Skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 12:20:06 (1560)

1998-12-03 12:20:06# 123. lþ. 32.3 fundur 282. mál: #A skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[12:20]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Hér kom uppbót á framsöguræðu hæstv. ráðherra og er það þakkarvert. Einnig þakka ég honum fyrir ítarefni um sagnfræðilega þætti sem komu fram í máli mínu og hæstv. ráðherra bætti um betur. Ég heyrði líka á hæstv. ráðherra að hann teldi að þetta mál væri ekki svo gullslegið að ekki mætti gera betur. Það er aðalatriðið og hugsunin með ábendingum mínum var að koma því á framfæri við hv. nefnd að litið verði á vissa þætti málsins sem ég hef m.a. vakið athygli á og sjálfsagt eru þeir fleiri.

Ég vil segja um 5. gr. að þegar hún er lesin án skýringa, án þess að maður viti hvort aðallega sé verið að fjalla um almenningssamgöngur, það orð kemur hvergi fram í þessari grein, eða hvort um er að ræða að úthluta einkaleyfi á akstri t.d. innan míns heimasveitarfélags á leiðinni frá Neskaupstað til Reyðarfjarðar sem samkvæmt þessari grein væri fyllilega kleift ef opið væri að ryðja út aðila sem hefði þar sérleyfi á þeirri leið og sveitarfélagið tæki það í sínar hendur innan sveitarfélagsins. Hér er ekki verið að tala um almenningssamgöngur eingöngu. Það er ekki verið að tala um að sveitarstjórnin úthluti einhverjum þriðja aðila heldur að sveitarstjórnin taki reksturinn í sínar hendur. Það er innihald þessarar greinar. Sveitarfélögum er heimilt að taka að sér reglubundna fólksflutninga, þ.e. sérleyfi, innan síns lögsagnarumdæmis. Þetta er ekki um það að sveitarfélögin komi í stað ríkisins, ekki eins og þetta er orðað hér, og sveitarstjórn fari að úthluta einhverjum öðrum en sjálfri sér. Þetta er um sveitarfélagsrekstur á samgöngum með sérleyfi, með einkaleyfi, eins og textinn er eða þannig les ég í þetta.

,,Nú ákveður sveitarstjórn að taka í sínar hendur rekstur reglubundinna flutninga innan síns lögsagnarumdæmis ...``

Ég bið um útlistanir ef þetta er ekki hugsunin.

Síðan spyr ég um það sem er efst á bls. 6 þar sem segir, virðulegur forseti, --- og kannski rétt að tengja það aðeins við það sem segir neðst á bls. 5. Það er í sambandi við leyfi til að stunda fólksflutninga á landi og herðingu á þeim. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Þá er einnig gerð krafa um að umsækjendur fari á námskeið áður en þeir fái leyfi úthlutað og er það á hendi Vegagerðarinnar að sjá um að slík námskeið verði haldin.`` --- Þeir eru því farnir að taka að sér slíka fræðslu. --- ,,Einnig er kveðið á um fullnægjandi fjárhagsstöðu en nánar skal kveðið á um hana í reglugerð.`` --- Síðan segir, og ég bið hæstv. ráðherra að leggja við hlustir því ég er að beina hnitmiðaðri fsp. til hans: --- ,,Þessi ákvæði um skilyrði leyfis eru að miklum hluta komin til vegna reglna Evrópusambandsins, einkum reglugerðar 96/26/EB sem innleidd var í íslenska löggjöf með reglugerð nr. 462/1998, um aðgang að starfsgrein farmflytjenda og farþegaflytjenda á landi og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum og öðrum vitnisburði um formlega menntun í innanlands- og millilandaflutningum. Í viðauka með reglugerðinni er einnig tíundað námsefni á því námskeiði sem umsækjendum um leyfi samkvæmt þessu frumvarpi er gert að taka.``

Mín spurning er sú: Var tiltekið ákvæði lögtekið með reglugerð, eins og hér segir? Mér skilst að það sé áhugamál hæstv. ríkisstjórnar að gæta þess að Evrópurétturinn vaði ekki óhindrað fram með reglugerðarsetningu einstakra ráðuneyta og mér kemur á óvart ef hæstv. samgrh. stendur fyrir slíkum --- virðulegur forseti, mér datt í hug að segja subbuskap. Ég ætla ekki að nota það beint í þessu samhengi en mér væri það næst skapi. Það gengur auðvitað ekki að við séum að láta löggjafarvaldið úr höndum okkar í þessari stofnun jafnvel þó að sumum kunni að finnast um tiltölulega léttvæg efnisatriði að ræða. Það er matsatriði en leikreglurnar verða að vera skýrar. Kannski á hæstv. ráðherra skýringar á þessu.

Í sambandi við það síðan almennt, því sumt af því sem ég var að vekja athygli á var um orðalag og framsetningu, er það engin réttlæting þegar verið er að setja fram nýjan frumvarpstexta á Alþingi að eitthvað hafi staðið í gildandi lögum. Það eitt út af fyrir sig er ekki réttlæting á því. Við tölum stundum um lagabætur. Var ekki maður uppi eitt sinn sem hét Magnús lagabætir? Þeir hafa vissulega margir verið sem hafa verið að bæta lög og við erum að reyna það á Alþingi en þá eigum við ekki að taka upp slæmar forskriftir úr eldri löggjöf jafnvel þótt gildandi sé.