Tryggingagjald

Fimmtudaginn 19. nóvember 1998, kl. 18:35:31 (1398)

1998-11-19 18:35:31# 123. lþ. 28.9 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 123. lþ.

[18:35]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra getur þess að hér hafi verið dreift frv. þar sem afsláttur vegna hlutabréfakaupa er framlengdur. En ég gæti þá spurt í framhaldi af því: Hvers vegna er hann ekki aukinn aftur? Ég held að það sé mjög hagkvæm leið til þess að draga úr þenslunni sem er í þjóðfélaginu í dag, sér í lagi miðað við þau miklu einkavæðingaráform sem hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hyggjast nú ráðast í.

Varðandi þá kosti sem ég nefndi sagði hæstv. ráðherra að oft á tíðum væru menn þá að flytja fjármagn úr einni sparnaðarleið yfir í aðra. Það er mergur málsins, herra forseti. Ég tel að fólkið eigi að fá að velja um það.

Ísland er líklega eina landið sem ég þekki til hér á vesturhveli þar sem engar aðferðir eru til af hálfu hins opinbera til að örva menn til að spara fyrir hag barna sinna ef menn horfa til framtíðar. Það sem meira er, bankakerfið hefur ekki neinar slíkar leiðir. Ef maður gengur inn í íslenska bankastofnun og segir: Ég ætla að spara peninga og leggja til hliðar með það í huga að barnið mitt njóti þess í framtíðinni, þá kemur maður að tómum kofa. Það eru engar slíkar leiðir til.

Ég tel, miðað við það efnahagsumhverfi sem við búum í núna og miðað við nauðsynina á því að draga úr þenslunni, að æskilegt væri að veita fólki þennan möguleika. Ég er ekki viss um að það mundi leiða til þess að menn flyttu sparnað sinn úr einhverju öðru yfir í það. Ég held að þetta gæti orðið aukasparnaður.

Ég er að velta fyrir mér valkostunum, herra forseti. Hæstv. ráðherra tilheyrir þeim stjórnmálaflokki sem vill leyfa mönnum að velja og mér finnst að menn eigi að fá að velja þarna á milli. Ég fagna því hins vegar að hæstv. ráðherra segir að húsnæðissparnaðarreikningarnir séu til umfjöllunar. Ég spyr hann þá á móti: Kemur ekki til greina, eins og hefur nú verið velt upp í leiðurum tveggja mikilvægra dagblaða á þessu hausti, að setja upp sérstaka námsmannareikninga sem fela það í sér að foreldrar leggja til hliðar með hag og menntun barna sinna fyrir augum?