Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:23:34 (1582)

1998-12-03 14:23:34# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að munnhöggvast við minn ágæta vin, hv. þm. Guðmund Hallvarðsson, um þessi mál. Ég hef ekki sagt annað en að ég telji að í framtíðinni gæti þetta orðið svona. Ég get alveg séð það fyrir mér.

Í ræðu minni áðan sagði ég einnig að fé væri takmarkað og því þyrfti að forgangsraða, þess vegna væru Grindavík og Sandgerði á undan Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi. Við teljum mikilvægara að leiðrétta þau mál en að halda áfram uppbyggingu í höfnum þar sem menn hafa meiri fjárráð og geta gert það á eigin spýtur, eins og Reykjavíkurhöfn hefur getað gert fram að þessu.

Af hverju ekki Dyrhóley? Það er náttúrlega út í hött að bera þetta tvennt saman. Við erum aftur á móti alltaf að tala um, þegar verið er að hugleiða breytingar í framtíðinni, hvert mesta magnið fari. Hvar eru dreifingarmiðstöðvarnar og hvert er styst að koma vörum til sem flestra? (Gripið fram í: Akkúrat.)

Það sem skiptir máli þarna er að sjálfsögðu aksturinn og siglingin, ef við berum það tvennt saman. Er betra og ódýrara að sigla með þetta fyrir Reykjanes og inn í Faxaflóa en að sigla vörur til Þorlákshafnar og keyra þaðan um Suðurstrandarveg og til Reykjavíkur? Þetta er spurningin. Er þá ódýrara að keyra það yfir Kjalveg í stað þess að flytja vörur norður og upp í Borgarfjörð og norður yfir heiðar? Allt eru þetta fyrst og fremst bollaleggingar í tengslum við hafnaáætlunina og eiga í sjálfu sér ekkert skylt við hana að öðru leyti.