Kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 15:31:38 (1594)

1998-12-03 15:31:38# 123. lþ. 32.93 fundur 132#B kerfisbreyting í húsnæðismálum og ástandið á leigumarkaði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Nú er komið á daginn að varnaðarorð okkar í stjórnarandstöðunni, samtökum launafólks, hagsmunasamtökum leigjenda og þeirra sem hafa sinnt félagslegu húsnæði, um vanhugsaðar breytingar á húsnæðiskerfinu voru á rökum reist. Það er ekki ofsögum sagt að neyðarástand sé að skapast í húsnæðismálum. Í Reykjavík einni eru 271 á biðlista eftir íbúðum hjá Öryrkjabandalaginu, 471 hjá Félagsmálastofnun, hjá húsnæðisnefnd borgarinnar eru áhrif nýju laganna metin á biðröð sem telur 210 einstaklinga og fjölskyldur, 50 eru á biðlista hjá Félagsstofnun stúdenta og 81 hjá leigumiðlunum. Alls eru þetta 1.083 einstaklingar og fjölskyldur. Eitthvað kunna þessar tölur að skarast en að sögn talsmanna Leigjendasamtakanna kemur á móti að fjöldi manns í húsnæðisleit er hvergi á skrá.

Staðreyndin er því sú að í Reykjavík einni eru á annað þúsund einstaklingar og fjölskyldur á biðlistum, þar af 471 fjölskylda í brýnni neyð. Í Kópavogi eru 120 fjölskyldur á biðlistum, á Akureyri eru yfir 100 einstaklingar og fjölskyldur á biðlista og um 70 í Hafnarfirði. Þetta hefur leitt til þess að verð á leiguíbúðum hefur rokið upp úr öllu valdi og eru dæmi þess að sögn talsmanna Leigjendasamtakanna að verið sé að leigja tveggja herbergja íbúðir á 50 þús. kr. á mánuði en algeng leiga á slíkum íbúðum var til skamms tíma 35--40 þús. Gera menn sér grein fyrir því að hæstu örorkubætur eru um 63 þús. kr. á mánuði? Gera menn sér grein fyrir því hvað muni gerast þegar ný húsnæðislöggjöf tekur gildi um áramótin? Af hennar völdum er fyrirséð að enn frekari sprenging verður á leigumarkaði því samkvæmt nýju húsnæðiskerfi er lokað á félagsleg úrræði í húsnæðismálum. Þannig má nefna að fram að þessu hefur fólk getað fengið sérstakt lán vegna útborgunar á félagslegri íbúð. Þetta er tekið af en þessi ráðstöfun mun þýða að á þriðja hundrað fjölskyldur, sem hefðu getað keypt íbúð verða að leita út á leigumarkaðinn og þeir sem áttu skjól í kaupleigukerfinu verða sviptir því skjóli og þröngvað út á almennan leigumarkað.

Dæmið lítur svona út: Fólk sem áður gat keypt eða nýtt sér félagslegar lausnir er nú sett á guð og gaddinn og þannig er það í alvöru. Í Reykjavík einni er fyrirséð að fjöldi barnafjölskyldna verður á götunni vegna þess að engin úrræði er að hafa og þau bæjarfélög sem hafa haft neyðarathvarf á sínum snærum upplýsa að þar sé nú allt fullt út úr dyrum.

Þetta er náttúrlega grafalvarlegt mál og hneyksli því þetta eru hamfarir af manna völdum. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að skipta þurfi um ríkisstjórn þegar í stað og að tekið verði á þessu máli með neyðaráætlun. Jafnvel það sem ríkisstjórnin lofaði að gera hefur hún ekki framkvæmt. Enn skortir reglugerðir þar sem mælt yrði fyrir um framkvæmd laganna. Þessar reglugerðir eru ekki komnar og það litla sem komið er er í drögum. Húsnæðisnefndir víðs vegar um landið geta engu svarað um kjör, um greiðslumat og annað sem nauðsynlegt er að liggi fyrir. Af þessum sökum herðist enn á hnútnum í kerfinu.

En það alvarlega er að jafnvel þótt reglugerðirnar komi fram og greiðslumatið þá stendur hitt eftir að þúsundum einstaklinga og fjölskyldna sem áður gátu nýtt sér félagsleg úrræði og eignast eða leigt íbúðir á félagslegum kjörum, þ.e. þær höfðu hagstæðari greiðslukjör en gerist á markaði, þessum fjölskyldum, láglaunafólki, öryrkjum, námsmönnum, efnalitlu fólki verður nú vísað út á leigumarkaðinn, markað sem í rauninni er ekki til. Framboð er langt undir eftirspurn og verðlag í engu samræmi við greiðslugetu fólks. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera við þessar aðstæður þar sem á annað þúsund fjölskyldur í landinu eru á biðlistum eftir leiguhúsnæði? Samkvæmt fjárlögum sem nú liggja fyrir Alþingi ætlar ríkisstjórnin að lána til allt að 120 íbúða á næsta ári.

Ég spyr hæstv. félmrh. hvort ríkisstjórninni sé virkilega alvara með þessu og ég vil einnig biðja hann að útskýra fyrir okkur jólagjöfina í ár frá ríkisstjórninni til leigjenda. Húsaleigubætur hafa verið greiddar fyrir fram. Frá 1. janúar verða þær greiddar eftir á. Telur ríkisstjórnin að leigjendur hafi efni á að verða af húsaleigubótum í einn mánuð? Telur ríkisstjórnin að jólahátíðin með öllu því sem henni fylgir í útgjöldum sé rétti tíminn til að skerða kjör leigjenda?