Hafnaáætlun 1999-2002

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:05:31 (1591)

1998-12-03 15:05:31# 123. lþ. 32.6 fundur 291. mál: #A hafnaáætlun 1999-2002# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að segja örfá orð í framhaldi af orðum hæstv. ráðherra um framgöngu jafnaðarmanna við að koma af stað Helguvíkurhöfn. Ég tel mér skylt að rifja upp hvernig bygging Helguvíkurhafnar komst af stað. Það var eftir baráttu sveitarstjórnarmanna í Reykjanesbæ eða Keflavík/Njarðvík sem þá var að það tókst með miklu harðfylgi þáv. samgrh. sem var hæstv. núv. samgrh., Halldór Blöndal, að sú höfn komst á hafnaáætlun þó ekki væri búið að gera ráð fyrir því áður. Ég hygg að Suðurnesjamenn hafi alla tíð haft stuðning hæstv. samgrh. Halldórs Blöndals við að sú framkvæmd varð að veruleika. Án tilstillis hans hefði það ekki orðið að okkur mati. Mér finnst full ástæða til að það komi fram og ég komi því í þingtíðindi að hæstv. ráðherra brást alveg sérlega vel við þeim óskum. Sú framkvæmd hefur svo sannarlega borgað sig enda er risin þar ein stærsta og öflugasta loðnuverksmiðja landsins og aðrar framkvæmdir fyrirhugaðar.

Varðandi hafnasamlög var einnig farið út í að stofna hafnasamlag á Suðurnesjum að frumkvæði hæstv. samgrh. og ég hygg að flestallir sem hafa komið nálægt þeirri stofnun af hálfu sveitarstjórnarmanna og hafnarstjórnarmanna á svæðinu séu ánægðir með það hvernig úr hefur ræst og menn horfi björtum augum fram á stækkun þess hafnasamlags þó síðar verði.