Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 14:36:29 (1585)

1998-12-03 14:36:29# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[14:36]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli þessu harðlega. Alla vega hef ég ekki dregið Reykjavíkurhöfn inn í umræðuna eða talað um að það ætti að draga úr henni kraft. Ég hef hins vegar bent á orð þingmannsins og önnur orð sem ég ætla að fara yfir hér, um að Reykjavík eigi að duga öllu svæðinu. Að sjálfsögðu vitum við að fyrirhugaðar eru framkvæmdir við að flutt verði á nýjan stað í Reykjavík og það væri eðlilegt að þeir sem stýra þessu skoðuðu hvort það væri e.t.v. skynsamlegt að lítil gámahöfn eða þjónustuhöfn fengi stuðning í Kópavogi þrátt fyrir það að byggja eigi upp meira í Reykjavík. Við skulum bara hafa það á hreinu.

Herra forseti. Ég bar fram fyrirspurnir til samgrh. um hafnamál í fyrravetur vegna þess að ég var orðin nokkuð leið á því hversu misvísandi tilvitnanir var verið að gera varðandi hafnir á norðursvæðinu í mínu kjördæmi. Í svari ráðherrans er vísað í 24. gr. hafnalaga um áætlanagerð Siglingastofnunar þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Við áætlanagerðina og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild.``

Svo segir síðar, með leyfi forseta:

,,... var það mat Siglingastofnunar, hafnaráðs og samgönguráðuneytis að nægilegt framboð væri af viðleguköntum á höfuðborgarsvæðinu.``

Ég var að vísa til þessa, þ.e. að ef framboðið er nægilegt í Reykjavík, hvort það þýði þá aldrei, aldrei í þessum höfnum sem vilja láta líta örlítið sértækt til sín. Reykjavík fékk stuðning á uppbyggingarskeiði sínu og ég benti á að höfnin í Kópavogi er sennilega 40 ef ekki 50 ára gömul, þ.e. elsti hluti hennar. Hún hefur verið byggð algerlega upp af hálfu sveitarstjórnarinnar og það hefði ekki verið óeðlilegt ef hún hefði fengið einhvern annan stuðning en þessar lendingarbætur sem ég nefndi.