvæðisréttar að í Evrópusambandinu, sem margir sem sitja venjulega í þessum sal eru býsna hrifnir af, er ekki mikil jöfnun í atkvæðisrétti þegar Lúxemburg, Frakkland og Þýskaland eru allt ríki sem hafa þar sama vægi, og mér þætti fróðlegt að vita hvort margir þar á bæ fá ekki sofið sakir áhyggna af skorti á jöfnun atkvæðisréttar.

Það sem mestu máli skiptir í mínum huga varðandi stækkun kjördæmanna, ef af samþykkt þessa frv. verður, er það sem leiðir af því að stækka kjördæmin. Neikvæði hluturinn við stækkun kjördæmanna er sá að hætta er á því að persónuleg tengsl á milli þingmanns og kjósenda minnki, verði jafnvel eins og ég ímynda mér að sé hér á þéttbýlissvæðunum þar sem persónulegt samband þingmanns og kjósenda er nánast ekki neitt en mikil hætta er á því að svo verði þegar kjördæmin eru orðin mjög stór.

Sú spurning kemur upp í hugann hve stórt má kjördæmi vera svo að þingmenn komist yfir það að viðhalda því persónulega sambandi sem ég tel vera eitt aðalsmerki landsbyggðakjördæmanna. En það ber líka að hafa í huga að möguleikar þingmanna úr fámennum kjördæmum til að hafa áhrif í dag fara mjög minnkandi. E.t.v. má ekki segja það upphátt en ég tel að það sé staðreynd að þingmenn úr fámennari kjördæmunum hafi í dag mun minni möguleika til þess að hafa áhrif á landstjórnina en þingmenn sem koma úr þéttbýlissvæðum þar sem mikill kjósendafjöldi er á bak við. Ég tel hættu á því ef þetta heldur svona áfram að þá séu líkur á því að rödd dreifbýlisins hafi æ minni áhrif í þingsölum Alþingis.

Í mínum huga er veigamesta réttlætingin fyrir samþykkt þessa frv. sú að stækka áhrifasvæði landsbyggðarþingmanna og koma þannig aftur á auknum slagkrafti þeirra þingmanna sem tala fyrir munn þeirra sem búa á landsbyggðinni. Sem þingmaður Vestfjarða tel ég mjög jákvætt að áhrifasvæðið stækkar, séð frá sjónarhóli þingmanns Vestfjarða stækkar áhrifasvæði okkar bæði til suðurs og austurs. Ég tel að það sé líka mjög af hinu góða að fjölga þingmönnum sem þurfa að taka tillit til þeirra hagsmuna sem íbúar Vestfjarða hafa og eru að sumu leyti aðrir en hagsmunir þeirra sem búa í þéttbýlinu.

Ég tel einnig mjög af hinu góða að þingmannahópar verði af svipaðri stærð. Eins og þetta er núna, þar sem mjög stórir þingmannahópar eru úr Reykjavík og Reykjanesi en fámennir af Austurlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og Vesturlandi, er þetta mjög óæskilegt. Við vitum að það er hægt á Alþingi að halda þannig á málum að etja þingmannahópum einstakra kjördæma saman þannig að landsbyggðarþingmenn nái ekki vopnum sínum og þess vegna tel ég að það væri betra að þingmannahóparnir verði af svipaðri stærð.

[16:15]

Mér er alveg ljóst að ekki munu allir þingmenn lifa af þá breytingu sem hér er boðuð. Einkahagsmunir og músarholusjónarmið mega hins vegar ekki verða ráðandi þegar menn taka afstöðu til þessa máls. Það hvort menn sjái líkur á að þeir nái, eins og ég kalla það, að lifa af þær kosningar sem fram fara eftir að þetta frv. hefur verið samþykkt tvisvar á Alþingi má ekki ráða afstöðu manna, eins og ég því miður óttast að sé í sumum tilvikum. Framþróun verður auðvitað að vera í kjördæmamálum eins og annars staðar í þjóðfélaginu, og það er staðreynd að allar heildir eru að stækka og síst vanþörf á þegar við búum í þjóðfélagi sem er jafnlítið og það íslenska.

Mér er hins vegar vel ljóst að ótti er víða úti í hinum dreifðu byggðum við þá breytingu sem hér er boðuð. Ástæðan er vafalítið sú að fjölmargir þingmenn, bæði nú en einkum þó fyrr á árum, hafa alið á því að þeir eigi að vera með puttana í öllum málum í kjördæminu, nauðsynlegt sé að þeir skipti sér af atvinnulífi í kjördæminu og fleiri málum. Í mínum huga eru þingmenn fyrst og fremst kosnir í kjördæmunum í þeim tilgangi að bera inn á löggjafarsamkunduna þau mismunandi sjónarmið til mála sem búseta óneitanlega hefur á afstöðu manna til þess hvernig þeir sjá þau mál sem eru til umfjöllunar á Alþingi. Þessu þurfa þeir sem á landsbyggðinni búa að gera sér grein fyrir. Það er fyrst og fremst hlutverk þingmanna að vera löggjafarsamkunda en ekki að skipta sér af atvinnulífinu í þeim mæli sem sumir hafa gert á undanförnum árum og ég tel ekki vera af hinu góða.

Við verðum jafnframt því sem við samþykkjum þetta frv., sem ég reikna með að gerist, að ná saman um að standa vörð um jafnræði milli landshluta en á það skortir mikið að svo sé í dag. Hér hefur verið rætt um að ekki megi blanda saman byggðamálum og samþykkt þessa frv. Í mínum huga er í rauninni engin önnur réttlæting fyrir því að fara í þessa breytingu en sú að menn séu þar með að stækka heildir til að auka það sem ég kalla slagkraft landsbyggðarinnar, gera landsbyggðarkjördæmin stærri og sterkari til að koma sínum sjónarmiðum fram hér á hinu háa Alþingi.

Þá tel ég að við séum komin að kjarna málsins sem er að með jöfnun á fjölda þingmanna í kjördæmunum stóraukast möguleikarnir til að tryggja aukinn jöfnuð á aðstöðu fólks til að njóta opinberrar þjónustu. Eins og þetta er í dag er býsna mikill munur á aðstöðu íbúa landsbyggðarinnar t.d. til samgangna eða til að hafa samband við opinberar stofnanir, njóta þeirrar þjónustu sem þar er boðin, og svo þeirra íbúa sem búa í þéttbýlinu. Hér hefur verið boðað að samhliða þessu frv. verði gert átak í byggðamálum og það er ein af forsendum þess að ég hef ákveðið að styðja þetta mál að það átak nái jafnframt fram að ganga.

Varðandi einstaka þætti frv. langar mig að nefna nokkur atriði. Ég tel að tilkoma þriggja landsbyggðarkjördæma sem öll hafa sterkan snertiflöt við þéttbýli muni draga úr þeirri vaxandi togstreitu sem mér finnst vera að myndast milli þéttbýlis og dreifbýlis. Við vitum að tvö þessara landsbyggðarkjördæma liggja að þéttbýlissvæðinu á suðvesturhorni landsins og eitt þeirra hefur þéttbýlissvæðið í kringum Eyjafjörð inni í kjördæminu og ég held að þetta muni verða til þess að minnka þá togstreitu sem mér finnst núna vera að aukast milli þessara svæða.

Ég er hins vegar á móti því ákvæði í 2. gr. að unnt sé að færa þingsæti milli kjördæma og mun ekki að óbreyttu greiða því ákvæði atkvæði mitt. Mér finnst að menn séu núna að ná ákveðinni sátt um þetta mál, þ.e. breytta kjördæmaskipan, og ef sú sátt á að halda þarf það kerfi sem við byrjum með að gilda í allnokkurn tíma. Mér finnst ekkert fráleitt að að gefa sér það, ef menn ætla að breyta kjördæmaskipaninni, að það gildi í a.m.k. 20 ár. Ég óttast mjög að ef byrjað er að hræra í þessu eftir tvö eða þrjú ár sé sú sátt sem hugsanlega er að nást núna í þessu máli farin fyrir lítið.

Hvað Norðvesturkjördæmið varðar, þ.e. Vesturland, Vestfirði og Norðurland vestra þá er ljóst að það kjördæmi stendur hvað veikast hvað íbúaþróun varðar, og því hefði ég talið eðlilegt og mig langar að beina því sérstaklega til forsrh. að það verði skoðað að gera þá breytingu að Mosfellsbær og Kjósarhreppur verði færðir yfir í Norðvesturkjördæmið, verði teknir úr Suðvesturkjördæminu. Í frv. kemur fram að kjósendafjöldi í Suðvesturkjördæminu er rúmlega 40 þús. manns á móti 21.500 í Norðvesturkjördæminu. Ég held það væri mjög til að styrkja Norðvesturkjördæmið ef Mosfellsbær og Kjósarhreppur færðust þar yfir og snertiflötur Norðvesturkjördæmisins lægi beint upp að Reykjavík með þeim hætti.

Ég er einnig mjög hugsi yfir því af hverju Seltjarnarneskaupstaður er hafður í Suðvesturkjördæminu þegar beint virðist liggja við að hafa þennan svefnbæ Reykjavíkur í Reykjavíkurkjördæmi vestur. Mig langar einnig að spyrja um afstöðu forsrh. til þessa máls, af hverju Seltjarnarneskaupstaður er ekki hafður í Reykjavíkurkjördæmi vestur. Aðrar eins breytingar eru menn nú að gera eins og þessar og mér finnst mjög óeðlilegt að vera með þessa eyju þarna, þetta nes sem er eins og eyja vestan við Reykjavíkurkjördæmið.

Mér finnst það gott ákvæði að lágmarksfylgi þurfi á landsvísu til að fá úthlutað jöfnunarsæti. Ég tel hins vegar að það sé spurning um hvort ekki eigi að útvíkka þetta þannig að settur sé upp þröskuldur í kjördæmunum einnig, þannig að komið sé í veg fyrir það sem ég vil kalla sprengiframboð sem oftast eiga rætur sínar að rekja til persónulegrar óánægju og vonbrigða einstakra manna frekar en að um sé að ræða eitthvað sem eigi skylt við lýðræði eða lýðræðisþróun. Ég hefði því stutt það að settur væri upp þröskuldur í kjördæmunum þannig að ákveðið lágmarksfylgi þyrfti í hverju kjördæmi til að koma manni að. Þeir sem hér hafa starfað gera sér flestir grein fyrir því að einn maður sem kosinn er í einhverju kjördæmi kemur engu fram, hann hefur engin áhrif á Alþingi. Þetta er starf sem gerist í hópvinnu. Það er því í rauninni sóun á þeim takmarkaða fjölda, þessum 63 þingsætum, að vera að bjóða upp á að einstök sprengiframboð geti komið inn mönnum af því að ekki sé þröskuldur í kjördæmunum.

Að lokum langar mig að víkja að stjórnmálalífi og starfi stjórnmálaflokka í stækkuðum kjördæmum ef af samþykkt þessa frv. verður. Ég held að mikil breyting og mikil uppstokkun muni eiga sér stað í hinu pólitíska starfi í kjördæmunum. Það liggur alveg ljóst fyrir að þeir flokkar, sem hafa starfað flestir hverjir í áratugi, hafa byggt upp sitt skipulag miðað við þau kjördæmi eins og þau eru núna og reyndar frá þeirri kjördæmaskipan sem gilti fyrir það kerfi sem við nú búum við. Ég óttast að þegar við förum að breyta þessari kjördæmaskipan geti komist það mikið rót á að starf grasrótarinnar í stjórnmálahreyfingunni, sem ég tel vera grundvöll fyrir því að lýðræði fái staðist, verði jafnvel í hættu. Við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum taka þá áhættu að stækkun kjördæmanna, sem ég styð eins og ég hef áður sagt, leiði til þess að starf grasrótarinnar í stjórnmálastarfinu minnki. Þess vegna finnst mér það mjög góð hugmynd og reyndar nauðsynleg að ríkisvaldið aðstoði þingmenn við að halda uppi flokksstarfi í kjördæmunum. Í mínum huga skipta nokkrir tugir milljóna í kostnað ekki nokkru máli í þessu sambandi þegar við erum að tala um sjálfa stoðina undir stjórnmálastarfi og lýðræðinu í landinu. Ég styð það eindregið að jafnhliða því að menn vonandi samþykkja þetta frv. verði gert átak í að hjálpa þingmönnum og flokkunum að byggja upp starf sitt í þessum þremur landsbyggðarkjördæmum. Ég held það sé minna vandamál hér á þéttbýlissvæðinu, í Reykjavíkurkjördæmunum og Suðvesturkjördæminu. Þar eru sjálf flokksapparötin og þar eru höfuðstöðvar flokkanna. Það er því minna vandamál.

Herra forseti. Ég ítreka stuðning minn við frv. og vona að það nái fram að ganga í góðri sátt sem flestra. Ég minni á að ég styð ekki það ákvæði 2. gr. sem gerir kleift að taka upp þessa núverandi skipan á þingmannafjölda ef breyting verður á íbúafjöldanum því ég tel, eins og ég sagði áðan, að sátt þurfi að ríkja um þetta mál og sú sátt verður ekki ef byrjað verður að rótast með þær forsendur sem menn leggja til grundvallar í dag innan tiltölulega fárra ára.

Herra forseti. Ég vona að sem flestir, sem hér taka til máls, lýsi yfir stuðningi við málið þannig að fyrir slit þings í vor liggi fyrir að þetta sé sú leið sem við ætlum að fara. Ég hefði síðan talið rétt að menn samþykktu þetta sem fyrst eftir að nýtt þing kemur saman þannig að menn fari fljótlega að starfa á grundvelli nýrrar kjördæmaskipanar því mér er það alveg ljóst að um leið og búið er að samþykkja þetta frv. í fyrsta skipti á Alþingi, þá fara þingmenn í reynd að horfa til hinnar nýju skipanar og þeir fara að starfa í hinum nýju, stóru kjördæmum og því sé rétt að hafa þá skipan bara klára strax og samþykkja frv. að nýju innan nokkurra mánaða frá því alþingiskosningar fara fram í vor.